10.06.1985
Neðri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6169 í B-deild Alþingistíðinda. (5611)

456. mál, Byggðastofnun

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ef þetta mál þarf allt að skoðast miklu, miklu betur, hæstv. forsrh., hvers vegna er það þá lagt hér fram? Af hverju er það þá ekki skoðað miklu, miklu betur? ( Forsrh.: Ég var að tala um skiptingu landsins í fylki.) Ég held að það þurfi einnig að skoða þetta frv. miklu, miklu betur. Hæstv. forsrh. treystist ekki til þess m. a. af því að ekkert liggi fyrir um hugsanlegan kostnaðarauka, segir hann, af því að flytja Byggðastofnun norður á Akureyri og taka afstöðu til þess máls. Hvers vegna er það þá ekki skoðað, því er málið lagt svona illa undirbúið fram, af hverju var það m. a. ekki athugað? Og síðan viðhefur hæstv. forsrh. jafnskýrt orðalag eins og þegar hann er að lýsa afstöðu sinni, að hæstv. ráðh. segir: Það er rétt eftir haft að ég gæti vel sætt mig við það. Ég gæti vel sætt mig við það. Hvað felst í slíku tali? En jafnframt að hann telji að stjórn stofnunarinnar eigi að ákveða það, aðalatriðið sé að hún þjóni öllu landinu. Enn er það fært sem rök í málinu að þessi stofnun eigi að þjóna öllu landinu. Telur hæstv. forsrh. að hún geti ekki þjónað öllu landinu þó hún standi einhvers staðar annars staðar en við Rauðarárstíg?

Ég ítrekaði það, herra forseti, að ég vildi fá rök fyrir því, t. d. hvort einhver stjórnskipunarleg rök mæltu gegn því að Alþingi Íslendinga tæki af skarið og ákvæði þetta í eitt skipti fyrir öll. Það komu engin svör við því. Svar hæstv. forsrh. var í raun og veru eins og krakkarnir í sandkassanum segja: Af því barasta.

Ég vil vitna hér t. d. í lög um Hafrannsóknastofnun. Þetta eru splunkuný lög. Þau voru samþykkt hér á hinu virðulega Alþingi þann merka dag 17. maí árið 1984. Um það leyti sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var að verða eins árs gömul gekk hún frá þessum lögum um Hafrannsóknastofnun. Og hvað er inni í þeim lögum varðandi staðsetningu á ýmissi starfsemi þessarar stofnunar? Það segir í 16. gr.: „Hafrannsóknastofnuninni er heimilt að starfrækja útibú utan Reykjavíkur samkvæmt ákvörðun ráðherra“ o. s. frv. Hvað er verið að segja þarna í lögum sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur staðið að því að samþykkja hér? Það er verið að segja það að aðalaðsetur Hafrannsóknastofnunar skuli vera í Reykjavík og að hún hafi heimild til að starfrækja útibú úti á landi. Og hvað hefur breyst á þessu eina ári? Hvers vegna er ekki hægt að setja það í lög, í ný lög um Byggðastofnun að hún skuli eiga heima á öðrum stað? Og mér þætti við hæfi að setja það í lög að hún hafi heimild til þess að setja á fót útibú m. a. í Reykjavík. Það teldi ég við hæfi.

Ég hef nú þá trú á ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, miðað við hvað henni gengur vel að þenja út báknið, að hún geti komið starfsmönnum fyrrv. byggðadeildar. ef það er það fyrirbrigði sem hæstv. forsrh. ber fyrir brjósti, fyrir einhvers staðar annars staðar á ríkisjötunni hér í Reykjavík ef þeir treystast ekki til þess að flytja með henni norður til Akureyrar. Svo vekur það auðvitað upp spurningar þegar hæstv. forsrh. talar um hagsmuni þess fólks sem þar starfar. Er það kannske svo. eins og hér hefur verið haldið fram, að það eigi ekkert að gera nema skipta um nöfn, færa til nafnspjöld á hurðum? Það sé nú öll kerfisbreytingin sem hér er til umfjöllunar. Það skyldi nú aldrei vera.

