07.06.1985
Neðri deild: 90. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6088 í B-deild Alþingistíðinda. (5545)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Frsm. 1. minni hl. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það eru lánsfjárlög fyrir árið 1985 sem hér eru á dagskrá. Það er 7. júní í dag. Margir hafa bent á að það hefði verið mikið eðlilegra fyrir ríkisstj. úr því sem komið er að afgreiða þau bara 31. des. því að þá yrðu tölurnar örugglega réttar og þá yrði víst fengin reynsla fyrir því að þær áætlanir eru síður vitlausar sem eru gerðar eftirá.

Ég hygg að þess séu engin dæmi að lánsfjárlög hafi verið tilbúin jafnseint og hér er um að ræða og er það auðvitað enn eitt dæmið um hvernig efnahagsstjórn núv. ríkisstj. er, algerlega í ólestri. Ég hef fylgst með þróun þessara mála hér á hv. Alþingi í vetur og ég hef skráð í dagbækur mínar þróun talna í lánsfjárlagafrv. Ég hygg að ekkert stjfrv. hafi tekið jafnafgerandi breytingum hér á þinginu í vetur og stjfrv. um lánsfjárheimildir fyrir ríkið árið 1985 nema ef vera skyldi frv. um ríkisendurskoðun sem var tekið úr höndum ríkisstj. og breytt í grundvallaratriðum. Ef við tökum hér frv. til lánsfjárlaga, þá hafa tölur í því breyst til þessa fjórum sinnum, það er nú ekki meira, en þá er þess að geta, herra forseti, að það er eftir heil umr. hér á hv. Alþingi í Nd. og auk þess ein umr. í Ed. þannig að sennilega er hægt að breyta þessu svo sem eins og tvisvar í viðbót. Þetta sýnir þá festu eða hitt þó heldur sem er í vinnubrögðum ríkisstj. í efnahagsmálum.

Ef við tökum fyrst erlendar lántökur samkv. 1. gr. frv., þá var fyrst gert ráð fyrir að þær væru 2489 millj. kr., það var lögð á það áhersla að þetta væri nákvæmlega niðurnjörvuð tala og bak við hana lægju hin ýtrustu efnahagsvísindi og hefðu þar komið nærri sérfræðingar Þjóðhagsstofnunar, Seðlabanka og fjárlaga- og hagsýslustofnunar og lagt sig fram um að finna hina einu sönnu tölu fyrir erlendar lántökur samkv. 1. gr. frv. á árinu 1985. En svo merkilega vildi nú til að þessi vísindi dugðu ekki nema í fáeinar vikur. Þá fór fram umr. um málin í Ed. og eftir hana var þessi tala í fyrsta lagi hækkuð og í öðru lagi lækkuð og í þriðja lagi hækkuð aftur. Þá varð hin vísindalega niðurstaða meiri hl. hér á Alþingi sú að erlendar lántökur samkv. 1. gr. þessa frv. ættu ekki að vera 2489 millj. kr., heldur nákvæmlega 2436 millj. kr. Þannig hafði talan á milli 1. og 2. umr. í Ed. lækkað um 53 millj. kr. Og nú héldu flestir að hin endanlegu efnahagsvísindi ríkisstj. væru fundin, þetta væri sú tala sem ætti að miða við. En viti menn. Þegar málið kemur til Nd. er enn þörf á því að breyta þessari tölu og ríkisstj., sem setti sér það mark að skera niður erlendar lántökur um þúsund milljónir og lækka þessa tölu í 1. gr. lánsfjárlaga, skilar inn nýrri upphæð við 2. umr. málsins í Nd. samkv. nál. 5. júní s. l. þar er gert ráð fyrir því að talan sé ekki 2489 og ekki heldur 2436, heldur 2561 millj. kr. Þannig reyndust þessi vísindi, sem Þjóðhagsstofnun og Seðlabanki höfðu sveist við að koma saman fyrir ríkisstj. í desembermánuði, á sandi byggð og þá varð að breyta tölunni tvisvar sinnum og enn er eftir að breyta henni að einhverju leyti.

