06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

94. mál, ólöglegur innflutningur og dreifing ávana- og fíkniefna

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Tillögur starfshóps um aðgerðir gegn ólöglegum innflutningi og dreifingu ávana- og fíkniefna, sem sendar voru rn. 5. mars á þessu ári, hafa verið til meðferðar og úrvinnslu í rn. Ég mun nú rekja tillögur starfshópsins og hverra aðgerða þær gefa tilefni til og hvað gert hefur verið eða er í undirbúningi.

Fyrsti þáttur tillagnanna fjallar um skipulag þessara löggæslumála. Starfshópurinn leggur til að frumrannsókn verði í höndum lögreglustjóra á hverjum stað. Hér er gert ráð fyrir óbreyttu skipulagi miðað við núgildandi reglur. Þá er lagt til að stofnuð verði sérstök starfsdeild í dómsmrn. til að vinna að samræmingu starfa hjá löggæslumönnum og fræðslu þeirra, svo og að hafa samband við erlend yfirvöld þessara mála. Hefur tveimur deildarstjórum rn. verið falið að annast þennan málaflokk sérstaklega. Hópurinn leggur til að lögreglustjóranum í Reykjavík verði falið að annast söfnun og miðlun upplýsinga á þessu sviði. Nú er unnið að skipulagningu slíkra upplýsinga, slíks upplýsingabanka.

Ein tillaga starfshópsins, er varðar skipulagningu, er sú að komið verði á fót samstarfshópi til að skipuleggja aðgerðir löggæslu og tollgæslu og annarra aðila á þessu sviði. Þessi samstarfshópur hefur verið skipaður og eiga í honum sæti sextán fulltrúar frá níu embættum og auk þess tveir fulltrúar dómsmrn. Þau embætti sem eiga fulltrúa í starfshópnum eru ríkissaksóknari, sakadómur í ávana- og fíkniefnamálum, Rannsóknarlögregla ríkisins, lögreglustjórinn í Reykjavík, “tollgæslan, bæjarfógetinn í Kópavogi, bæjarfógetinn í Hafnarfirði, bæjarfógetinn í Keflavík og lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli. Starfshópur þessi hefur tekið til starfa og hið helsta sem hann hefur hrint af stokkunum er undirbúningur upplýsingabanka, eins og getið var um hér að framan. Þá lagði starfshópurinn til breytingu á skipulagi sakadómsins í ávana- og fíkniefnamálum þannig að hann starfi í tengslum við sakadóm Reykjavíkur og valdsvið dómsins utan Reykjavíkur verði takmarkað. Unnið er að athugun á þessari tillögu en lagabreytinga er þörf til þess að hún komist í framkvæmd. Hugsanlegt er að lagt verði fram frv. á yfirstandandi þingi um breytingu á skipulagi dómstólsins.

Annar þáttur tillagna starfshópsins fjallar um löggæsluna. Er þar ítrekuð skylda allra löggæslumanna til að hafa eftirlit með þessum málum. Lagt er til að fjölgað verði um sex lögreglumenn í lögreglunni í Reykjavík vegna þessara verkefna. Dómsmrn. hefur óskað eftir heimild til að fá fjölgun um sex lögreglumenn, en af hálfu fjárveitingavaldsins hefur enn ekki verið fallist á slíka fjölgun. Starfshópurinn benti á þörf á auknum tækjabúnaði við rannsókn þessara mála. Hefur dómsmrn. gert ákveðnar tillögur hér að lútandi til fjárveitingavaldsins, en á fjárlögum yfirstandandi árs er innt af hendi nokkur fjárveiting til þessa og hefur þetta verið sent fjmrn. Starfshópurinn lagði til að þekking þeirra sem vinna við þessi mál verði aukin, bæði með því að kynna þeim starfsaðferðir erlendis og með sérstakri kennslu í Lögregluskóla ríkisins. Kennsluskrá hefur verið samin að viku námskeiði sem fyrirhugað er að halda í þessum mánuði. Fræðsla um fíknimál er auk þess allnokkur í almennu skólanámi lögreglumanna. Í undirbúningi er að senda lögreglumenn til nokkurra vikna dvalar til Norðurlanda, en þar gilda reglur um starfsemi fíkniefnalögreglu og starfsaðferðir sem eru mjög svipaðar íslenskum reglum. Þá er aukið samstarf milli lögregluumdæma talið brýnt til að efla löggæslu á þessu sviði. Telja verður að samstarfshópur sá, sem komið hefur verið á fót, geti að hluta til gegnt því hlutverki að auka samskiptin.

