10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6185 í B-deild Alþingistíðinda. (5634)

236. mál, stálvölsunarverksmiðja

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Hv. fjh.- og viðskn. hefur lengi haft mál þetta til skoðunar og rætt það á mörgum fundum og fengið marga til viðræðu um málið, einkum fyrr á þinginu, en þetta mál hefur legið í biðstöðu alllengi eins og hv. þdm. er kunnugt um og raunar alþjóð allri. Það hafa verið gerðar ýmiss konar breytingar á fyrirhugaðri starfsemi og byggingu þessarar verksmiðju, ef af verður, og þar að auki leitast við að fá aukið hlutafé, aukið eigið fjármagn til þessarar verksmiðju. Enginn veit á þessari stundu hvort af byggingarframkvæmdum verður, en engu að síður hefur það orðið að ráði að leggja til að samþykkt verði heimild til hæstv. fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs að veita ríkisábyrgð, en þó með ströngum fyrirvörum sem gefur að líta í brtt. sem meiri hl. flytur. Það er kannske rétt, af því að hún er svo nýlega fram komin, að ég lesi hana hér upp, með leyfi forseta, en hún er við 1. gr.

„Greinin orðist svo:

Fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt, gegn þeim tryggingum sem hann metur gildar, að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán að fjárhæð allt að 1.55 millj. Bandaríkjadala, eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskri mynt, sem tekin eru til byggingar stálvölsunarverksmiðju í Vatnsleysustrandarhreppi. Auk skilyrða laga nr. 37/1961, um ríkisábyrgðir, verði þess gætt að hlutafé fyrirtækisins sé a. m. k. 30% af stofnkostnaði verksmiðjunnar, að samningar séu fyrir hendi við banka er tryggi rekstrarfé til fyrirtækisins og að gætt verði náttúruverndarsjónarmiða.“

Með hliðsjón af því sem ég þegar hef sagt leggjum við fimm nm., auk mín hv. þm. Egill Jónsson, hv. þm. Jón Kristjánsson og hv. þm. Valdimar Indriðason ásamt Eiði Guðnasyni sem ritar undir með fyrirvara. til að frv., verði samþykkt með þeirri breytingu sem hér er lögð fram.