Nú, 7. júní hefur þessi tala breyst þrisvar eða fjórum sinnum frá því að frv. var lagt fram.

Síðan kemur fyrirbæri sem heitir Landsvirkjun. Þaðan hafa menn yfirleitt sent tillögur til fjmrn. á undanförnum árum. Niðurstaðan við 1. umr. fjárlaga var 1200 millj. kr., 1.2 milljarðar, og þeir Landsvirkjunarmenn sögðu að það væri útilokað að komast af með lægri upphæð, alls ekki mætti hugsa sér að lægri tölur væru nefndar í sambandi við erlendar lánsfjárheimildir Landsvirkjunar á árinu 1985. Þá kemur til skjalanna varamaður nokkur í stjórn Landsvirkjunar, sem heitir Finnbogi Jónsson og er þar fulltrúi Alþb., og hann leggur fram grg. um stöðu virkjanamála þar sem það kemur fram að umframorka hér í landinu nemur mörg hundruð gígawattstundum á ári og bendir á að það sé alveg út í hött að keyra framkvæmdahraða áfram eins og stjórn Landsvirkjunar hafði gert grein fyrir. Hæstv. iðnrh. og Landsvirkjunarstjórnin létu sér segjast og niðurstaðan varð sú, eftir miklar vangaveltur og yfirlýsingar ríkisstj. um að ætti að skera niður erlendar lántökur um 1000 milljónir króna, að þessi tala var lækkuð úr 1.2 milljörðum niður í 884 millj. kr. Þá hefðu kannske margir haldið að hin endanlegu vísindi Landsvirkjunar væru fundin og iðnrn., en bíðið við. Þegar málið er til 3. umr. í hv. Ed. koma ný vísindi til sögunnar. Þá er þessi upphæð orðin 1036 millj. kr. og að auki 85 millj. kr. sem má bæta við ef ríkisstj. nær samningum við Swiss Aluminium um stækkun álversins í Straumsvík. Þá er forsjálnin orðin slík að það er farið að gera ráð fyrir því í lánsfjáráætlun að ef ríkisstj. skyldi ná samningum Svisslendinganna megi auka þarna við 82 millj. kr. Þegar þessi mikla forsjálni ríkisstj. var komin fram hefði maður haldið að hinn endanlegi stóri sannleikur Landsvirkjunar og stjórnarliðsins væri loksins fundinn. Þessi tala stendur enn, en eins og ég benti á áðan, herra forseti, eru tvær eða þrjár umr. eftir um málið í þinginu þannig að það er kostur á því að breyta henni tvisvar eða þrisvar sinnum í viðbót. Talan sem í upphafi var 1.2 milljarðar kr. er nú komin í 1118 millj. kr. Þetta var í sambandi við erlendar lántökur skv. 1. gr. og Landsvirkjun. Þar hefur allt verið á fleygiferð. Þessar tölur og breytingar þeirra á milli umræðna sýna að þetta er tóm vitleysa, þetta er tómt rugl. Vísindin, sem menn þykjast hafa á bak við þetta, reynast ekki standast stundinni lengur, stundum ekki einu sinni í hálfan mánuð eins og á milli 2. og 3. umr. um þessi mál í Ed., en 2. umr. fór þar fram 1. apríl og 3. umr. fór fram 17. apríl.

