10.06.1985
Neðri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6153 í B-deild Alþingistíðinda. (5607)

456. mál, Byggðastofnun

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hv. 4. landsk. þm. hefur flutt hér langt mál um þetta frv., sumt hnyttið og kjarnyrt eins og hans er vandi. Og um margt er ég honum og reyndar fleiri ræðumönnum í þessari umræðu sammála. Og þá sérstaklega að stuðla beri að auknum sjálfsákvörðunarrétti fólks í þessu landi. Sú er stefna Kvennalistans og hana styðjum við einlæglega. En ég vil vara við offorsi og stóryrðum þegar þessi mál eru rædd. Það kann engri góðri lukku að stýra að ala á tortryggni og úlfúð milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar eins og stundum vill brenna við. Við heyrðum dæmi þess hjá hv. síðasta ræðumanni. Vissulega er engin vanþörf á því að minna höfuðborgarvaldið oft og rækilega á að það mætti sín harla lítils án landsbyggðarinnar. En það er fráleitt að snúa dæminu við og halda því fram að landsbyggðin þurfi eiginlega ekkert á höfuðborginni að halda.

Ég er ekki að segja að hv. 4. landsk. þm. hafi gert sig sekan um það þótt fyrri ræða hans hafi fyrst og fremst orðið kveikja að þessum orðum mínum. En þessi hugsunarháttur er að ryðja sér til rúms og það gæti leitt til ófarnaðar. Við erum engin stórþjóð, Íslendingar, mannfjöldinn ekki meiri en svo að stöku stórfyrirtæki úti í heimi hafa álíka fjölda starfsmanna í þjónustu sinni. Við þurfum öll hvert á öðru að halda, hvert byggðarlag styður annað, hver atvinnugrein styður aðra. Frumvinnslugreinarnar þurfa svo sannarlega á þjónustugreinum að halda og öfugt. Læknirinn læknar sjómanninn, verslunarmaðurinn selur honum veiðarfærin og kennarinn býr börnin hans undir lífsstarfið. Að mínum dómi er enginn öðrum rétthærri í þeim hópi hvar á landinu sem hann býr.

En það er eiginlega alveg makalaust hve illa og seint gengur að koma á nokkrum þeim breytingum sem geti stuðlað að virkara lýðræði og valddreifingu í landinu, valddreifingu sem mundi væntanlega draga úr þessari togstreitu milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Menn virðast mjög sammála um að sveitarfélögin eigi að fá meira sjálfsforræði, fleiri verkefni og að saman fari ábyrgð og framkvæmdir.

Það er ekkert nýtt að talað sé um að rétt sé að flytja ríkisstofnanir út á land. Það hefur hins vegar hvorki gengið né rekið í þeim málum. Það hefur nokkrum sinnum verið reynt og staðið til að flytja ríkisstofnanir eða einhverja slíka starfsemi út á land. En það hefur strandað ýmist á stjórnendum, starfsfólki eða notendum þjónustunnar. Landsbyggðarfólki finnst því í rauninni ekki greiði gerður með því að dreifa þjónustustofnunum út um landið. Hornfirðingum finnst þægilegra að reka öll sín erindi á einum stað en að þurfa að leita um eitt til Reykjavíkur, annað til Ísafjarðar, þriðja til Akureyrar og fjórða til Egilsstaða o. s. frv. Með aukinni tækni má vitanlega ryðja ýmsum þröskuldum úr vegi.

En mig furðar sérstaklega á því að ýmsar stofnanir landbúnaðarins skuli hrúgast saman í höfuðborginni og sífellt þenjast þar út. Einhvern veginn finnst manni að einmitt þær stofnanir hefðu mátt hafa höfuðstöðvar úti á landi. En á það hefur ekki mátt minnast. Þar finnst mér þeir hafa brugðist sem síst skyldi.

Við frv. það um Byggðastofnun sem hér er til umræðu er brtt. þess efnis að stofnunin eigi heimili og varnarþing á Akureyri. Kvennalistinn mun styðja þá till. og virðist reyndar af öllum sólarmerkjum að dæma ekki ólíklegt að hún verði samþykkt, enda hef ég fyrir satt að starfsmenn byggðadeildar bíði allspenntir eftir niðurstöðu málsins. Það væri þó alltént breyting á fyrirkomulagi þessarar ríkisstofnunar. En í þessum málum gerist áreiðanlega ekkert að marki nema gerðar verði skipulagsbreytingar á stjórnkerfi landsins.

