10.06.1985
Efri deild: 93. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6116 í B-deild Alþingistíðinda. (5566)

528. mál, jarðræktarlög

Helgi Seljan:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þetta frv.

Það er rétt hjá hv. 8. landsk. þm. að við höfum ekki haft þetta mál ýkja lengi til umfjöllunar, en þær upplýsingar, sem við fórum fram á þegar í upphafi að gefnar yrðu um áhrif þessa frv., lágu fyrir samdægurs sem betur fer og er það býsna óvenjulegt um hraða á afgreiðslu þeirra upplýsinga sem við biðjum yfirleitt um. Meginupplýsingarnar um greiðslur skv, jarðræktarlögum, miðað við þetta frv., miðað við lögin frá 1972 og miðað við lögin frá 1979 með skerðingarákvæðinu þá, bárust okkur samdægurs. Það verð ég að láta koma hér fram og þakka um leið að við fengum góða skilgreiningu á þessum breytingum þar sem m. a. kom fram að sá þáttur sem hv. 8. landsk. þm. benti á sérstaklega varðandi heygeymslur og fleira mundi hækka. Það lá alveg ljóst fyrir vegna þess sem þar hefur verið bætt inn í og við sáum þess vegna strax í hverju það lægi. Ég held því að ekkert hafi verið óljóst í okkar huga, eftir að við höfðum fengið þetta frá landbrn., til hvers þetta frv. mundi leiða og hvaða breytingar það hefði í för með sér.

Ég ætla ekki að fara út í umræður um hverjir séu að semja frv. fyrir hverja í sambandi við þessi mál. Ég vil a. m. k. ekki ætla hv. 11. landsk. þm. það varðandi afstöðu hans til landbúnaðarmála að hann sé að semja frv. til að hafa af því hag eða vegna eigin framkvæmda eða þá í því búi sem þeir búa félagsbúi hann og sonur hans og held að ég taki undir það hjá hv. 5. landsk. þm. að þegar að því er vikið hér svo ákveðið hljóti að vera nauðsynlegt að hv. 11. landsk. þm. fái áður en umr. lýkur að svara til saka og bera af sér sakir ef hann kýs það vegna þessara ummæla. En ég leit á þetta frekar sem nokkurt gaman hjá hv. 8. landsk. þm. Það er alveg rétt.

Sumar af þessum breytingum kunna að vera umdeildar og við höfum ekki fjallað um þær nákvæmlega sem slíkar. En ég segi varðandi þau atriði sem hv. 8. landsk. þm. kom sérstaklega inn á að þar tel ég að séu samt sem áður jákvæðir þættir inni í eins og þeir hvatar sem þarna eru og ég tel nauðsynlega til að bæta heyverkun og ekki síður til að bæta geymslu garðávaxta. Ég held að það sé mikil nauðsyn á því og það hefði mátt koma fyrr, enda lá það reyndar í hennar orðum að þeir sem áður hefðu staðið fyrir framkvæmdum hefðu ekki notið góðs af eins og kannske hefði verið verðugt.

Ég tek undir það með hv. 5. landsk. þm. að hér er um bráðabirgðalausn að ræða á heildarstyrkjamálum landbúnaðarins og ég legg ríka áherslu á að endurskoðunin í heild gangi sem best og skjótast fram. Ég á þar við ræktunarþáttinn sér í lagi, en það er vitað að miðað við hefðbundinn búskap í dag þarf verulega að skoða heildarþörfina á ræktun almennt og hversu þar skuli að staðið.

Það er rétt að 1979 var gerð hér á veruleg breyting, sett á ákveðið skerðingarþak eftir túnstærð. Þá þegar voru menn sammála um að betur þyrfti að standa að styrkjamálum til nýræktar. Enn frekar þarf þess nú í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur, enda bendi ég á að ef við hverfum aftur til laganna sem giltu fyrir 1972 væru jarðræktarstyrkirnir í heild sinni yfir 100 millj. eða 104 millj. nánar tiltekið, en eru skv. frv. núna innan við 60. Það er auðvitað veruleg lækkun og sjálfsögð leið sem þarf sérstaklega að athuga með.

Það kann vel að vera að framkvæmd þessarar skerðingar og lagabreytingarinnar frá 1979 hafi verið ábótavant og hún hafi ekki farið svo úr hendi sem menn þá væntu. En þessi bráðabirgðalausn er m. a. til þess, eins og hv. 5. landsk. þm. kom inn á áðan, að hverfa ekki aftur til þeirra laga sem giltu fyrir 1979 og í ljósi þess ber að skoða hana og meta sem slíka, en ekki síður í ljósi þess að heildarendurskoðun skal lokið sem allra fyrst, enda gert ráð fyrir því að þessi tilskipan gildi aðeins um þetta og næsta ár.

Ég vil svo segja það að styrkjakerfið í landbúnaði er íslenskri bændastétt býsna hættulegt ef það verður ekki tekið til verulegra breytinga og lagfæringar. Reyndar er það mín skoðun að lífskjör bænda þyrftu að vera þau að styrkir af þessu tagi væru óþarfir nema styrkir varðandi búháttabreytingar annars vegar og til nýliða í stéttinni. Þannig þyrftu lífskjör bænda að vera að styrkir af því tagi, sem við erum hér að fjalla um, væru óþarfir nema til verulegra breytinga á búháttum og svo til þeirra sem eru nýir, að hefja búskap eða að reyna algerlega nýjar leiðir. Besta atriði þessa frv. felst einmitt í stuðningi við loðdýraræktina, en þar þarf að mínu viti enn betra skipulag og enn betri heildaryfirsýn að komast á. Það er umhugsunarefni ef landbúnaðurinn og byggðirnar sem slíkar eiga að njóta virkilega þessarar nýju búgreinar.

Ég segi það líka að ég fagna áherslu á votheysverkun sem felst í auknum stuðningi við votheysgeymslur, enda hefur Alþingi áður lýst einróma vilja sínum í kjölfar ályktunar frá hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni. En endurskoðun heldur áfram og að henni ber sem best að vinna. Ég benti á það við 1. umr. og ítreka það hér að að þessari endurskoðun koma nú stjórnarliðar eingöngu. Það er að vísu hið ágætasta lið, eins og hér hefur þegar komið fram, með hv. 11. landsk. þm. í broddi fylkingar og framkvæmda, en ég ítreka þá ósk mína til hæstv. landbrh. að þegar þessi mikilvægi og þýðingarmikli lagabálkur verður endurskoðaður til þess að bera hér fram heilsteypt jarðræktarlög í heild sinni fái stjórnarandstaðan að koma að því máli.