En ekki er allt búið enn af þessari speki ríkisfjármálastjórnarinnar. Því það er undarleg skepna sem hefur gengið hér í gegnum þingsalina að undanförnu og heitir þróunarfélag. Þegar lánsfjárlagafrv. var lagt fram var gert ráð fyrir að þróunarfélagið fengi 500 millj. kr., takk. Það var ekki verið að skera það við nögl. Það var ekki verið að súta tölurnar þá eða fara í saumana á smáaurunum. 500 millj. kr. voru í lánsfjárlagafrv. Síðan hófst einhver bögglingur í stjórnarflokkunum um þetta þróunarfélag og menn voru lengi að velta fyrir sér hvað ætti að gera. Að lokum var félaginu sleppt um skeið í lánsfjárlagafrv. Við 2. og 3. umr. í Ed. var ekkert minnst á þróunarfélagið í lagatextanum. Það var hvergi nefnt. Það var engu líkara en þeirri skepnu hefði verið slátrað eins og þeirri skepnu sem einu sinni hét eignarhaldsfyrirtæki ríkisins og var reyndar einu sinni í þessu frv., en hefur nú verið slátrað að sögn, hver sem hefur slátrað því, hvort sem það var hæstv. iðnrh. eða einhver annar ráðherra. Engu líkara er en að eignarhaldsfyrirtækið sé það eina sem hæstv. iðnrh. hefur látið snýta rauðu í seinni tíð. — En bíðið við. Svo kemur 2. umr. í Nd. og þá koma fram brtt. frá meiri hl. Þá er þróunarfélagið komið af stað aftur. Draugurinn er komin upp úr stakkstæðinu. Það eru 190 millj. kr. sem þessi skepna á nú að fá, en jafnframt liggur fyrir svokallað eignarhaldsfyrirtæki ríkisins er hvergi nefnt á nafn. Það er úr sögunni.

Það má nefna hér fleiri dæmi um hina undarlegu þróunarsögu lánsfjárlagafrv. Það væri kannske rétt fyrir vísindamenn að skrifa um það ritgerðir hvernig vinnubrögðin eru í ríkisfjármálum hér á landi. Þá væri alveg kjörið að fylgja eftir því máli sem hér er á dagskrá og heitir frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1985. 245. mál. En það er fleira sem hefur þarna breyst aftur og fram. Útflutningslánasjóður hafði ekki neitt þegar frv. var lagt fram í upphafi. Hann er kominn í 70 millj. kr við 2. umr. og er í 70 millj. kr. við 3. umr. í Ed.. en er núna komin upp í 120 millj. kr. Þegar frv. var lagt fram voru engar tillögur í því um ábyrgðarheimildir eða yfirtökur lána af hálfu ríkisins. Það var núll. Eftir 2. umr. í Ed. mundu menn skyndilega eftir því að það þurfti að bera ábyrgð á þeim lánum sem 1984 höfðu verið tekin til húsnæðislánakerfisins og þá er ákvæði um það sett inn upp á 287 millj. kr. erlend lán til húsnæðislánakerfisins 1984. Síðan eru tekin þarna inn endurlán ríkissjóðs upp á 80 millj. kr. Þannig er upphæðin alveg samfellt frá 1. apríl. Það má heita gott. Hún stendur samfellt óbreytt frá 1. apríl, enda dagsetningin ekki óheppileg miðað við allar aðstæður og til dagsins í dag. 367 millj. kr. í ábyrgðarheimildir fyrir ríkið.

En þá kemur nýr vandi til skjalanna sem ríkisstj. hafði ekki gert sér grein fyrir. Þjóðin hafði að vísu gert sér grein fyrir því fyrir löngu. mörgum árum. sennilega fjölda ára, en ríkisstj. áttaði sig ekki á því hver þessi vandi var og uppgötvaði hann ekki fyrr en 5. júní 1985. Sá vandi er fólginn í því að hér hefur legið um misseraskeið nokkurt magn af skreið. Verður sú saga ekki rakin hér mjög ítarlega þó að efni væri til. Þegar frv. er hér lagt fram gerði ríkisstj. tillögur um að ábyrgjast eða yfirtaka lán vegna skreiðar upp á 250 millj. kr.

