10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6198 í B-deild Alþingistíðinda. (5661)

525. mál, fjáröflun vegna húnsæðismála á árunum 1985 og 1986

Frsm. 3. minni hl. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Það væri synd að segja að menn væru að tefja þingstörf með málþófi. Við 2. umr. þessa máls, sem er býsna stórt mál, hafa menn verið mjög stuttorðir og ég skal svo sem ekki lengja þessa umr. neitt að ráði þó ég hafi kannske um málið nokkuð fleiri orð en þeir tveir hv. þm. sem hafa talað á undan mér.

Þetta frv. um sérstaka fjáröflun vegna húsnæðismála á árunum 1985 og 1986 var flutt af stjórnarliðum, hv. þm. Páli Péturssyni, Friðrik Sophussyni, Halldóri Blöndal og Þorsteini Pálssyni, í fjh.- og viðskn. hv. Nd. Þar hafa þessi mál hlotið mikla og ítarlega umfjöllun. Sömuleiðis hefur stjórnarandstaðan haft samstöðu í viðræðum við ríkisstj. um að freista þess að lagfæra málefni húsbyggjenda nokkuð frá því sem verið hefur. Þar hefur kannske dálítill árangur náðst, þó ekki sé mikill, hvergi nærri fullnægjandi. Þetta frv. mun hafa verið flutt af þeim fjórmenningum úr fjh.- og viðskn. Nd. þar sem hæstv. fjmrh. treystist ekki til að flytja frv. um hækkun söluskatts enda þótt hann muni síðar hafa á það fallist að styðja málið.

3. minni hl. fjh.- og viðskn. hv. Ed. lýsir sig eindregið andvígan þeirri tekjuöflunarleið sem 1. gr. frv. gerir ráð fyrir og vísar til þeirra tillagna sem stjórnarandstaðan hefur þegar lagt fram um tekjuöflun til húsnæðismála, ítarlegra tillagna. Raunar má vísa til fleiri atriða. Hér var til umræðu fyrir fáum dögum frv. um að lækka bindiskyldu Seðlabankans til að greiða fyrir aðstoð við húsbyggjendur. Ekki var þar um tekjuöflunarleið að ræða að vísu, en það mál var til þess fallið að greiða fyrir aukinni aðstoð bankakerfisins við þá sem berjast nú í bökkum vegna erfiðra lána og mikillar greiðslubyrði vegna þeirrar stefnu sem ríkisstj. hefur fylgt.

Þar sem hv. talsmaður 1. minni hl. í þessu máli var svo hógvær að hann vísaði aðeins til síns nál. langar mig með leyfi forseta, að vitna til hans nál. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hækkun söluskatts nú er röng ákvörðun. Gagnstætt þessu ætti að reyna að standa við marggefin fyrirheit um skattalækkanir til að tryggja vinnufrið og kveða verðbólguna í kútinn. Lækkun okurtolla og skatta á brýnustu nauðsynjavörur hvers einasta manns er nú sem fyrr vænlegasta úrræðið, enda hefði slík skattalækkun tvíefld áhrif, hún gerði launafólki kleift að una við minni kauphækkanir og hún væri bein aðgerð gegn verðbólgu gagnstætt þessu frv.“

Hér er ekki töluð nein tæpitunga. Enn fremur er rakinn vandi húsbyggjenda og segir hér:

„.... í stað þess að „loka“ viðskiptabönkum og sparisjóðum og færa allt fjármálalíf þjóðarinnar til útlanda, en sprengja upp vexti á „almennum“ markaði innanlands því að engum er heimilað að gefa út peninga, starfsfé, ávísanir á mikla auðlegð lands og þjóðar svo að jafnvægi geti myndast á peningamarkaði og mismunun og ranglæti linni. Hér er fylgt tveimur andstæðum stefnum, annars vegar eru vextir frjálsir en hins vegar er hindrað að framboð fjár sé eðlilegt.“ Þetta er auðvitað hárrétt.