Það er óneitanlega umhugsunarvert hvers vegna svo seint og' illa hefur gengið að koma slíkum skipulagsbreytingum á, því að vissulega virðist umtalsvert fylgi við svokallað þriðja stjórnsýslustig eða millistig á milli sveitarstjórna og ríkisstjórnar eða landsstjórnar, hvort sem það millistig heitir landshlutasamtök, fylkisstjórnir, héraðsstjórnir, svæðastjórnir eða eitthvað annað. Hins vegar má ljóst vera að aukin ábyrgð og auknar framkvæmdir á vegum sveitarstjórna og/eða fylkisstjórna kalla á auknar tekjur í þeirra hlut og minn grunur er sá að það sé sá flöskuháls sem þessar skipulagsbreytingar stranda yfirleitt á.

Í þeirri ágætu nefnd sem kallast byggðanefnd þingflokkanna hef ég spurst fyrir um starfsemi nefndar sem er að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga. Sú hefur víst starfað lengi en lítið komið út úr því starfi enda ríkisvaldinu sárt um tekjustofna sína. En þetta mál verður að leysa, að öðrum kosti verður ekkert úr þeirri valddreifingu sem allir þykjast hlynntir. Sveitarfélögin verða að fá aukið sjálfsforræði, ekki bara til framkvæmda heldur einnig til tekjuöflunar. Mín skoðun er sú að þeim sé fyllilega treystandi til þess og ólíklegt að þau gangi nær sínum þegnum en ríkisvaldið sem vitanlega verður að láta eitthvað af sínum tekjustofnum í hendur sveitar.félaganna.

Frv. það til 1. um Byggðastofnun sem hér er til umræðu breytir engu í þeim efnum að auka sjálfsforræði fólks úti um landið, frekar hið gagnstæða. Hér er ekki verið að minnka báknið, hér er ekki verið að draga úr miðstýringu höfuðborgarvaldsins, ekki verið að færa völd og ábyrgð út á landsbyggðina.

Byggðastofnun ætti að mínu mati eingöngu að vera þjónustu- og upplýsingastofnun. Sem slík gæti hún gert mikið gagn hvort sem hún ætti heima í Reykjavík, á Akureyri, eða annars staðar á landinu. Hún ætti að vera sú uppspretta gagna og upplýsinga sem hinar ýmsu byggðir landsins byggja áætlanir sínar á. En hún á ekki að stjórna því með lánveitingum hvernig staðið er að uppbyggingu hér og þar um landið.

Við verðum að breyta um vinnulag í þessum efnum, en á því er alls ekki tekið með því þingmáli sem hér er til umr. Það er að vísu rétt sem einhver ræðumanna kom inn á hér fyrr í umr. — ég held að það hafi verið hv. 4. landsk. þm. — að landshlutasamtökunum hefur ekki verið markaður lagalegur rammi sem gerir þau nægilega vel í stakk búin til að taka að sér önnur og meiri verkefni en einhvers konar samráðsfundi og áætlanagerð svo sem verið hefur. En það hlýtur að breytast, ef ekki landshlutasamtökin þá eitthvert annað miðstig stjórnsýslunnar eins og ég nefndi hér áðan, sem flestir virðast orðnir sammála um að til þurfi að koma til þess að valdið geti dreifst í auknum mæli út um landið. Þá á fjármagnið til uppbyggingar að koma í þeirra hlut, ekki að vera dreift frá einni stofnun. Þeirri kröfu hefur ekki verið ansað og því m. a. borið við að landshlutasamtökin valdi ekki því hlutverki. Þau halda þó uppi skrifstofum og hafa náð að marka sér ákveðna stöðu sem ég tel rétt að efla og það held ég að sé vilji fólksins úti um landið.

Það frv. sem hér er til umræðu er ekki til neinna bóta. Það færir landsbyggðinni hvorki aukinn rétt né völd og ég sé engan tilgang með lagasetningu af þessu tagi. Ég mun því greiða atkvæði gegn þessu frv. í heild en styð, eins og áður sagði, brtt. á þskj. 1053 í þeirri von að það breyti á sinn hátt starfsemi þessarar stofnunar og verði til eftirbreytni.