Hérna hef ég lauslega, í fáum orðum, herra forseti, rakið þessa undarlegu sögu. hvernig frv. hefur verið að breytast frá því að það var lagt fram í upphafi, í desember trúi ég á árinu 1984. Það mun hafa verið lagt fram á árinu 1984. enda átti það að gilda fyrir árið 1985.

Þeirri skepnu sem heitir þróunarfélag. er ætlað að fá 190 millj. kr., en það er búið að dreifa upphaflegu upphæðinni á ýmsar aðrar stofnanir og fyrirtæki. Til glöggvunar ætla ég að fara yfir hvert upphaflegu 500 millj. eru farnar. Ég vænti þess að staðgengill hæstv. fjmrh. taki glöggt eftir þessari skiptingu og leiðrétti mig ef eitthvað er rangt með farið í henni.

Það er í fyrsta lagi gert ráð.fyrir að verja 50 millj. kr. til Rannsóknaráðs ríkisins. Það er í öðru lagi gert ráð fyrir að 60 millj. kr. fari til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Í þriðja lagi fari um 50 millj. kr. í Sjávarútvegssjóð. Það eru engin lög til um hann. Það er eitthvert frumvarpsslitur uppi í Ed. um þá stofnun, en það eru ekki til lög um hann sem slíkan, enda gert ráð fyrir að þetta fé staldri við í Framkvæmdasjóði. Í fjórða lagi er um að ræða 50 millj. kr. í Iðnlánasjóð. Í fimmta lagi fari 50 millj. kr. til fiskiræktar, Framkvæmdasjóð trúi ég. Og í sjötta lagi fari 50 millj. kr. til útflutningssjóðs. Í sjöunda lagi fari 190 millj. kr. til þróunarfélagsins. Samtals um hálfur milljarður kr., 500 millj.

Þetta vildi ég rekja hérna, herra forseti, til þess að ég gæti borið tölurnar saman við hæstv. ráðh. sem gegnir þessa stundina fyrir hæstv. fjmrh. á hinu háa Alþingi.

Í nál. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. Nd. segir svo, með leyfi forseta:

„Hörmungarsaga frv. til lánsfjárlaga verður ekki rakin hér í nál. Fyrir liggur að frv. til lánsfjárlaga hefur aldrei verið afgreitt jafnseint og nú stendur til að gera. Töfin stafar af því að ríkisstj. hefur ekki komið sér saman um neitt fyrr en á elleftu stundu. Sem dæmi má nefna að hún hefur fjórum sinnum látið breyta tölum um erlenda lánsfjáröflun ríkissjóðs. Þessa ringulreið á grundvallarlöggjöf efnahagsstjórnar á Íslandi endurspeglar ráðleysi stjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum. Það er ljóst að ríkisstj. og stjórnarflokkarnir ná ekki saman um neitt þó að allt sé komið í óefni. Kemur hér fram að eina úrræðið, sem þessir flokkar eru sammála um í efnahagsmálum, er að lækka kaupið. Allt annað er í fullkomnum ólestri.

Stjórn ríkisfjármálanna hefur gersamlega farið úr böndum. Ríkisstj. viðurkenndi eigin uppgjöf í þeim efnum á síðasta þingi með frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Síðan er þróun þessara mála ein samfelld hörmungarsaga.

1. minni hl. mun gera nánari grein fyrir sjónarmiðum sínum í framsöguræðu auk þess sem brtt., sem fram kunna að koma frá öðrum nm., verða metnar eftir efni þeirra, en brtt., frá meiri hl. n. eru enn ekki allar komnar fram.“

Ég vek athygli á þessu atriði að brtt. frá meiri hl. n. eru enn ekki allar komnar fram. Mér skilst að það sé á döfinni hjá meiri hl. n. að flytja eina eða tvær brtt. í viðbót við 3. umr., enda er sjálfsagt að nota hverja umr. til að breyta úr því að þær eru á annað borð til staðar og til þess að halda uppteknum hætti í þeim efnum. Þannig er útilokað fyrir minni hl. að meta þessa hluti í einstökum atriðum fyrr en vitað er hvaða brtt. koma fram.

