10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6188 í B-deild Alþingistíðinda. (5637)

236. mál, stálvölsunarverksmiðja

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég er mikill áhugamaður um að þetta mál nái fram að ganga og að ríkissjóður veiti sjálfskuldarábyrgð á láni vegna byggingar stálvölsunarverksmiðju, en það er algert skilyrði til þess að sú verksmiðja fái það lán hjá Norræna fjárfestingarbankanum sem hún hefur sótt um til að geta hafið rekstur sinn.

Fyrir mistök hefur nafn mitt fallið niður úr nál. meiri hl. fjh.- og viðskn., en einmitt þess vegna sé ég sérstaka ástæðu til að láta það koma skýrt fram að ég styð samþykkt þessa frv.

Ég varð mjög undrandi fyrr í vetur þegar hæstv. iðnrh. gaf þá yfirlýsingu í fjölmiðlum að hann gæti ekki stutt byggingu þessarar verksmiðju því að sjónarmið hans og röksemdir stönguðust í veigamiklum atriðum á við þær staðreyndir sem fram væru komnar í málinu.

Það er nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að nota hvert tækifæri sem býðst til þess að færa út grundvöll íslensks atvinnulífs. Hér er á ferðinni fyrirtæki sem ekki á sinn líka hér á landi, en hefur möguleika að byggja sig hér upp á hráefnum sem aðallega fást úr brotajárni. Þannig getur þetta fyrirtæki orðið til verulegs gjaldeyrissparnaðar þótt ekki verði um ýkjamikinn útflutning að ræða.

Þetta mál var undirbúið í tíð seinustu ríkisstjórnar og átti eindreginn stuðning hennar. Ég taldi það mjög miður þegar svo virtist fyrr í vetur að hæstv. iðnrh. ætlaði að jarða þetta mál. Ég hvatti mjög til þess í fjh.og viðskn. Ed. að mál þetta yrði afgreitt og ég veit að það er hvorki formanni nefndarinnar né öðrum meðnm. mínum að kenna — eða a. m. k. ekki með vilja gert - að nafn mitt hefur fallið niður úr nál. Þar er áreiðanlega um einföld mistök að ræða.