10.06.1985
Efri deild: 93. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6110 í B-deild Alþingistíðinda. (5563)

528. mál, jarðræktarlög

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Landbn. hefur haft þetta frv. til meðferðar, að vísu í mjög skamman tíma, en unnið bæði hratt og vel, eins og nefndum í Ed. er lagið.

Því miður náðist ekki algjör samstaða um málið, eins og fram kemur í nál., en allmikill meiri hl. myndaðist þó um frv. Eins og herra forseti hefur skýrt þingdeildinni frá er nýlega komið fram nál. frá minni hl., þ. e. hv. þm. Kolbrúnu Jónsdóttur.

Meiri hl. nefndarinnar leggur eigi að síður fram brtt. við þetta frv. Þær eru að vísu ekki stórar í sniðum. En þær eru tvær og varða báðar 1. gr. frv. Ég mun gera grein fyrir þeim jafnharðan og ég mun fara yfir frv.

Eins og hv. þdm. er kunnugt, og sakar ekki að minna á það einu sinni enn, var á Búnaðarþingi 1985 fjallað um frv. til jarðræktarlaga sem samið var af milliþinganefnd Búnaðarþings. Eins og fram hefur komið lauk Búnaðarþing ekki afgreiðslu þess máls. Þær breytingar, sem hér eru lagðar til með þessu frv., felast einkum í því að sníða jarðræktarlögin að ríkjandi ástandi í landbúnaði og þeirri stefnu sem verið er að marka, m. a. með fram komnu frv. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

Frv. þetta felur í sér bráðabirgðabreytingu á 10. og 12. gr. gildandi jarðræktarlaga er nái til áranna 1985 og 1986. En af hverju ekki til lengri tíma? Jú, vonir standa til þess að það takist að ljúka heildarendurskoðun jarðræktarlaganna á þessum tveimur árum.

Það má segja að frv. feli einkum í sér þrjú meginatriði.

Í fyrsta lagi er dregið úr framlögum sem stuðlað geta að aukningu búvöruframleiðslu í hefðbundnum búgreinum, svo sem framræslu og grænfóðurrækt.

Í öðru lagi er efldur stuðningur við heimaafla, svo sem endurræktun, bætta heyverkun og geymslu garðávaxta.

Í þriðja lagi er efldur stuðningur við nýjar og vænlegar búgreinar og þá einkum og sér í lagi loðdýrarækt, enda er uppbygging loðdýraræktar komin, að mínum dómi, allnokkuð á veg þótt að sjálfsögðu mætti betur gera og muni vonandi verða gert.

Það er ekki löng greinargerð sem fylgir frv. Breytingar eru allnokkrar á þeim grunni sem ég nefndi hér. M. a. vegna þess að frv. hefur ekki verið svo lengi, hygg ég, undir höndum annarra en hv. landbn.-manna vil ég leyfa mér að fara örfáum orðum um meginatriði sem varða málið og g.etið er um í grg. eða athugasemdum með frv.

Úr I. lið 10. gr. gildandi laga er fellt niður ríkisframlag á plægða hagaskurði, handgrafna skurði, kílræsi, önnur ræsi, svo og flóðgarða og fleiri framkvæmdir samkv. g-lið gildandi laga. Sett er hámark á framleiðsluframkvæmdir er framlags geta notið. C-liður er hliðstæður e-lið gildandi laga.

Við 1. gr. I. er gerð sú breyting að 1. málsl. 2. málsgr. b-liðar orðist svo:

„Heildarframlag ríkissjóðs samkv. þessum stafliðum skal að hámarki svara til 7 milljóna rúmmetra skurðgraftar og 1200 km plógræslu á árunum 1985 og 1986.“

Þessi breyting er til komin vegna þess einfaldlega að nú þegar hefur verið samið um allverulegar framkvæmdir, þ. e. hvort tveggja, skurðgröft og plógræslu, þannig að allar líkur eru á að þær umsömdu framkvæmdir fari á þessu ári verulega fram úr því hámarki sem getið er um í frv. eins og það liggur fyrir nú. Breytingin felur einvörðungu í sér að hægt er að færa á milli ára eins og augljóst er samkv. brtt., en heildarmörkin miðað við bæði árin hækka ekki.