„Í nefndinni hefur stjórnarandstaðan aftur og aftur rekið á eftir því að þetta mál megi hljóta afgreiðslu á Alþingi. Það hefur strandað á ósamkomulagi í stjórnarflokkunum. Sannast hér enn það, sem forsrh. hefur bent á, að stjórnarmeirihlutinn hefur tafið þingstörfin.

Alþingi, 6. júní 1985.

Guðmundur Einarsson. Svavar Gestsson.“

Í nál. á þskj. 1147 birtum við nokkrar upplýsingar á sérstökum fskj. Á fskj. I., sem er frá fjárlaga- og hagsýslustofnun, eru upplýsingar um hversu miklar verði skuldir þjóðarinnar í lok þessa árs. Það fskj. er á þessa leið:

„Skv. upplýsingum seðlabanka Íslands er erlend skuldastaða á árinu 1985 áætluð um 63.6% af vergri þjóðarframleiðslu. Greiðslubyrði þjóðarinnar af erlendum skuldum er áætluð um 21.3% af útflutningstekjum á árinu 1985.“

Nú lýsti hæstv. fjmrh. því yfir einu sinni að hann ætlaði að segja af sér ef þetta hlutfall færi fram yfir 60%. Hann hefur hins vegar leiðrétt þessa yfirlýsingu þannig að hún hafi aðeins átt við þá stund þegar hún var mælt þannig að ef hann sæti t. d. sem fjmrh. í fimm eða sex ár í viðbót breytti það í rauninni engu þó að skuldahlutfallið færi upp í 70%. Yfirlýsingin hafi aðeins verið miðuð við árið 1984. Er þetta í rauninni athyglisverð nýjung í yfirlýsingum stjórnmálamanna, að þeir gefi í eitt skipti fyrir öll yfirlýsingu um að það sem þeir eru að segja gildi aðeins fyrir það ár sem þær eru talaðar á. Mundi það óneitanlega einfalda mörgum að taka þátt í stjórnmálastarfsemi miðað við það sem verið hefur. Einkum væri þægilegt fyrir Framsfl., vegna þess að hann er vanur að skipta um stefnu árlega, að hafa svona yfirlýsingar upp á að hlaupa. ( SV: Það eru nú fleiri.) Það eru fleiri segir hv. þm. Stefán Valgeirsson og gleðst við að hann er ekki einn um það.

Síðan kemur fskj. II sem er skipting erlendra lána eftir uppruna. Það er plagg sem ég fékk frá fjmrn. 29. apríl 1985. Þar eru fróðlegar upplýsingar um það hvaðan erlend lán eru og hvernig þau skiptast eftir myntum. Menn vita að þróun dollarans hefur verið okkur nokkuð óhagstæð á undanförnum árum. Í upplýsingunum kemur fram að af erlendum skuldum þjóðarbúsins í árslok 1984 voru 54.5% í Bandaríkjadollurum, 15.3% í japönskum yenum og aðrar tölur voru mun lægri.

Í þessu fskj. kemur það einnig fram hver ætla má að verði viðskiptahallinn á árinu 1985. Eitt af markmiðum ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar var að draga úr skuldasöfnun við útlönd og koma á viðunandi jafnvægi í viðskiptum við önnur lönd. Þegar stjórnin tók við voru horfur á því að viðskiptahalli það ár gæti orði 2–3%. Skv. upplýsingum frá fjmrn. dags 29. apríl 1985 er þessi tala orðin miklum mun hærri. Þar segir, herra forseti:

„Viðskiptahallinn nam rúmum 4100 millj. kr. skv. bráðabirgðatölum 1984 og er áætlaður um 4500 millj. kr. á árinu 1985.

