10.06.1985
Efri deild: 93. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6119 í B-deild Alþingistíðinda. (5569)

528. mál, jarðræktarlög

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Það er þá fyrst vegna ræðu hv. 8. landsk. þm. og ummæla um hv. þm. Egil Jónsson, 11. landsk. þm. Ég segi fyrir mitt leyti að ég ætla að leyfa mér að taka orð hv. 8. landsk. þm. í þessari umr. sem grín. Ég hef ekki orðið var við enn sem komið er af hálfu þess hv. þm. ávirðingar á hendur þm. og ég held og ég veit raunar vegna samstarfs okkar í landbn. að það er alls engin ástæða til þess af hálfu hv. þm.

Hér hefur verið að því vikið að hv. 11. landsk. þm. verði að svara fyrir sig. Það getur hver haft sína skoðun á því. Ég tel þessi orð fyrir það fyrsta grín. Í öðru lagi, hafi þau verið mæli af einhverjum alvöruþunga, falla þau dauð og ómerk um sjálf sig. Það er minn dómur.

Mér er kunnugt um að hv. þm. Agli Jónssyni er miklu meira í mun að þetta mál nái fram að ganga en að svara héðan úr ræðustól órökstuddum dylgjum, að mínum dómi, um hann sjálfan. Ég vil að því leyti og fyrir mitt leyti svara fyrir hv. þm. vegna þessara ummæla hv. 8. landsk. þm.

Hv. 8. landsk. þm. leggur til að þetta frv. verði fellt. Að vísu er það orðað svo í nál. hv. þm.hv. þm. muni ekki samþykkja frv. Nokkuð er nú farið í kringum grautinn að mínum dómi, enda ekki óeðlilegt vegna þess að í nál. er tekið fram að það er álit hv. 8. landsk. þm. að með frv. sé þó stigið spor í rétta átt. Með leyfi forseta stendur í nál.:

„Það frv., sem hér um ræðir, er einvörðungu um styrki til uppbyggingar og endurbóta í landbúnaði og markar því stefnu stjórnvalda í þessum atvinnuvegi. Með þessu frv. er aðeins að litlu leyti komið til móts við nýjar búgreinar með því að bæta við styrkjum vegna bygginga loðdýraræktar. Styrkir eru enn fremur hækkaðir sérstaklega til bygginga á votheyshlöðum og geymslum fyrir garðávexti. Að öðru leyti felast þær breytingar, sem lagðar eru til með þessu frv., í því að laga jarðræktarlögin að ríkjandi ástandi í landbúnaði.“

Það sem sagt er í nál. og ég las upp er ekki af því tagi að byggja undir núverandi ríkjandi ástand í landbúnaði. Þess vegna er mér óskiljanlegt af hverju hv. þm. getur ekki látið svo lítið og stutt þetta frv. Að mínu viti flokkast þær aðgerðir sem hv. þm. vék sérstaklega að í sinni ræðu, undir það sem hv. þm. gæti stutt varðandi nýbreytni í stefnu í landbúnaðarmálum einfaldlega vegna þess að hv. þm. nefnir það fyrst, en víkur orðum sínum þannig og segir: „Að öðru leyti felast þær breytingar, sem lagðar eru til með þessu frv., í því að laga jarðræktarlögin að ríkjandi ástandi í landbúnaði.“ Það er einmitt þetta sem er fyrst og fremst ádeiluefni af þm. hálfu. Ég bið forláts, en mér finnst ekki alveg samhljómur í nál. og í þeim viðhorfum sem fram komu í ræðu hv. þm.

Hv. þm. Helgi Seljan kom aðeins inn á þessi mál. Hann orðaði það eitthvað á þá lund að styrkir væru mjög hæpnir í landbúnaði og gætu þegar stundir liðu jafnvel orðið þrándur í götu bænda sjálfra. Ekki vil ég taka undir þetta nema að því leyti þar sem þm. vék að því að landbúnaðurinn þyrfti í ríkari mæli að standa sjálfur undir eigin fjárfestingu. En þá þarf líka að byrja á réttum enda og að þessu leyti vil ég taka undir orð hv. þm. Auðvitað er æskilegast að allir atvinnuvegir og hinar ýmsu greinar innan atvinnuveganna standi sjálfar undir fjárfestingu, að afrakstur viðkomandi atvinnuvegar og atvinnugreinar sé slíkur að fjárfesting sé möguleg með skaplegum hætti.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. Björn Dagbjartsson vék að því hversu mikil fjármunatilfærsla væri að þessu frv. samþykktu og þá sérstaklega úr hinum hefðbundnu greinum í nýjar, þ. e. og þá ekki síst frá þeim greinum sem hugsanlega auka framleiðslu á hefðbundnum búvörum til annarra þátta landbúnaðar. Þessi tilfærsla er yfir 20 millj. Þegar bornar eru saman fjárhæðirnar við fjárlög nú með skerðingarákvæðinu kemur fram að þar er gert ráð fyrir til undirbúnings ræktunar 43.5 millj., en skv. frv. 23.8 millj., til jarðræktar 43.2 millj., en skv. frv. 35.8 millj. Sú breyting sem hefur mest áhrif í þá átt að draga úr framleiðslu, a. m. k. að mínum dómi, á hefðbundnum búvörum er niðurfelling styrkja til grænfóðurræktar. Sú breyting er gerð ef þetta frv. verður að lögum. Að vísu er það tekið fram að heimilt er að verja fé til grænfóðurræktar í sérstökum tilvikum vegna harðæris.

Hv. þm. beindi annarri spurningu til mín varðandi VIII. liðinn, þ. e. kölkun túna. Þessi fjárhæð er óbreytt, hvort heldur er gerður samanburður með inniföldum skerðingarákvæðum núgildandi laga eða skerðingarákvæðum ekki eða frv. sem við erum að fjalla um núna, en þar er um 800 þús. að tefla í öllum tilvikunum þremur.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv. Ég endurtek það sem ég sagði í upphafi. Ég er sannfærður um að hv. 11. landsk. þm. Egill Jónsson lætur sér eins og vind um eyrun þjóta þau orð sem hv. 8. landsk. þm. viðhafði úr ræðustól og svo stóra lund hefur hv. 11. landsk. þm. að hann metur meira framgang góðra mála en svara órökstuddum dylgjum sem fram koma úr þessum ræðustól.