Í II. lið greinarinnar er gerð sú breyting að framlag til nýræktar er lækkað nokkuð, en endurræktin er lögð að jöfnu við nýrækt. Er það gert í því skyni að styðja fremur við bakið á endurræktun en túnauka.

C-liðurinn er aftur á móti nýmæli, settur í ljósi vaxandi möguleika á kornrækt og frærækt hérlendis, sem getur að dómi margra eflt innlenda fóðurframleiðslu á lögbýlum.

Við 1. gr. II. er lagt til að í stað orðsins „héraðsráðunautur“ komi: jarðræktarráðunautur. Það hafa einfaldlega orðið mistök við gerð frv. að þarna stóð ekki jarðræktarráðunautur. Þar er átt við jarðræktarráðunaut Búnaðarfélags Íslands.

III. liður greinarinnar er efnislega óbreyttur frá gildandi lögum.

IV. liður breytist þannig, að niður fellur framlag til girðinga um heimahaga.

V. liður er efnislega óbreyttur frá gildandi lögum. Nokkrar breytingar eru gerðar á VII. lið. Framlag á votheysgeymslur er hækkað, m. a. með hliðsjón af samþykkt Alþingis um eflingu votheysverkunar og ábendingum Búnaðarþings í sömu átt. Þá er gerð sú breyting að nýjar hlöður njóta því aðeins framlags að í þeim sé súgþurrkunarkerfi. Stafliðir b og c í þessum lið frv. koma í stað a-, e-, f- og g-liðar í VI. lið 10. gr. gildandi laga. Nýmæli er enn fremur heimild til að greiða framlög á kælivélar í garðávaxtageymslum, sem og rafstrengi til þessara nota, svo og súgþurrkunar. Þá er framlag á garðávaxtageymslur hækkað, enda séu þær með viðeigandi loftræstibúnaði.

Áður en lengra er haldið er líklega rétt að hnykkja á því, sem mér raunar láðist varðandi fyrri liði og sem er ein af meginbreytingum sem frv. felur í sér, að styrkir til grænfóðurræktar eru felldir svo að segja niður. Það er að vísu gert ráð fyrir heimildum til að styrkja grænfóðurrækt vegna harðinda, en almennt séð er lagt til að styrkir til þeirrar ræktunar falli niður.

Síðustu þrír liðirnir í frv., þ. e. IX., X. og XI. liður, eru nýmæli. Um þessa liði er í sjálfu sér ekki ástæða til að fjalla. Varðandi X. liðinn, þ. e. til loðdýrabygginga, er það mála sannast að til þessa verkefnis er ætlað verulegt fé, en ég mun koma að því síðar.

Þau stærðarmörk sem hér er um að tefla eru, eftir því sem mér er sagt, fyrir svo sem eins og 100 refalæður hið minnsta og 300 minkalæður hið minnsta. Þessar upplýsingar hef ég nú beint frá Búnaðarfélaginu, þ. e. búnaðarmálastjóra, Jónasi Jónssyni. Sú bústærð, sem hér er vikið að, er u. þ. b. eitt ársverk eftir því sem mér er tjáð.

XI. liðurinn, þar sem vikið er að ræktun skjólbelta, kom aðeins, eins og aðrir liðir, til umræðu í nefndinni og að því var vikið hvort þessi liður stangaðist hugsanlega á við skógræktarlög. Það er álit fróðra manna að svo sé ekki. Í skógræktarlögum er gert ráð fyrir, eins og kunnugt er, framlögum með vissum hætti af hálfu Skógræktarinnar vegna skógræktar. Þar er ekki, að mínu viti, sérstaklega vikið að skjólbeltum eins og hér er.

Ég held að rétt sé í lok þessarar yfirferðar að ég lesi yfir síðustu mgr. tvær, með leyfi forseta:

„Ráðh. er heimilt, að höfðu samráði við stjórn Búnaðarfélags Íslands og stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins, að ákveða stærðarmörk framkvæmda sem framlags njóta skv. þessari grein.

