07.06.1985
Neðri deild: 90. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6105 í B-deild Alþingistíðinda. (5550)

488. mál, orkulög

Frsm. (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 107 frá 1973, um þörungavinnslu við Breiðafjörð.

Iðnn. hefur haft frv. til meðferðar og leggur til að það verði samþykkt, en samstaða varð um málið í hv. Ed. Það hefur komið í ljós á síðustu vikum að félagið, sem um getur í 1. gr., þ. e. hlutafélag heimamanna, hefur verið stofnað. Hlutafé hefur verið safnað og sú söfnun stendur enn yfir. Það er ríkjandi áhugi heimamanna á því að halda þessari starfsemi áfram og nýta aðstæður á staðnum til annarrar starfsemi.

Undir þetta rita allir nm. sem viðstaddir voru afgreiðslu málsins. Tveir þeirra hafa fyrirvara. Mér er kunnugt um að fyrirvari Páls Péturssonar, hv. þm. og formanns nefndarinnar, byggist á því að hann óttast að hér sé veikburða byggðarlag að reisa sér hurðarás um öxl. Hann virðist þannig líta í anda hinn vaska flokk vestfirska alþm. þegar þeir koma og krefjast þess að ríkið hlaupi undir bagga með verksmiðjunni. Þá hefur hv. þm. Hjörleifur Guttormsson einnig skrifað undir nál. með fyrirvara.