Þess má geta, að vaxtagreiðslur af erlendum lánum námu 4555 millj. kr. á árinu 1984 og eru áætlaðar um 6000 millj. kr. 1985.“

Herra forseti. Lánsfjárlög eru jafnan þannig úr garði gerð að þar er annars vegar um að ræða ábyrgðarheimildir fyrir ríkið, en þar er líka um að ræða heimildir til að skerða framlög til ýmissa sjóða. Á fskj. III í nál. 1. minni hl. fjh.- og viðskn. kemur fram hver skerðingin er á hinum einstöku sjóðum. Það kemur fram að Félagsheimilasjóður er skertur um 74.1%, Fiskveiðasjóður um 100%, Aflatryggingasjóður um 100%, Byggðasjóður um 85%, Bjargráðasjóður um 100%, veðdeild Búnaðarbanka Íslands um 100%, Byggingarsjóður ríkisins um 3%, Framkvæmdasjóður fatlaðra um 63% og Ferðamálasjóður um 100%.

Varðandi Framkvæmdasjóð fatlaðra er þetta sýnu alvarlegast. Þar er um að ræða skerðingu sem nemur 68 millj. kr. Skv. lögum hefði sjóðurinn átt að fá á þessu ári 108 millj. kr. en fær skv. fjárlögum 40 millj. kr. Nú mun það hins vegar hafa gerst skv. upplýsingum sem mig minnir að ég hafi séð í þingtíðindum frá umr. um þessi mál í Ed. að það hafi verið aukið nokkuð við með aukafjárveitingu í Framkvæmdasjóð fatlaðra, en engu að síður er ljóst að þar er um að ræða skerðingu upp á tugi millj. kr.

Í fskj. IV birtum við greiðsluáætlun Fiskveiðasjóðs fyrir árið 1985. Þar kemur fram að útborganir Fiskveiðasjóðs eru samtals 1.7 milljarðar kr. á þessu ári, þ. e. afborganir og vextir af lánum 790 millj., afborganir og vextir af innstæðum lántakenda 900 millj. og kostnaður Fiskveiðasjóðs 35 millj. Greiðsluhalli Fiskveiðasjóðs á þessu ári er talinn vera 440 millj. kr.

Upplýsingar um Byggðasjóð eru á fskj. V. Þar er yfirlit yfir ríkisframlög, eigið fé, og lántökur Byggðasjóðs á verðlagi 1984 miðað við byggingarvísitölu. Þær upplýsingar eru býsna fróðlegar. Þær sýna m. a. að ríkisframlag hefur farið jafnt og þétt lækkandi um nokkurra ára skeið og staða Byggðasjóðs er nú í heild veikari en hún hefur nokkurn tíma verið.

Á fskj. VII og fskj. IX koma fram upplýsingar frá Landsvirkjun. Þar kemur fram framkvæmda- og rannsóknaráætlun Landsvirkjunar fyrir árið 1985. Þar er gert ráð fyrir að í Blönduvirkjun fari 686.8 millj. kr., í Kvíslaveitu 177 millj. kr. og í Sigöldu-, Hrauneyja- og Sultartangalón 22.3 millj. kr. eða samtals í virkjanaframkvæmdir á vegum Landsvirkjunar 885.8 millj. kr. Þá eru ýmsar aðrar framkvæmdir í gangi á vegum Landsvirkjunar, þ. e. stjórnbygging upp á 36.1 millj. kr., 66 kv. spennir við Búrfell 16.2 millj. kr., stækkun og ræktun við Hrauneyjafossa 11 millj. kr. og annað upp á 20 millj. kr. síðan er gert ráð fyrir að verja til virkjanarannsókna á þessu ári 33.3 millj. kr. Í almennar rannsóknir á að verja 38.4 millj. kr. og í háspennulínur 7.3 millj. kr. Samtals er hér um að ræða áætlun hjá Landsvirkjun upp á 1 milljarð 118 millj. kr.