Búnaðarfélag Íslands áætlar fjárþörf til framkvæmda skv. lögum þessum og gerir tillögur til landbrn. um fjárveitingu á næsta ári, áður en frv. til fjárlaga er lagt fyrir Alþingi. Í því skyni er ráðh. heimilt með reglugerð að ákveða fyrir hvaða tíma úttekt árlegrar jarðræktar og húsabóta skuli lokið.“

2. gr. frv. varðar verðlagsbætur skv. vísitölu er sýni breytingar á tilkostnaði framkvæmda frá meðalkostnaði þeirra á árinu 1984 í samræmi við önnur ákvæði 12. gr. jarðræktarlaga nr. 79 29. maí 1972. Inn í þessa grein hefur, að mínum dómi, slæðst villa sem okkur láðist að breyta í landbn. Upphaf bráðabirgðaákvæðisins hljóðar svo:

„Á framlög skv. 1. gr., vegna framkvæmda, sem unnar verði árin 1984 og 1985.“

Ef að líkum lætur eiga þessi ártöl að vera 1985 og 1986 því að í öllu frv. er gengið út frá þeim ártölum. 1. mgr. 1. gr. hljóðar svo:

„Í stað ákvæða 10. gr. skulu eftirtalin bráðabirgðaákvæði gilda um framlög til búnaðarframkvæmda sem unnar eru á árunum 1985 og 1986.“

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa um þetta mörg fleiri orð.

Nefndinni bárust upplýsingar um þá kostnaðarskiptingu sem hugsanlega verður að þessu frv. samþykktu. Það má segja að í meginatriðum sé hún þannig:

1. Hefðbundin viðfangsefni í jarðrækt fara úr 58% heildarframlaga í 43% eða þar um bil.

2. Stuðningur við endurræktun o. fl. verður svipaður. Grænfóðurræktar og votheysgeymslna er áður getið.

3. Ný viðfangsefni hljóta um það bil 15% af heildarframlögum.

Það hefur raunar oft, bæði innan Alþingis og utan, verið minnt á að það fjármagn hafi skilað sér illa sem talið er hafa sparast vegna skerðingarákvæða sem komu inn í jarðræktarlög 1979. Upphafsorð þess ákvæðis til bráðabirgða hljóða svo, með leyfi forseta:

„Heimilt er landbrh. í samráði við stjórn Búnaðarfélags Íslands að ákveða eftirgreind frávik frá ákvæðum þessarar greinar á næstu fimm árum.“

Á grundvelli þessa hafa átt sér stað allverulegar skerðingar. Menn hafa litið svo á að í því efni hafi sparast fjármagn. Þetta fjármagn hefur hins vegar hvergi nógu vel skilað sér. Veittar hafa verið upplýsingar um það, þótt ekki séu þær nógu nákvæmar, að þar vanti á hartnær 100 millj. kr. Það segir sig sjálft að það munaði allverulegu ef þessar 100 millj. kr. hefðu komið til ráðstöfunar á vegum landbúnaðarins og þá í framkvæmdir á sviðum nývirkja innan þess atvinnuvegar.

Að síðustu læt ég að sjálfsögðu í ljós þá von að það verði staðið við framlög skv. þessu frv., ef að lögum verður, og ætla ég alls ekki að bera brigður á það, en læt í ljós þá einlægu von. Hitt er ljóst að halda verður áfram að endurskoða núgildandi jarðræktarlög. Ég skal ekkert segja um það á þessu stigi hversu umfangsmiklar breytingar kunna að verða gerðar á þeim lagabálki. en eins og þetta frv. ber með sér er gert ráð fyrir allnokkrum fresti að því er varðar endurskoðun. Sá dráttur sem orðið hefur á endurskoðun jarðræktarlaga á sínar skýringar og að hluta til hafa þær komið fram, bæði í grg. með þessu frv. og reyndar hef ég vikið að því. Við sem höfum starfað að endurskoðuninni höfum ekki viljað ganga á snið, ef svo má að orði komast, við

Búnaðarþing í þessum efnum. Við höfum viljað leitast við að hafa þá faglegu aðila með okkur í ráðum. Þetta frv., og það skulu vera mín síðustu orð, er að mínum dómi að verulegu leyti sniðið að þeim viðhorfum sem ríktu á Búnaðarþingi til þessa máls.

Um minnihlutaálitið mun ég ekki ræða núna. Ég mun gera það síðar í umr. ef tilefni gefst til.