06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 805 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

94. mál, ólöglegur innflutningur og dreifing ávana- og fíkniefna

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í des. s.l. var samþykki á Alþingi ályktun um aðgerðir gegn ólöglegum innflutningi og dreifingu ávana- og fíkniefna. Dómsmrh. skipaði í janúar s.l. starfshóp til að gera tillögur í samræmi við ákvæði þáltill. Starfshópurinn skilaði niðurstöðum 5. mars s.l. Tillögur starfshópsins voru mjög ítarlegar og umfangsmiklar og snertu skipulagsbreytingar, m.a. tillögur um verkaskiptingu við rannsókn fíkniefnamála, löggæslu, svo sem aukinn mannafla, aukinn tækjakost í hverju lögregluumdæmi, menntun, svo sem aukin kennsla í Lögregluskólanum, einkum kennsla vegna starfsaðferða við upplýsingaöflun, reglur um skráningu, meðferð og miðlun upplýsinga. Þær snertu úrbætur á sviði tollgæslu, svo sem bættan tækjabúnað og hjálpargögn, eftirlit með höfnum, menntun, svo sem og aukin kennsla í Tollskóla ríkisins á sviði fíkniefnamála, aukin samvinna lögreglu og tollyfirvalda, breyttar rannsóknaraðferðir, alþjóðasamvinnu og hert viðurlög, svo að dæmi sé tekið.

Þess er nú óskað að dómsmrh. geri Alþingi grein fyrir hvort framkvæmd eða undirbúningur sé hafinn um hvert einstakt atriði — og ég ítreka það: Um hvert einstaki atriði — í tillögum starfshópsins sem ég hef hér lauslega rakið. Einnig er spurt um hvort dómsmrh. muni við framkvæmd mála taka tillit til ábendinga og aths. sex rannsóknarlögreglumanna við tillögur starfshópsins og hvert sé álit dómsmrh. á þeim aths.