06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

95. mál, skattsvik

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svör hans þó þau hafi ekki verið eins ítarleg og greinargóð og ég hafði vænst af hæstv. ráðh. Varðandi lið 2–5 bendir hann einungis á að þessi mál séu til skoðunar og tengist þeim virðisaukaskatti og öðrum skattabreytingum er fram komi á þessu þingi. Tengist öðrum skattalagabreytingum sem fram koma á þessu þingi, segir hæstv. ráðh. Má þá vænta þess að lagðar verði fyrir Alþingi þær breytingar sem þarf til þess að hrinda þessum liðum, sem fram koma þarna, sem ég sé þá ekki ástæðu til þess að telja upp, nr. 2–5, í framkvæmd?

Ég sé ástæðu til að nefna sérstaklega 3. liðinn. Ég tel mjög nauðsynlegt að fram fari endurskoðun á frádráttarliðum af tekjum, svo sem risnukostnaði og bifreiðafríðindum og launamat. Ég nefni þessa liði sérstaklega. Mér finnst viðmiðunarreglur eins og þær sem notaðar eru hjá ríkisskattstjóra til að reikna laun við eigin atvinnurekstur þurfa rækilegrar endurskoðunar við. Því til staðfestingar vil ég benda á að t.d. í framtöldum tekjum núna fyrir 1984 koma fram mjög athyglisverðar upplýsingar sem mér finnst vert að gefa gaum.

Ég hef fyrir framan mig framtaldar tekjur launþega á þessu ári eins og þær koma fram á skattframtölum. Þar er um að ræða 133 þúsund einstaklinga sem hafa í launatekjur 26 milljarða og 44 millj. kr. Það þýðir að að meðaltali hafi launþegar haft 195 þús. kr. í tekjur á s.l. ári. Ef við förum aftur á móti í reiknuð laun við eigin atvinnurekstur kemur í ljós að það eru 21 367 einstaklingar sem hafa í tekjur eða höfðu á s.l. ári 2 milljarða 489 millj. kr., eða 116 þús. í meðaltekjur á s.l. ári. sem sagt, atvinnurekendur, sem telja fram, virðast þarna hafa 116 þús. í meðaltekjur á s.l. ári, en launþegar 195 þús. Ef við skilgreinum þetta nánar, eins og fram kemur í þessari skýrslu sem ég er með, þá er þetta skilgreint t.d. eftir eiginmönnum, launþegum, þeir höfðu að meðaltali á s.l. ári 309 þús. en eiginmenn sem höfðu atvinnurekstur höfðu í meðaltekjur á s.l. ári, skv. þeim upplýsingum sem ég hef, 157 þús.

Þetta hlýtur að segja okkur að það sé mikil brotalöm að því er þetta ákvæði varðar og þær viðmiðunarreglur, sem ríkisskattstjóri notar við að reikna laun við eigin atvinnurekstur, þurfi endurskoðunar við. Skilgreiningin á reiknuðum launum við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi við atvinnurekstur maka eða við atvinnurekstur og starfsemi sem unnin er í sameign með öðrum er að launin séu sambærileg við það sem þau hefðu orðið ef starfið væri unnið á vegum óskylds eða ótengds aðila. Ég tel að þarna sé um allt of lágt launamat að ræða. Auðvitað mætti gera þessu miklu ítarlegri skil og fara yfir þetta lið fyrir lið. Það kom fram á s.l. Alþingi að menn meta það svo þó að það sé ekki staðfest, og til þess er þessari úttekt hrundið af stað sem Alþingi samþykki að yrði gerð með þessari þál. að á Alþingi hefur verið rætt um það að skattsvikin gætu numið 10–11% af þjóðartekjum. Það er vissulega um stórar fjárhæðir að ræða og vonandi koma fram upplýsingar sem eitthvað er hægt að byggja á þegar þessi starfshópur skilar niðurstöðum, en ég vænti þess að hæstv. ráðh. reyni að ýta á að hann hraði störfum eins og kostur er.

Við höfum það fyrir okkur að árangur skatteftirlitsins er mjög lítill, einfaldlega vegna þess að það er illa búið að mannskap. Og eins og við vitum hefur skatteftirlitið eingöngu beinst að þessum launamannaframtölum. en síður að flóknum framtölum fyrirtækja. Skv. upplýsingum sem ég hef voru árið 1982 einungis skoðuð 0.9% af framtölum félaga og einstaklinga í atvinnurekstri. Ég tel að þarna þurfi að fara fram miklu ítarlegri skoðun og þarna þurfi að fara fram skoðun á miklu fleiri framtölum, enda er gert ráð fyrir því í þáltill. að það verði um 10% framtala sem fái þá skoðun á hverju ári. Eins tel ég mjög brýnt að skattsektir séu stórhækkaðar, eins og hérna kemur fram, og ég vil spyrja hæstv. ráðh. sérstaklega að því hvort hann muni beita sér fyrir því á yfirstandandi Alþingi að lagðar verði fram breytingar á tekjuskattslögunum þannig að skattsektir verði hækkaðar. Algengast í framkvæmd er nú að þó að það sé heimilt vegna skattsvika að leggja á allt að tífaldri fjárhæð sem undan er dregin, þá er það svo í framkvæmd að algengast er að það sé einungis 0.5 og í mesta lagi tvöföldun á þeirri fjárhæð sem undan er dregin sem sektirnar eru. Á árinu 1981 voru það t.d. aðeins um 206 þús. og á árinu 1983 fram í des. um 389 þús. Það er því ýmislegt sem þarf að athuga í þessu máli og ég ítreka fsp. mína til hæstv. fjmrh. og spyr sérstaklega um launamatið sem ég hef greint hér frá og eins sektarákvæðin. Má vænta þess að þær breytingar verði lagðar fram á yfirstandandi þingi sem tryggi að efni þessarar þáltill. komist til framkvæmda?