10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6203 í B-deild Alþingistíðinda. (5664)

525. mál, fjáröflun vegna húnsæðismála á árunum 1985 og 1986

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það er viss tilhneiging hjá þeim ágætu framsóknarmönnum sem studdu síðustu ríkisstj. að telja fram ávirðingar hennar og reyna að koma sökinni af ríkisstj. nú yfir á þá ríkisstj. sem þeir studdu áður. Ég hef ekki orðið var við þetta hjá hæstv. dómsmrh. fyrr, en hann fetar greinilega í fótspor hæstv. forsrh. sem aldrei má svo tala um fyrrv. ríkisstj. að hann telji hana ekki einhverja hina verstu í sögunni og sat hann þó þar sjálfur og var stærsti aðilinn að þeirri ríkisstj. og hans flokkur.

Ég hef ekki neitað því að ýmislegt hafi verið gert í sambandi við framlög til þessara mála. En ég var að benda á að vandi húsbyggjenda var orðinn slíkur að til sérstakra ráða þurfti og átti að grípa og það var ekki sjáanlegt að það ætti að gera það fyrr en stjórnarandstaðan kom hér að og gerði kröfu um það sameiginlega að til einhverra ráða, til einhvers áfanga yrði gripið.

Ég þekki þessar tölur varðandi misgengið sem hefði verið hvað mest frá miðju ári 1982 og til maíloka 1983. Það er handhægt að grípa einmitt til þessa vegna þess að þá er miðað við maílokin eða réttara sagt síðasta daginn áður en umsamdar vísitölubætur á laun áttu að greiðast. Þannig getur fengist út mjög hagstæð prósenta fyrir þá sem vilja prósentutölur í stað staðreynda. Það veit ég að hæstv. félmrh. hefur tíundað rækilega.

Ég tek undir það með hæstv. dómsmrh. að vissulega hefði þurft meiri aðlögun að verðtryggingunni en var, miklu meiri aðlögun að henni og aðgerðir í samræmi við það. Hins vegar bendi ég á að eitt það versta sem hrjáir menn í þessum efnum nú er hrein ríkisstjórnarákvörðun frá síðasta sumri, sem ég hef reyndar furðað mig á að þeir framsóknarmenn skyldu nokkurn tíma samþykkja, en það voru þeir frjálsu okurvextir sem hv. þm. Eyjólfur Konráð bendir svo réttilega á að allt séu að sliga í þessu þjóðfélagi án þess að aðrar viðhlítandi ráðstafanir hafi verið gerðar. Það er kannske þyngsti syndabagginn sem hvílir á hæstv. ríkisstj. gagnvart húsbyggjendum fyrir utan það að fjölga sífellt, með því að taka vísitölu kaupgjalds úr sambandi, vinnustundum fólks til að standa undir sambærilegri lánabyrði og áður.