10.06.1985
Neðri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6123 í B-deild Alþingistíðinda. (5580)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Frv. þetta var flutt í hv. Ed. í desembermánuði s. l. Það varðar breytingu á því fyrirkomulagi sem er á flutningsjöfnuði á olíu og bensíni í sambandi við verðmyndun á þessari vöru. Í Ed. var gerð á þessu frv. nokkur breyting en við 1. umr. í deildinni kom skýrt fram að þm. óskuðu eftir því að frekari breytingar yrðu gerðar og ég lýsti mig fúsan til samstarfs um þá hluti. Það hefur nú orðið og á þskj. 1150 er grg. um þær breytingar sem hv. Ed. gerði á frv. Það er sérstaklega gert ráð fyrir því að í stað eins innkaupajöfnunarreiknings, eins og nú er hjá olíufélögunum, verði honum skipt þannig að það verði sérstakur reikningur í sambandi við innkaupajöfnun á olíu hjá olíufélögunum. Þetta er gert til þess að skapast geti nokkur samkeppni í sambandi við verðlagningu á þessari vöru og er það að mínum dómi af hinu góða.

Um þetta mál varð fullt samkomulag í Ed. og vænti ég þess að þegar hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar fer yfir frv. og skoðar þær breytingar sem á því hafa verið gerðar þá verði menn þar einnig sammála um að hér hafi verið bætt um betur frá því sem frv. var þegar það var flutt fyrst. Að öðru leyti vísa ég til grg. með frv. eins og það var þá flutt og þeirrar ræðu sem ég flutti með því máli í hv. Ed.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. Fulltrúar viðskrn. eru að sjálfsögðu reiðubúnir til þess að mæta á fundum n. og gefa þær upplýsingar sem þar verður óskað eftir.