10.06.1985
Efri deild: 93. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6121 í B-deild Alþingistíðinda. (5571)

528. mál, jarðræktarlög

Frsm. minni hl. (Kolbrún Jónsdóttir):

Herra forseti. Menn tóku aldeilis við sér þegar ég benti á að það gæti orkað tvímælis þegar einn og sami maðurinn væri höfundur að frv., væri formaður þeirrar nefndar sem um frv. fjallaði og gæti auk þess haft hagsmuna að gæta. Ég bar ekki á hann neinar sakir, en sagði að mér væri kunnugt um að hann ætti ekki geymslu eins og hér væri verið að auka styrki til. Það má hver og einn taka það og skilja það eins og hann vill. Ég er ekkert hrædd um að hv. þm. Egill Jónsson mundi ætla mér að ég væri að bera á hann einhverjar sakir. En svo sannarlega má oftar en í þessu tilfelli benda á að einn og sami maðurinn getur ekki og á ekki að geta setið í öllum sætum við ráðstefnuborðið og þyrfti oft og tíðum að hafa spegil til þess að tala við með stólinn auðan á móti sér. Þetta vil ég endilega benda á í þessu samhengi.

Til þess að afla mér frekari upplýsinga varðandi nauðsyn þess að hækka þessa styrki hafði ég samband við þá bændur sem lifa af þessari búgrein. Þeir hafa ekki heyrt á það minnst að hér eigi að fara að auka styrki frá opinberum sjóðum eða frá ríkinu. Það kom mér spánski fyrir sjónir að enginn af þeim sem ég ræddi við — og hæstv. landbrh. ætti að vera þeim málum kunnugur hafði hugmynd um hvað hér væri að fara fram og þeir töldu enga þörf á þessari hækkun. Það eru einhverjir hagsmunir sem mér er ekki kunnugt um eða einhver önnur rök fyrir því að þarna þurfi að auka styrki.

Hv. 5. landsk. þm. o. fl. sögðu hér úr ræðustól að ég legði til að frv. yrði fellt. Það er alger misskilningur. Ég tók fram að ég mundi ekki samþykkja frv. Þar af leiðandi mundi ég sitja hjá. En ég tók fram að ég mundi greiða atkv. gegn þessari hækkun í lið VI.

Hv. 5. þm. Vesturl. las upp úr nál. mínu. Það má vel vera að hægt sé að misskilja það, en þar benti ég á að lítillega væri komið til móts við nýjar búgreinar með því að taka upp styrki til bygginga loðdýraræktar. Enn fremur segir: „Styrkir eru enn fremur auknir sérstaklega til bygginga á votheyshlöðum og geymslum fyrir garðávexti.“ Þarna er ég eingöngu að benda á þessi atriði í frv.

Að lokum segi ég:

„Undirrituð telur að ekki sé lögð sú áhersla sem skyldi á stuðning við nýjar búgreinar“ — ég tek það sérstaklega fram og kartöflurækt og votheyshlöður flokkast ekki undir nýjar búgreinar — „ef ríkið er á annað borð að veita styrki til atvinnuvega og mun því ekki samþykkja þetta frv.“

Þarna gæti hann misskilið eitthvað. En þarna legg ég áherslu á nýjar búgreinar. Kartöflurækt eða votheysverkun af einhverju tagi flokkast ekki undir nýjar búgreinar þó að verkunin sem slík sé nýmæli á einhverjum bæjum víðs vegar um landið.

Ég tel ekki ástæðu til að lengja þessa umr. og ef hv. þm. Egill Jónsson hefur eitthvað við orð mín að athuga fær hann vonandi tækifæri til þess við 3. umr. þessa máls.