10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6186 í B-deild Alþingistíðinda. (5635)

236. mál, stálvölsunarverksmiðja

Frsm. minni hl. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 1190 er að finna nál. minni hl. fjh.- og viðskn., en að því áliti stend ég ein. Það er svohljóðandi:

„Nefndin hefur haft til athugunar frv. til l. sem felur í sér heimild til handa fjmrh. til að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán allt að 1.55 millj. Bandaríkjadala eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskri mynt, sem tekin eru til byggingar stálvölsunarverksmiðju við Fögruvík í Vatnsleysustrandarhreppi.

Svo virtist lengi vel sem málið yrði ekki afgreitt úr nefndinni þar sem í ljós kom að fjárhagsgrundvöllur fyrirtækisins væri með hæpnasta móti. Svo gerðist það allt í einu að grænt ljós kviknaði með tilkomu einhvers „huldumanns“ sem lofar fyrirtækinu 17–19 millj. kr.

Undirrituð er andvíg því að stuðlað verði að fæðingu þeirrar verksmiðju, sem hér um ræðir, af eftirtöldum ástæðum:

Í fyrsta lagi er staðsetning verksmiðjunnar alls óviðunandi. Skv. upplýsingum formanns Náttúruverndarráðs er verksmiðjunni ætlaður staður í nágrenni sérkennilegrar náttúru Látra við Hvassahraun sem komnir eru á náttúruminjaskrá. Við fjöruna er að finna sérkennilegar tjarnir með ísöltu vatni með sérkennilegu dýralífi.

Í öðru lagi verður það síst til fegrunar og álitsauka þegar haugar af brotajárni blasa við ferðamönnum þeim sem fara um Keflavíkurveginn á leið til höfuðborgarinnar eða af landi brott.

Í þriðja lagi fylgir verksmiðjum af þessu tagi óhjákvæmilega mengun bæði í útblæstri (þótt síum sé beitt) og með frárennslisvatni. Upplýsingar frá væntanlegum verksmiðjueigendum um hugsanlega mengun eru alls ófullnægjandi og ómarktækar og ætti auðvitað að fara fram rækileg könnun á hugsanlegum náttúruspjöllum frá verksmiðjum sem þessari, gerð af hlutlausum aðilum.

Þá er þess í fjórða lagi að geta að í heiminum er mikill fjöldi slíkra verksmiðja og hafa margar þeirra farið á hausinn á undanförnum árum, m. a. sú sem ætlunin er að kaupa frá Halmstads Järnverk í Svíþjóð.

Í fimmta lagi er nóg komið af hæpnum fyrirtækjum í íslensku atvinnulífi og nær að leita vænlegri kosta. Það verður þó að geta þess að verksmiðjan hefur þann kost að hún nýtir innlent brotajárn sem til fellur. Hætt er þó við að fljótlega verði skortur á brotajárni innanlands og verður þá að hefja innflutning. Verksmiðjan er afkastamikil skv. þeim upplýsingum sem fyrir liggja, henni er ætlað að framleiða um 20 þús. tonn á ári. Nú um stundir er verð á steypustyrktarjárni í algjöru lágmarki í heiminum og virðist nánasta framtíð því ekki brosa við þeim stálfélagsmönnum. Allar forsendur eru með hæpnasta móti og legg ég því til að frv. verði fellt.“