„Að því er söluskattshækkun nú varðar til aðstoðar húsbyggjendum er auk þess um að ræða kaldhæðnislega þversögn,“ segir hv. þm. Eyjólfur Konráð .lónsson og segir ríkisstj. sína meiningu alveg umbúðalaust. „Skatturinn leggst auðvitað með margföldum þunga á þá sem eru að byggja. Þeir þurfa ekki einungis að borga hækkunina á neysluvörunum eins og aðrir. heldur til viðbótar söluskattshækkun á öllu því sem til íbúðarinnar þarf, einmitt þegar erfiðleikarnir eru mestir. Þess er þá að gæta að gífurlega há aðflutningsgjöld eru lögð á ýmsar byggingarvörur, svo sem á hreinlætistæki og eldhúsbúnað, en ofan á þau og álagningu leggst söluskatturinn með miklum þunga. Og svo má húsbyggjandinn, þegar greiðslubyrði hans er þyngst, eiga von á stórhækkuðum eignarskatti ef honum kynni að auðnast að halda húsinu og flytja inn í það.“

Síðan segir hér: „Engin orð er unnt að hafa um það ákvæði að „Af tekjuafgangi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins skulu 30 millj. kr. renna til húsnæðismála ...“ af því að ríkissjóður er svo illa haldinn að hann getur ekki greitt upphæðina,“ segir hv. þm.

Hann segir líka: „. . . skattheimta þessi er ekki hugsuð til að mæta einhverjum halla eins sjóðs eða annars innan lands eða utan. Hér er einungis um það að ræða að færa fé frá almenningi til ríkisins sem það síðan lánar út með fullri verðtryggingu og vöxtum. Það er með öðrum orðum verið að færa eignarráðin frá fólkinu til ríkisins.“ Og hv. þm. leggur til að þetta frv. verði fellt.

Það er ýmislegt hér fleira sem mætti geta og væri ástæða til því að hv. þm. var allt of hógvær í sinni framsöguræðu. Mér finnst alveg nauðsynlegt að þessi ummæli hans finnist ekki aðeins í skjalahluta Alþingistíðindanna heldur séu þau líka í umræðuhlutanum. Það er margt hér gott og skynsamlega sagt eins og hans er von og vísa.

Hann ræðir um margítrekuð fyrirheit um skattalækkanir og segir að hér sé fylgt fordæmi vinstristjórnar frá 1978 sem hafi kristallast í svokölluðum Ólafslögum þar sem ofstjórnaræðið hafi verið lögfest. Þessi stefna hafi gengið sér til húðar árið 1983 þegar verðbólguhraði var kominn í 130% miðað við eitt ár, erlendar skuldir höfðu hrannast upp í mesta góðæri Íslandssögunnar og gjaldmiðillinn var hruninn. Úrræðin hefðu ætíð verið þau að dengja yfir nýjum sköttum, einkum neyslusköttum, í kjölfar gengisfellinga og kjaraskerðingar eða sem fyrirboða slíkra aðgerða. Samhliða hafi verið hindrað að íslenskir peningar mættu vera í umferð til annarra en útvaldra og sjávarútveginum komið á vonarvöl þegar hvergi var starfsfé að fá nema á okurkjörum hjá Aröbum og Ameríkumönnum. Þennan vítahring ætlaði ríkisstj. að rjúfa og tókst framan af margt vel og enn er unnið að umbótamálum, en meginstefnubreytingin í skatta- og peningamálum hefur látið standa á sér.

Þetta er auðvitað hverju orði sannara. Það bólar ekkert á þessari stefnubreytingu.

Hann rekur það enn fremur í sínu ágæta nál. um marga hluti að söluskattur hafi verið hækkaður á síðasta þingi um hálfan af hundraði án þess að sú aðgerð einangruð skipti öðru máli en því að auglýsa fyrir alþjóð að ofsköttunarstefnunni skyldi nú haldið áfram þrátt fyrir gagnstæð loforð.

Allt þetta nál. er auðvitað slíkur áfellisdómur um efnahagsmálastjórn ríkisstj. sem nú situr að ég hygg að lengi megi leita í þskj. til að finna viðlíka dóm sem einn af stuðningsmönnum ríkisstjórnar kveður upp um efnahagsmálastefnu hennar. Er þetta vissulega athyglisvert.

Ég skal ekki, herra forseti, hafa þessa umr. af minni hálfu öllu lengri. Afstaða 3. minni hl. er skýr. Hann er andvígur hækkun söluskattsins, þeirri tekjuöflunarleið, og mun greiða atkv. gegn tillögum um að hækka söluskattinn með þessum hætti.