10.06.1985
Neðri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6131 í B-deild Alþingistíðinda. (5598)

487. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað með fyrirvara undir nál. um heimild til ríkisstj. til að selja Þörungavinnsluna hf. hlutafélagi heimamanna í Austur-Barðastrandarsýslu. Ég var bundinn á öðrum fundi þegar 2. umr. málsins fór fram hér í hv. deild s. l. föstudag og vil því að fyrirvari minn komi fram hér við atkvæðagreiðslu.

Ég tel að heimaaðilar standi frammi fyrir gerðum hlut af hálfu stjórnvalda í þessu máli, annaðhvort að fyrirtækið verði lagt niður eða þeir taki við því með þeim skilyrðum sem í frv. felast. Ég tel að eigandi Þörungavinnslunnar hf., ríkissjóður, hefði átt að bregðast við vanda fyrirtækisins með öðrum hætti, þ. e. að hlaupast ekki undan merkjum eins og hér er gert. heldur auka eigið fé sitt í fyrirtækinu ásamt heimamönnum.

Ég óttast að Austur-Barðstrendingum einum reynist um megn að rétta við hag fyrirtækisins. Ég vil hins vegar ekki leggjast gegn því að sú heimild sem felst í frv. verði veitt, fremur en að Þörungavinnslunni verði lokað og segi því já.