Í framhaldi af þessum upplýsingum skrifaði ég Landsvirkjun bréf og óskaði eftir nánari skýringum á ýmsu því sem kemur fram í þessari áætlun. Halldór Jónatansson forstjóri Landsvirkjunar sendi mér bréf út af þessu, dags. 22. maí 1985, og er það bréf birt í heild í nál. þessu. Þar segir svo á bls. 9, með leyfi hæstv. forseta:

„Með skírskotun til símtals okkar í dag varðandi framangreint leyfi ég mér að upplýsa eftirfarandi um tímasetningu Blönduvirkjunar og áætlaðan kostnað við framkvæmdir Landsvirkjunar 1985:

a. Vegna almenns markaðar er áætlað að Blönduvirkjun þurfi að komast í notkun haust 1991.“

Vegna almenns markaðar, ef ekki koma inn neinir nýir raforkukaupendur, þá er nóg að Blönduvirkjun komist í notkun á árinu 1991.

„b. Á grundvelli áætlunar um að Blönduvirkjun komist í notkun haustið 1991 er gert ráð fyrir 604.8 millj. kr. kostnaði á árinu 1985 miðað við vísitölu byggingarkostnaðar 206 stig.“ Ef Blönduvirkjun kæmi ekki í notkun fyrr en 1991 gæti talan sem í Blönduvirkjun er ætluð í frv., 687 millj. kr., lækkað niður í 605 millj. kr. Mismunurinn á þessum tölum er sem sagt liðlega 80 millj. kr. Ef það væri ákvörðun ríkisstj. að Blönduvirkjun kæmi ekki inn fyrr en 1991 vegna þess að engin stór raforkukaupandi er fyrirsjáanlegur á því tímabili enn þá mætti lækka þessa tölu um liðlega 80 millj. kr. stjórnarmeirihlutinn hefur hins vegar ekki viljað hlusta á þau rök sem fram hafa komið frá Landsvirkjun í þeim efnum, en ég bendi á þetta. Ég hef ekki flutt brtt. um þetta sérstaka efni. Ég bendi á þetta vegna þess að það hlýtur að vera til umhugsunar að hér er verið að taka inn nokkru stærri tölu en þörf krefur ef miðað er við að virkjunin komi ekki inn fyrr en 1991.

„c. Áætlun um hvenær kísilmálmverksmiðja komi inn sem raforkukaupandi liggur ekki fyrir, en raforkusala til slíkrar verksmiðju gæti hafist fyrir árið 1988 ef stefnt verður að gangsetningu Blönduvirkjunar á því ári.

d. Á þessu ári er auk Blönduvirkjunar áætlað að ljúka 4. áfanga Kvíslaveitu og vinna að ýmsum frágangi við fyrri áfanga hennar við Þórisós. Kostnaður vegna þessara framkvæmda er áætlaður 176.7 millj. kr. miðað við byggingarvísitölu 206 stig. Auk þess er ráðgert að vinna á þessu ári við endurbætur á stíflum og lónum á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu fyrir um 22.3 millj. kr. Á sama verðlagi áætlast ýmsar framkvæmdir í rekstri í ár alls 83.2 millj. kr.“