Þriðji þáttur tillagnanna lýtur að tollgæslunni. Þar bendir starfshópurinn á nauðsyn þess að tækjakostur Tollgæslunnar verði efldur og hún fái sérstakan hund til leitar að fíkniefnum í skipum. Einnig að Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli fái tvo leitarhunda. Dómsmrn. hefur ritað fjmrn. bréf varðandi nauðsynlega tækjaaukningu hjá Tollgæslunni. Varðandi nauðsyn þess að efla þekkingu tollvarða á þessum málaflokki benti starfshópurinn á svipaðar leiðir og hjá lögreglunni. Verður væntanlega unnið að því að efla þekkingu tollvarða á þessu sviði, enda gegna þeir mjög veigamiklu hlutverki í löggæslu á þessu sviði. Er nauðsynlegt að Tollgæslan eigi greiðan aðgang að öllum sömu upplýsingum og lögreglan varðandi þessi mál.

Fjórði þáttur tillagna starfshópsins lýtur að rannsóknaraðferðum. Tillögurnar beinast ekki að breyttum rannsóknaraðferðum, heldur eru þær aðallega ábendingar um að kannað verði við endurskoðun þá á lögum um meðferð opinberra mála sem nú stendur yfir hvort þörf sé á rýmkuðum heimildum fyrir þær rannsóknaraðferðir sem nauðsynlega þarf að beita í þessum málum til að aukinn árangur náist. Þessar ábendingar verða teknar til athugunar hjá réttarfarsnefnd.

Fimmti þáttur tillagnanna lýtur að alþjóðasamvinnu og bendir starfshópurinn þar á nauðsyn þess að halda uppi tengslum við löggæslu og tollgæslu í nágrannalöndunum. Svo sem verið hefur verður haldið uppi samvinnu á ýmsum sviðum löggæslu og tollgæslu varðandi þessi mál. Sérstaklega verður lögð aukin áhersla á samvinnu við hin Norðurlöndin, svo og samvinnu innan Interpol og Tollasamvinnuráðsins.

Sjötti þátturinn fjallar um könnun á neyslu fíkniefna. Sú könnun, sem skýrt er frá í tillögunum, stendur nú yfir og þess er að vænta að niðurstöður liggi fyrir í byrjun næsta árs. Þá hefur landlæknir einnig birt niðurstöður könnunar sem fram fór á hans vegum um útbreiðslu og neyslu fíkniefna.

Sjöundi þáttur tillagna starfshópsins fjallar um viðurlög við fíkniefnabrotum. Leggur starfshópurinn til að viðurlög við brotum á lögum um ávana- og fíkniefni verði hækkuð úr tveimur árum í sex ára fangelsi. Einnig verði athugað hvort ekki sé tímabært að hækka hámark 173. gr. a. í almennu hegningarlögunum sem nú er tíu ára fangelsi. Dómsmrn. ritaði heilbr.- og trmrn. 16. mars s.l. og óskaði eftir því við rn. að það flytti frv. til l. í samræmi við tillögur starfshópsins um breyt. á lögum um ávana- og fíkniefni. Hegningarlaganefnd verður falið að kanna hvort æskilegt sé að hækka tíu ára refsihámarkið í almennu hegningarlögunum.

Í kjölfar tillagna starfshópsins bárust rn. 20. mars s.l. aths. frá sex lögreglumönnum sem starfa eða starfað hafa við fíkniefnarannsóknir. Lýsa þeir andstöðu sinni við ýmsa þætti tillagna starfshópsins, svo sem um skipulag rannsókna á Reykjavíkursvæðinu, og leggja til að stofnuð verði sérstök deild til að fara með þessi mál, auk þess sem henni yrði falið að gegna landshlutverki á ýmsum sviðum. Má segja að kjarninn í tillögum þessum og gagnrýni beinist að skipulagi rannsóknanna á Reykjavíkursvæðinu og yfirstjórn þessara mála.

Það meginsjónarmið, sem fram kemur í till., að færa eigi sem mest af löggæslu á stór-Reykjavíkursvæðinu undir eina stjórn, hefur verið mikið rætt og við endurskoðun löggæsluskipulags þess svæðis, sem áformað er að vinna að sem allra fyrst, munu þessar tillögur einnig verða kannaðar.