10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6189 í B-deild Alþingistíðinda. (5639)

236. mál, stálvölsunarverksmiðja

Frsm. meiri hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Mér er ljúft að svara fsp. hv. síðasta ræðumanns að svo miklu leyti sem það er á mínu valdi eða yfirleitt á nokkurs manns valdi að segja nákvæmlega til um hvaða skilyrði, fyrir utan þau sem tilgreind eru í brtt., sem við hér flytjum, kynnu að verða sett.

Það er ljóst, þegar vitnað er til laga 37/1961. um ríkisábyrgðir, að Ríkisábyrgðasjóði er óheimilt að ábyrgjast meira en 70% af að ég hygg brunabótamati eða einhverju kostnaðarmati viðkomandi framkvæmda. Það skilyrði er algilt og allir fjmrh. verða því að hlíta. Til viðbótar er talað um 30% af stofnkostnaði verksmiðjunnar og þá ekki rekstrarkostnaði, ekki rekstrarfé, 30% af stofnkostnaði verksmiðjunnar skuli vera eigið fé eða hlutafé. Þetta hlutfall má segja að sé ágiskunarhlutfall, en það er þó ekki óalgengt að 30% af stofnkostnaði séu hlutfallið í slíku fyrirtæki. Þar að auki liggur fyrir og hefur komið fram á fundum n. að hlutafjársöfnun stendur enn þá yfir og einhver einstaklingur mun vera reiðubúinn að leggja fram 17–19 millj. í hlutafé til viðbótar því hlutafé sem fyrir er. Þannig ætti að verða unnt að ná þessu hlutfalli.

Hins vegar hefur komið á daginn að enn hefur enginn viðskiptabanki fengist til að taka þetta fyrirtæki í eðlileg bankaviðskipti og veita rekstrarlán. Það er líka upplýst að það sé algjör forsenda þess að aðallánið, lánið frá Norræna fjárfestingarbankanum, fáist að viðskiptabanki fáist til að taka fyrirtækið í viðskipti. Þess vegna held ég að það geri ekki forustumönnum um þessa byggingu skaða heldur gagn að þetta skuli beinlínis vera hér tekið fram vegna þess að það knýr á að fá svar við því hvort fyrirtækið fær hér eðlileg bankaviðskipti. Fái fyrirtækið þau ekki er lánið frá Norræna fjárfestingarbankanum alls ekki á lausu. Þá er allt jafn óljóst eftir sem áður.

Þriðja skilyrðið, um að gætt sé náttúruverndarsjónarmiða, er sjálfsagt, en formaður Náttúruverndarráðs var á fundi hjá okkur og ég gat ekki heyrt að það væri nein óvild af hans hálfu í garð fyrirtækisins. En að sjálfsögðu mun Náttúruverndarráð segja sitt álit á þessu eins og öðrum slíkum framkvæmdum.

Ég vona að þetta svari spurningu hv. þm. Meira get ég ekki sagt. Að öðru leyti er lagt í vald fjmrh. að taka um þetta ákvörðun þegar hann sér alla málavöxtu. En ég vil endurtaka að ég held að fá mál af þessu tagi hafi verið skoðuð meira en einmitt þetta því að við kölluðum til okkar fjölda sérfræðinga til að ræða þetta mál á sínum tíma og stjórnin kom margsinnis á fund til okkar og við vorum meira og minna daglega í sambandi við hana. En málið tók breytingum. Upphaflega var einungis hugsað um að hér yrði um völsun að ræða, það yrðu fluttir inn málmar í klumpum og járnið eða stálið valsað hér. Nú er hugmyndin sú að um bræðslu verði að ræða líka, eins og var raunar upphaflega áætlunin. Það virðist vera miklu líklegra til að skila árangri að fullvinna brotajárn, bræða það og vinna í steypustyrktarjárn og til einhverra annarra nota kannske líka. En hitt virðist ekki vera mjög arðvænlegur rekstur að flytja inn járn í klumpum til þess eins að valsa þá. Þessar aðstæður eru því breyttar. Þess vegna kom skriður á málið aftur og þess vegna leggjum við sex nm. til að þessi heimild verði veitt.

Ég vil gjarnan taka fram, úr því að ég kom hér í ræðustólinn og kannske hefði ég átt að gera það hvort sem er, að það er eingöngu mín sök að nafn hv. þm. Ragnars Arnalds féll niður af nál. Það eru miklar annir hjá okkur í Ed. í dag og mörg nál. voru samin eftir fund í hv. fjh.- og viðskn. fyrir hádegið. Af einhverjum sökum kom þetta nál. ekki í hendur hv. þm. Það er mér einum að kenna, enda hefur það verið leiðrétt. Hans nafn átti að sjálfsögðu að standa á þessu plaggi.