Að lokum, herra forseti, eru svo fskj. X og XI. Það eru minnispunktar um stöðu innlendrar lánsfjáröflunar. Í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. eru upplýsingar um innlenda lánsfjáröflun þar sem gert er ráð fyrir að hún verði 780 millj. kr. á þessu ári. Þar af útgáfa spariskírteina 400 millj. kr. Hvernig stendur það? Hvaða horfur eru á að útgáfa spariskírteina gefi 400 millj. kr.? Skv. upplýsingum fjmrn. hafa spariskírteini til þessa selst fyrir 641 millj. kr. eða allmiklu meira en gert var ráð fyrir í lánsfjáráætlun. en þar á móti kemur að inn-. heimtufé spariskírteina er 843.6 millj. kr. Þannig er þessi liður. sem átti að gefa 400 millj. kr.. neikvæður eins og sakir standa um 200–300 millj. kr. Þetta hlýtur að verða mönnum nokkurt umhugsunarefni frammi fyrir þeirri staðreynd. Það er verið að tala um að draga úr erlendum lántökum og allt það, en svo virðist sem sparnaðarform sem einkamarkaðurinn býður séu enn þá, þrátt fyrir góð kjör sem boðin eru á vegum ríkissjóðs, að þrengja að innlendri lánsfjáröflun ríkissjóðs. Þetta held ég að hljóti að verða mönnum nokkurt umhugsunarefni.

Hér segir í skjali til mín frá fjmrn. 4. júní 1985: „Minnispunktar frá fjmrn. um stöðu innlendrar lánsfjáröflunar.

Skv. upplýsingum Ríkisábyrgðasjóðs lágu fyrir eftirfarandi upplýsingar um innlenda fjáröflun ríkissjóðs um miðjan maí.

Innstreymi: Sala spariskírteina 713 millj. kr.“ Svona stendur það um miðjan maí, en það sem ég var að tala um áðan var til aprílloka.

Innheimtufé spariskírteina er þar talið vera 212 millj. kr.

Útstreymi er svo innlausn eldri spariskírteina upp á 1076 millj. kr.

Ég sé ekki betur en staða innlendrar lánsfjáröflunar sé enn þá neikvæð fyrir ríkissjóð. Það hlýtur að vera ríkisstj. áhyggjuefni þegar staðan er þannig að innlend lánsfjáröflun á almennum markaði ætlar enn að bregðast. Þrátt fyrir þær tilraunir sem ríkisstj. hefur vissulega gert til að ná í sparifé á innlendum markaði hefur ríkisstj. um leið með ákvörðunum sínum hleypt af stað vaxtabrjálæði sem gerir það að verkum að það er eiginlega sama hvað ríkissjóður býður vel. Einkamarkaðurinn kemur alltaf og býður betur á eftir. Ríkissjóður verður síðan að hlaupa á eftir því og bjóða enn betur og þannig koll af kolli með óhugnanlegum afleiðingum fyrir ríkissjóð þegar fram í sækir.

Ég ætla ekki, herra forseti, að fara að tefja þessa umr. að einu eða neinu leyti, enda hefur það ekki verið stjórnarandstaðan sem hefur tafið meðferð þessa máls. Ég ætla aðeins að skýra frá því að við þetta frv. er erfitt að flytja nokkrar brtt. eins og það er. Það er varla hægt að koma nálægt pappírum af þessu tagi. Það hefur komið í ljós í vinnubrögðum þingsins að þetta frv. er þannig löguð vitleysa að það er varla hægt að festa hönd á því á milli umræðna hvað þá heldur meir. Ég hef hins vegar leyft mér að flytja litla brtt. um pólitískt grundvallaratriði. Það er till. á þskj. 1146 þar sem ég legg til að 2. mgr. 3. gr. frv., eins og það kom frá Ed., falli niður. Sú mgr. gerir ráð fyrir að heimilt verði að taka lán upp á 82 millj. kr. ef samningar nást um stækkun álversins í Straumsvík. Ég held að það sé með öllu ósmekklegt og óeðlilegt að tengja lánsfjárlög með þessum hætti við samninga sem kannske nást og kannske ekki. Auk þess er svo langt liðið á árið sem,raun ber vitni um. Ég tel þess vegna að óþarfi sé að gera þessa till. Jafnvel þó að menn hafi talið eðlilegt að gera hana snemma á þessu ári verður það úr því sem komið er blátt áfram fráleitt. Þess vegna hef ég leyft mér, herra forseti, að flytja við þetta undarlega frv. þessa einu litlu brtt.