10.06.1985
Efri deild: 93. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6109 í B-deild Alþingistíðinda. (5560)

479. mál, ferðamál

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Í sept. 1983 skipaði ég nefnd til að endurskoða gildandi lög um skipulag ferðamála, sem eru frá árinu 1976, og var nefndinni sérstaklega falið að kanna: 1. Ákvæði 8. gr. um álagningu sérstaks gjalds á vörusölu fríhafnarinnar í Keflavík sem skuli nema 10% af árlegu söluverðmæti og renna til landkynningarverkefna o. fl. 2. Ákvæði III. kafla laganna sem fjalla um Ferðaskrifstofu ríkisins, rekstur hennar og rekstur sumarhótela. 3. Ákvæði IV. kafla laganna sem fjalla um almennar ferðaskrifstofur. 4. Ákvæði laganna um Ferðamálasjóð.

Auk þessara ákvæða, sem nefndinni var sérstaklega falið að kanna samkvæmt framansögðu, gerði hún tillögu um þrjár nokkuð veigamiklar breytingar á gildandi lögum um skipulag ferðamálaráðs svo og ýmsar minni háttar lagfæringar.

Ég taldi nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á frumvarpsdrögum nefndarinnar. Hefur verið gerð sérstök grein fyrir þessum breytingum í almennum athugasemdum um frv. svo að ég sé ekki ástæðu til að endurtaka þær hér.

Málið hefur verið til umræðu og afgreiðslu í samgn. Nd. og gerði samgn. þeirrar deildar átta breytingar á frv. Flestar þessar breytingar eru meira orðalagsbreytingar og málfarsbreytingar, en 2. breytingin, við 4. gr., er einna veigamest. Þar er ákveðin aðild ferðamálasamtaka í öllum kjördæmum landsins að ferðamálaráði sem hefur í för með sér að það fjölgar aðeins í ferðamálaráði frá því sem frv. gerði ráð fyrir. Þá eru ákvæði 8. gr. varðandi tekjur af fríhöfninni í Keflavík gerð nokkuð ákveðnari en var í frv. og allur vafi tekinn af með því orðalagi sem þar er.

Í 5. brtt. nefndarinnar við d.-lið 9. gr. er gert ráð fyrir að selja 30% af hlutafjáreign ríkissjóðs í Ferðaskrifstofu ríkisins til samtaka starfsmanna ferðaskrifstofunnar. Í sambandi við þá sölu, en þetta er sama og var í frv., eru ákvæði fyllri og nánar skilgreint að eingöngu sé um að ræða sölu til samtaka starfsmanna ferðaskrifstofunnar þannig að þeir starfsmenn sem nú eru gætu ekki, ef þeir hefðu hætt störfum, verið áfram eigendur eins og hefði verið hægt að túlka frv. eins og það var lagt fyrir.

Enn fremur er breytt orðalagi í sambandi við gildistöku laganna. Vegna þess hve liðið er á þingið var talið í nefndinni að nauðsynlegt væri að hafa gildistöku 1. okt.

Í Nd. náðist mjög góð samstaða um málið. Allir nm. að einum undanskildum skrifuðu undir nál., en ein brtt. var flutt af einum nm. í Nd. sem ekki náði fram að ganga. Að öðru leyti var fullkomin samstaða um málið í deildinni.

Í nær tveggja ára gamalli úttekt sem samgrn. lét gera um ferðamál hér á landi, þjóðhagslega þýðingu þeirra, spá um þróun til 1992 og tillögur um ferðamálastefnu, kemur fram að miðað við árlega fjölgun erlendra ferðamanna um 7% árið 1983 og síðan árlega aukningu um 3.5% yrðu erlendir ferðamenn 106 þús. á árinu 1992, en það er 45% heildaraukning á þessu tíu ára tímabili. Þegar haft er í huga að þessi atvinnugrein skapar þjóðarbúinu verulegar gjaldeyristekjur, auk þess sem 4–5% af vinnuafli landsmanna tengist henni á einn eða annan hátt, verður ekki fram hjá því gengið að aukning þessa atvinnuvegar hefur veruleg áhrif fyrir þjóðarbúið. Eins og fram kemur í þessari skýrslu, sem ég minntist á, er greinin gjaldeyrisskapandi án verulegrar fjárfestingar og hún getur, ef rétt er á haldið, skapað fjölmörg ný atvinnutækifæri á komandi árum. Öll fjárfesting í þessari atvinnugrein kemur auk þess innlendum ferðamönnum sjálfum að notum þar sem aukinn straumur erlendra ferðamanna hingað til lands tryggir enn betur samgöngur okkar við umheiminn en nú er.

Herra forseti. Ég legg á það mjög mikla áherslu, þó að þetta frv. komi seint til þessarar hv. deildar, að það nái fram að ganga og ég vænti þess að hv. þdm. og nm. reyni að gera sitt til þess að málið nái fram að ganga. Hér er um nauðsynlegar og sjálfsagðar breytingar að ræða á skipun ferðamálaráðs með aukinni þátttöku fólks sem úti á landi býr, en það hefur sótt fast að fá fulla aðild að ferðamálaráði.

Ég tel ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.