10.06.1985
Neðri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6168 í B-deild Alþingistíðinda. (5610)

456. mál, Byggðastofnun

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. með eldhúsdagsræðu nú. Það gerum við annað kvöld og ég skal ekki heldur tíunda hér afrek þess hv. þm., sem talaði hér síðast, í fyrrv. ríkisstj. í orkumálum og fleiru. Læt mér vel lynda að mér skilst að ég hafi ráðið hitastigi sjávar og að '76 -árgangurinn hvarf og öðru stóru. En ég skal svara þeim spurningum sem til mín hefur verið beint.

Það er rétt haft eftir mér að ég hef sagt að ég gæti vel sætt mig við að Byggðastofnun yrði á Akureyri. Það er einnig rétt eftir haft að ég tel að stjórn stofnunarinnar eigi að ákveða það. Í raun og veru tel ég að staðsetning Byggðastofnunar sé ekki stórt mál. Í mínum huga er aðalmálið að hún þjóni öllu landinu, einnig Suðurnesjum t. d., þar sem atvinnuástandið er kannske einna erfiðast nú, miklir erfiðleikar í sjávarútvegi eins og allir vita.

Ég mundi, ef ég væri í stjórn stofnunarinnar, t. d. kanna hvaða kostnaður fylgir staðsetningu á Akureyri. Kannske er hann enginn sérstakur. En mér finnst skylt að það liggi fyrir og mér finnst ekki rangt að ræða við núverandi starfsmenn Byggðasjóðs eða a. m. k. þá sem menn gera ráð fyrir að héldu áfram að starfa við Byggðastofnun. Ég hefði einnig fagnað því ef landshlutasamtökin gætu sameinast um það að mæla með staðsetningu Byggðastofnunar á Akureyri. En ég tel með öðrum orðum þetta ekki vera neitt úrslitaatriði í byggðamálum

Hv. þm. Karvel Pálmason ræddi hér nokkuð um sjávarútvegsmál og takmörkun á veiðum færabáta. Ég vek athygli á því að í heildarsamkomulagi sem var gert um kvóta var m. a. samið um heildarkvóta fyrir færabáta. Ég vek athygli á því að þessir samningar allir eru yfirleitt mjög viðkvæmt mál. Nú kom hins vegar í ljós að smábátar náðu öllum sínum kvóta á mjög skömmum tíma, fyrst og fremst vegna þess að netaveiðar á suma þessa báta urðu mjög miklar og í raun og veru átti þá samkv. reglunum að stöðva veiðarnar með öllu. Það gerði sjútvrh. ekki, en kaus að takmarka þær með nokkru móti. Það er rangt að trillukarlar fái ekki að róa. Reglan er sú að þeir mega róa fimm daga af sjö. þ. e. ekki um helgar. Og einnig eru takmarkanir á veiðar um þann tíma sumars þegar erfiðast hefur gengið að fá fólk í frystihúsin. Það er langt frá því að lokað sé á allar veiðar þessara báta.

Hins vegar tel ég eðlilegt að þessi regla verði endurskoðuð. T. d. ætti ekki að taka netaveiðar trillubáta með í þennan kvóta færabátanna. Það hef ég rætt við sjútvrh. Hins vegar vil ég upplýsa að þau mótmæli sem hafa borist munu liggja á borði sjútvrh. þegar hann kemur nú í vikunni og ég mun ræða þau atriði við hann og mun verða kannað hvort einhverjar breytingar er unnt að gera. En ég legg á það áherslu að einmitt vegna þess, sem réttilega hefur hér verið bent á, að víða um land höfðu færaveiðar varla hafist, þá er mjög breytt út af þeim reglum sem áður höfðu verið ákveðnar. Og oft eru það mjög viðkvæm mál þegar um slíkt er að ræða.

Ég skal svo ekki heldur fara út í umræður um önnur byggðamál, þó að það væri út af fyrir sig ákaflega fróðlegt, t. d. um skiptingu landsins í fylki. Ég er því hlynntur að landshlutar fái aukið ákvörðunarvald. Auknu valdi fylgja að sjálfsögðu auknar ábyrgðir. m. a. öflun fjármagns til ýmiss konar framkvæmda. Ég álít að það væri að fara úr öskunni í eldinn fyrir okkar litla land að skipta því í svo og svo mörg meira eða minna sjálfstæð ríki. Ég hygg að það væri eitt mesta glappaskot sem við gætum gert. Ég get svo sem endurtekið aftur það sem einn væntanlegur íbúi Reykjavíkurfylkis sagði við mig. Hann kvaðst mundu fagna þessu mjög því þá gæti hann keypt smjörið sitt á fjórðungi verðs frá Danmörku og þá þyrfti hann ekki lengur að leggja í vegi norður í Húnavatnssýslu. Ég styð ekki þessa hugsun, en ég er ansi hræddur um að ef skipta á landinu um of í mörg fylki þá muni margir hugsa svo. Ég er ekki viss um t. d. að íbúar Norðurlands eystra væru reiðubúnir að ráðstafa fjármagni frá sér til Austfjarða ef Byggðasjóði væri skipt upp í jafnmargar einingar og fylkin. Ég held að þetta mál þurfi allt að skoðast miklu, miklu betur en það er núna rætt sem eins konar móðins fyrirbrigði og allsherjar lausn.