10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6211 í B-deild Alþingistíðinda. (5674)

86. mál, áfengislög

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Ég get í sjálfu sér tekið undir það með hv. þm. Ragnari Arnalds að þetta er að mínum dómi ekki merkilegasta mál þingsins og raunar búið að eyða í það allt of löngum tíma. Ég ætla þess vegna ekki að fara mörgum orðum yfir rök með og móti. Það er búið að margtyggja þau rök og menn geta lesið sér til hugarhægðar t. d. framsögu hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar eða ágæta ræðu hv. 2. þm. Austurl. hér í deildinni.

Ég verð hins vegar að segja að mér finnst þessi málatilbúningur allur saman hálfgerður leikaraskapur. Mér er sama hvað hv. þm. Ragnar Arnalds segir hér. Verði till. hans um þjóðaratkvæði samþykkt hér og málið sent til Nd. er búið að þvæla því út úr þinginu rétt eina ferðina enn. Hann veit það nákvæmlega eins vel og ég að Nd. er búin að fella till. um þjóðaratkvæði. (RA: Í öðrum búningi.) Það má hafa hvaða búning á því sem vill, trúðabúning líka. Þeir eru búnir að fella till. um þjóðaratkvæði og þeir fara ekki að samþykkja aðra núna á síðustu dögum þingsins. Það vitum við báðir tveir. Að vísa þessu til ríkisstj., hvort sem er í þessum búningi eða í búningi frávísunartillögunnar, er jafnfráleitt því að ríkisstj. gerir nákvæmlega ekki neitt til þess að breyta því, enda væri það óeðlilegt þegar e. t. v. níu manns hér stæðu að því að svæfa málið, þvæla því út af borðinu. Þá teldi ríkisstj. sig náttúrlega ekkert bundna af því þar sem þó nokkuð stór meiri hluti var fyrir málinu í Nd.

Menn hljóta líka að hafa fulla vissu fyrir úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég ætla t. d. að hv. 5. landsk. þm. trúi skoðanakönnunum vel þessa dagana og ég ætla að hann álíti ekki að svo mikill meiri hluti í skoðanakönnun eins og komið hefur fram að er þessu fylgjandi mundi koma mikið öðruvísi út í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mér finnst það hálfgerð eymd að taka ekki einu sinni á þessu máli og láta það koma til atkvæða í þinginu öllu. Mér finnst einhvern veginn að síðan ég fór að fylgjast með — ja, það eru a. m. k. áratugir síðan að menn byrjuðu að ræða þessi mál — hafi þingið alltaf haft lag á því að skjóta sér undan því. Nú er verið að gera eina tilraun enn til þess að skjóta sér undan því að þingið taki afstöðu, að allir þm. segi annaðhvort já eða nei — eða fari burtu. Ef það tekst ekki núna getur þetta farið nákvæmlega sömu leið næsta ár. Ef þm. álíta í alvöru að mjög slæmt sé fyrir þjóðina að þessi vökvi, eins og hv. þm. Ragnar Arnalds orðaði það, komi nú til manna segja menn einfaldlega nei og fella þetta, en þvæla því ekki svona út af borðinu einu sinni enn. Það er eymd. Það má ekki láta það spyrjast um Alþingi og alþm. að þeir geti ekki tekið ákvörðun í ekki meira máli en þetta.