10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6196 í B-deild Alþingistíðinda. (5655)

293. mál, sala Gullaugans og Áburðarverksmiðjunnar

Davíð Aðalsteinsson:

Herra forseti. Hér er eitt sölumálið á ferðinni enn, en mér þykir heldur lakara að hv. 11. landsk. þm. skuli ekki vera í sínum skrifarastól. (Forseti: Það er hægt að bjarga því.) Já.

Eitt leikur mér forvitni á að vita við þessa umr. Það er hvort hv. 11. landsk. þm. Egill Jónsson að fylgja þessari till., eins og hann hefur raunar þegar lýst yfir, eða því frv. til l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum sem hann ásamt mér og fleirum hefur staðið að að semja, en þar er vikið að Grænmetisverslun landbúnaðarins. Ég kemst ekki hjá því að geta um þetta og í því sambandi neyðist ég til að hafa yfir 52. gr. þess frv. þar sem einmitt er vikið að Grænmetisversluninni, en þar segir, með leyfi forseta:

„Rekstri Grænmetisverslunar landbúnaðarins skal hætt frá og með 1. júní 1986.

Landbrh. er þó heimilt að ákveða að breyting skv. 1. mgr. verði fyrr, enda hafi þá náðst samkomulag við aðila skv. 3. mgr. um yfirtöku á rekstri fyrirtækisins, sölu og leigu á eignum þess og að hið nýja fyrirtæki gefi fastráðnu starfsfólki Grænmetisverslunar landbúnaðarins kost á sambærilegum störfum. Skulu ákvæði 14. gr. laga nr. 38 14. apríl 1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þá ekki ná til þeirra starfsmanna Grænmetisverslunar landbúnaðarins sem njóta lögkjara skv. þeim lögum.“

Síðan segir:

„Heimilt er landbrh. að selja samtökum framleiðenda kartaflna og grænmetis eða hlutafélagi í eigu þessara aðila eignir Grænmetisverslunar landbúnaðarins, aðrar en fasteignir. Þá er ráðh. heimilt að leigja sömu aðilum núverandi fasteignir Grænmetisverslunar landbúnaðarins til reksturs dreifingar- og sölufyrirtækis með kartöflur og grænmeti.“

Ég hirði ekki um að lesa lengra.

Mér vitanlega er hv. þm. Egill Jónsson á því að þessi ákvæði nefnds frv. nái fram að ganga þar sem ekki er gert ráð fyrir sölu fasteigna heldur leigu á þeim. en sölu á öðrum munum Grænmetisverslunar landbúnaðarins. Og fyrirgefi hv. þm. mér það að varpa þeirri spurningu til hv. 11. landsk. þm. Egils Jónssonar hvað valdið hafi þessari stefnubreytingu hjá hv. þm. hafandi setið yfir samningu líklega nokkuð merkilegs máls í um það bil tvö ár.

Er kannske von á brtt. við frv. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum í takt við þá till. sem hér er til umr. og hv. þm. hefur lagt lag sitt við?

Mér finnst einhvern veginn að hv. þm. hafi með afstöðu sinni til þessa máls orðið það sem sumir kalla að vera tvísaga. Ég get ekki að því gert.

Herra forseti. Ég hef engu við þetta að bæta. Ég tek heilshugar undir álit hv. 4. þm. Austurl. Jóns Kristjánssonar um að vísa þessari till. til ríkisstj.