Ég held að þessi vandamál séu auðleyst, hæstv. forsrh. Það þarf ekki að taka langan tíma að laga þetta til ef raunverulegur vilji er á því að færa þetta til betri vegar. Ég taldi reyndar í upphafi eðlilegra, og þess vegna flutti ég um það brtt. fyrst, að það yrði væntanlegt þróunarfélag sem menn beindu fyrst og fremst augum sínum að að setja á fót annars staðar en í Reykjavík, m. a. af þeirri ástæðu sem öllum ætti að vera ljós, að þar eru ekki nein vandamál í sambandi við starfsfólk sem fyrir er í störfum og búið er að festa rætur í einu ákveðnu byggðarlagi. Þá var það, eins og ég hef reyndar þegar rakið hér, hæstv. forsrh. sem kom hér í ræðustól og taldi miklu nær að hafa þetta Byggðastofnun og því erum við nú að ræða það, að segja má að hans eigin ósk, að beina athyglinni frekar að Byggðastofnun í þessu sambandi en að þróunarfélaginu.

Þetta undanhald er náttúrlega allt hið sérkennilegasta, herra forseti, og mætti svo sem hafa mörg orð um það hugleysi sem í því felst að ætla að víkja sér á bak við einhverja stjórn í einhverri stofnun, sem á að verða til ef þetta frv. verður að lögum, um það að taka svona stefnumarkandi ákvörðun sem auðvitað á að útkljá hér. Svo hefði verið gaman, herra forseti, al' því að við höfum nógan tíma, sumarið er fram undan, að ræða ofurlítið um þau ummæli sem hæstv. forsrh. lét hér falla um fylki og innflutning á sméri frá Danmörku. Það hefur að vísu komið fram í blöðum undanfarið að hæstv. forsrh. er illa við kýr. Honum er mjög illa við kýr og hann skammaði bændur fyrir það að þeir væru alltaf að setja á kýr, og það er kannske af því hvað honum er illa við kýr, íslenskar kýr a. m. k., að hann vill fara að flytja inn smér frá Danmörku. En ég held að við ættum að geyma það e. t. v. til betri tíma að fara ofan í djúpa umræðu um fylkjafyrirkomulagið og ásetning kúa. Það væri æskilegast að mínu viti að reyna að útkljá þetta mál hér sem fyrst um Byggðastofnun og fá úr því skorið, það fer ekki að verða eftir neinu að bíða með það, fá úr því skorið hver er hinn raunverulegi hugur alþm. til þess að reyna að dreifa opinberri þjónustu og ríkisstofnunum og þjónustustofnunum yfirleitt út um landið. Ég ætla enn og aftur að undirstrika það að hér gefst tækifærið. Ég vona að ég sé búinn að segja það svo oft hér við þessa umr. að það fari varla fram hjá neinum hv. þm., hafi þeir ekki áttað sig á því nú þegar. Það verður spennandi að sjá hver niðurstaðan verður.

En það hafa sem sagt, herra forseti, og það er gott að það komist inn í þingtíðindin, það hafa ekki komið fram nein efnisleg rök af hálfu þeirra úrtölumanna sem hér hafa komist í stól, engin efnisleg rök, einungis „af því barasta“ og síðan er reynt að flýja á bak við einhverja ímyndaða stjórn í framtíðinni. Það er alveg nauðsynlegt að þetta liggi ljóst fyrir. Ég tel mig hafa vitnað í það, m. a. með því að lesa hér upp úr nýlega settum lögum, að stjórnarskipunarlega séð eru fyrir því hefðir, langar og ríkar hefðir reyndar, herra forseti, um það vitnar lagasafnið, að um leið og Alþingi setur ákveðinni starfsemi lög tekur það ákvarðanir um hluti eins og staðsetningu viðkomandi fyrirtækja eða viðkomandi starfsemi. Það er engin tilviljun að hin ýmsu ríkisfyrirtæki eru þar sem þau eru. Og þá er það mál afgreitt, sá hluti málsins. Stjórnskipunarlega séð er það m. ö. o. mjög eðlilegt að hv. Alþingi negli þetta niður um leið og það setur önnur slík stefnumarkandi ákvæði inn í lögin.

Það er hins vegar alveg sjálfsagt að væntanleg stjórn í væntanlegri Byggðastofnun færi til nafnspjöld og hún ráði litum á herbergjum og öðru slíku. Það er ekki hlutverk löggjafans, og engin ástæða til að við séum að setja slíkt inn. En byggðapólitíski atriði, stefnumarkandi byggðapólitískt atriði eins og það hvort menn hafa kjark og þor og vit til þess að nota þetta tækifæri og færa þessa stofnun eitthvað upp fyrir Elliðaár, það á að ákvarðast hér og hvergi annars staðar. Það vil ég að verði mín síðustu orð, herra forseti.