10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6188 í B-deild Alþingistíðinda. (5638)

236. mál, stálvölsunarverksmiðja

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Hugmyndin að byggingu þessarar verksmiðju er til komin vegna þess að Suðurnesjamenn hafa viljað leita fanga víðar en í sjávarútvegi, einkum vegna þess að atvinna hefur verið stopul í þeim útvegi og framtíðarsýnin ekki ýkjabjört. Það hefur verið deilt nokkuð um hvort þessi verksmiðja eigi rekstrargrundvöll eða ekki og hlýtur það að byggjast á kaldrifjuðu mati hvort það takist eða ekki. Mér sýnist svo, eftir þeim upplýsingum að dæma sem ég hef undir höndum, að rekstur þessarar verksmiðju ætti að takast og því styð ég að hún verði reist.

En mér þykir það álit sem meiri hl. fjh.- og viðskn. leggur fram afar undarlegt þó ekki sé meira sagt. Ekki síst eftir að hafa heyrt ræður þeirra sem að þessu áliti standa. Mér virðist sem það sé skrifað í þeim dúr að það sé alveg tryggt að fjmrh. veiti ekki þá ábyrgð sem þarna er talað um. Ég spyr formann n.: Hvaða skilyrði eru það sem fjmrh. mun setja fyrir þessari ábyrgð? Er það vitað? Er það gert viljandi að geta þess ekki hér?

Það eru ekki aðeins skilyrði sem fjmrh. á að setja, heldur líka ýmis önnur skilyrði sem hér eru tilgreind. Því er fleygt í þingsölum að nú sé alveg tryggt að verksmiðjan verði ekki byggð vegna þess að ráðh. muni aldrei veita þessa ábyrgð. Því spyr ég enn á ný: Er þetta rétt, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson?