10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6194 í B-deild Alþingistíðinda. (5649)

280. mál, rétt skil afurðasölufyrirtækja til bænda

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ekki ástæða til að hafa langar ræður um þessa till. Hins vegar finnst mér að það gæti nokkurs misskilnings í þeim umræðum sem hér hafa átt sér stað.

Þessi till. fjallar um að það skuli gera upp við bændur það sem á skortir að þeir hafi fengið það verð sem þeim hefur borið allt aftur til ársins 1947. Um það fjallar þessi till. Hún fjallar ekki um það hvenær átt hefði að greiða þetta eða hvernig þessum málum skuli skipað í framtíðinni. Hún hefur þá þýðingu að kveða skýrt á um þá skoðun Alþingis að þetta hafi bændum borið í öll þessi ár. Menn geta svo velt ýmsu öðru náskyldu fyrir sér í þessum efnum eins og kom fram hjá þeim tveimur hv. Alþb.-mönnum sem töluðu áðan, en þetta er efni till. og um þetta snýst afgreiðsla hennar.

Það fer að verða dálítið þreytandi að heyra menn stöðugt vera að tala um að það hafi gilt umboðssöluskipulag á þessum málum frá árinu 1947. Það er meginmisskilningur. Þá var umboðssalan lögð niður. Þá var byrjað á því að skrá verð eins og varan átti að kosta og auðvitað hefði átt allan þennan tíma að greiða hið skráða verð. Menn gátu hins vegar komið sér saman um hvenær ársins það væri greitt.

Ég hygg að það sé afar létt verk fyrir lögfróða menn eða þá ef meiri tími gæfist hér að sanna þetta. Þannig gekk þetta, með mjög líkum hæni eða kannske alveg sama hætti og í viðskiptum í sjávarútvegi. Ég hygg að það hafi verið dómsúrskurður sem réði þeirri niðurstöðu að greitt skyldi fullt verð til sjómanna og útvegsmanna en ekki skert verð. Bændur hafa legið eftir í þessum efnum.

Það má kannske segja að tímarnir séu breyttir frá því sem var t. d. árið 1947 því að þá var langstærsti hlutinn af kostnaðinum við búvöruframleiðsluna kaup sveitafólks sem við þá framleiðslu vann. Þar af leiðandi má kannske segja að það hafi ekki verið svo stórhættulegt fyrir afkomu fólksins þá þótt fullt skilaverð kæmi ekki í þess hlut. En nú er þetta breytt. Ef við lítum á heildsöluverðið sem slíkt er hlutur milliliðanna jafnstór og vinnuliðurinn er í heildsöluverðinu. Mig minnir að árið 1983 hafi launaliðurinn í heildsöluverðinu verið 27%, en sölu- og dreifingarkostnaður hafi þá numið 26.8%. Þegar koma svo skerðingar á þetta, eins og hefur þráfaldlega gerst á undanförnum árum, skilaverðið hefur ekki komið til þeirra sem það áttu að fá, kemur það til frádráttar á þessum fátæklega launalið eins og hann er nú orðinn. Það er einmitt það stórhættulega í þessu máli.

Mér fannst ástæða til að vekja athygli á þessu tvennu í sambandi við þessa umr. Í fyrsta lagi höfum við alls ekki búið við umboðssölu í landbúnaði, ekki gagnvart hinum hefðbundnu búgreinum, síðan framleiðsluráðslögin voru sett. Þá var byrjað að skrá verð sem bóndinn átti að fá. Hins vegar vek ég athygli á að þessi till. fjallar um staðfestingu á þessari skoðun að bændum hafi borið fullt verð öll þessi ár og er hún kannske þess vegna ekki að fullu leyti í takt við aðrar tillögur um rétt skil sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson hefur svo ötullega barist fyrir með þeim árangri að enginn treystir sér nú orðið að mæla því gegn að bændur eigi að fá laun greidd með sama hætti og aðrir þegnar í þessu þjóðfélagi. Má þá segja að þeir blindu hafi fengið sýn í þeim efnum.