10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6213 í B-deild Alþingistíðinda. (5676)

86. mál, áfengislög

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég flutti hér alllangt mál miðað við venju við 1. umr. og ég þarf ekki miklu þar við að bæta. Ég lít á þetta mál sem spurningu um hvort menn vilji snúast til varnar gegn þeirri vá vímuefna af margri gerð sem herjar á okkur eða hvort menn vilja láta skeika að sköpuðu og hætta á að auka enn á vandann, bæta þar við, bera í bakkafullan lækinn sem þegar flæðir yfir bakka sína í raun.

Ég undrast nokkuð þann áhuga og þá athygli sem fjölmiðlar veita þessu máli umfram þau mörgu stóru málefni sem hér eru til umfjöllunar eða eiga að vera. Ekki það að málið sé ekki stórt og alvöruþrungið, en umfjöllunin er því miður ekki á þann veg að reynt sé að draga fram staðreyndir byggðar á þekkingu og reynslu, reynt að brjóta málið til mergjar í samhengi við heildarvandann og hvað mundi ávinnast við þessa breytingu, hvaða árangur yrði af þessu máli, hver yrðu líkleg áhrif á heildarneyslu, hverjir hópar kynnu að verða hart úti, hversu yrði um áhrif á vinnustaði og vinnuafköst, hversu verðuga gjöf væri verið að færa æskulýð okkar á ári æskunnar. Allt þetta og meira til hefði verið ástæða til að greina sem allra best og kalla þá til umræðu sem af hlutlægni þekkingar og reynslu gætu fjallað um og skýrt þetta mál sem allra best.

Persónuleg skoðun hvers og eins skiptir vissulega máli, en mestu skiptir þó að öfgalaust reyni menn að gera sér grein fyrir og draga upp heildarmynd framtíðarinnar í ljósi þess sem líklegast má telja af reynslu annarra og þar sem sérfræðileg þekking á orsökum og afleiðingum væri hleypidómalaust skoðuð.

Ég loka ekki augunum fyrir óviðunandi ástandi þessara mála. Ég hef þvert á móti margsinnis bent á hina ýmsu þætti þess, ölgerðarefnin, lögmæti hins tollfrjálsa innflutnings eða ekki og nú síðast bjórlíkhúsin. Ég nota hins vegar ekki þessa hluti, sem við þarf að snúast, sem röksemdir fyrir því að þess vegna skuli allar flóðgáttir opnaðar. Ég veit að menn aka á ólöglegum hraða, brjóta umferðarreglur, aka ölvaðir, en mér kemur ekki til hugar í framhaldi af því að leggja til afnám allra laga um umferðarmál. Ég held að okkur sé hollast að alhæfa ekkert í þessum málum, heldur meta þetta mál kalt og rólega og því aðeins að við séum örugg um að málið horfi til bóta, að veruleg blessun fylgi því fyrir unga sem aldna, eigum við að ljá því lið.

Ég gæti hér vitnað áfram, svo sem ég gerði við 1. umr., til þeirra sem berjast við afleiðingar vímuefnaneyslu, tíundað rök Jóhannesar Bergsveinssonar yfirlæknis og dr. Tómasar Helgasonar, yfirveguð mótrök þeirra studd staðreyndum sem ekki verður í móti mælt. Ég ætla að láta nægja nú að vitna í ábendingar frá Samtökum áhugamanna um áfengismál, SÁA, sem ekki taka beina afstöðu í þessu máli þar sem ólík sjónarmið um sumt eru uppi. En þó eru ábendingar þeirra til þm. allljósar og athygli verðar og ég vil kynna þær hér, með leyfi virðulegs forseta:

„Að fenginni reynslu SÁÁ vill framkvæmdastjórn samtakanna þó vekja athygli á eftirfarandi:

1. Þó að líklegt sé að dragi úr neyslu sterkra drykkja með tilkomu bjórs bendir allt til þess að heildarneysla hreins vínanda muni aukast hér á landi eins og reynslan hefur sýnt annars staðar.

2. Aukin neysla vínanda hefur ætíð leitt til aukinnar tíðni drykkjusýki.

3. Líklegt er að drykkjuvenjur drykkjusjúkra muni að einhverju leyti breytast þannig að vart verði við aukna sídrykkju. Sídrykkja leiðir til verra líkamlegs ástands þessa hóps og er sérstaklega vert að benda á lifrarsjúkdóma.

4. Verði bruggun og sala bjórs leyfð hér á landi er það skoðun framkvæmdastjórnar SÁÁ að jafnframt verði að gera stórátak í fræðslu og fyrirbyggjandi aðgerðum gagnvart almenningi, sérstaklega unglingum. Er því enn frekari ástæða til þess að Alþingi geri ráð fyrir stórauknum fjárveitingum til fræðslu og fyrirbyggjandi aðgerða meðal þjóðarinnar þannig að draga megi úr þeim vandamálum sem fylgja aukinni vínneyslu þjóðarinnar.“

Hér tala þeir aðilar sem enginn getur sakað um reynsluleysi og skort á þekkingu á þessum málum, bitra reynslu, dýrkeypta þekkingu. En ég get ekki heldur stillt mig um að benda á ályktanir og aðvaranir sem hafa borist til þingsins og hv. 11. þm. Reykv. kom inn á áðan. Hvað segja æskulýðsleiðtogar? Ábending mætti það vera. Hvað um hin fjölmörgu kvenfélög og nú síðast Kvenfélagasamband Íslands sem hefur sent okkur áskoranir og aðvaranir? Halda menn að þær séu út í bláinn? Halda menn að blint ofstæki sé þar alls staðar á ferð? Álíta þm. í alvöru að þessi ótti um afleiðingarnar sé einhver óskilgreind tegund móðursýki eða hvað?

Og enn bið ég um að staldrað sé við fyrri einróma ályktun Alþingis um að koma á heildarstefnumörkun í öllum vímuefnamálum. Að því starfi er nú unnið af fólki með margs konar sjónarmið og viðhorf og það er móðgun við þetta fólk og óvirðing við ályktun Alþingis um leið um þessi mál að ætla að keyra einn þátt hér í gegn, veigamikla umdeilda breytingu, meðan leitað er fangs á því að skipa málum í heild á skaplegri veg. Því er lögð til af minni hl. n. sú málsmeðferð sem hv. þm. Haraldur Ólafsson gerði grein fyrir áðan.

Því miður virðist svo sem einhverjum liggi á, að einhverjir hagsmunir séu í veði, að arðsvon ótalinna aðila sé í einhverju að baki öllu þessu offorsi og fjölmiðlafári, að þrýstihópurinn eða hóparnir séu á ferðinni og verði vel ágengt.

Fjarri sé mér að dylgja um óheiðarleik, enn síður um mútubrigsl, en hvarvetna þar sem fjármagn og arðsvon er í för eru áhrifin augljós, meðvituð sem ómeðvituð. Og áfengisauðmagnið er ekkert frábrugðið öðru auðmagni sem hefur sín völd og virku áhrif í hverju þjóðfélagi.

Vissulega ætla einhverjir að græða gnótt á þessari breytingu, gera sér hana að féþúfu, sem allra arðvænlegasta. En í ljósi þess gróða er skylt að líta á hugsanlegt tjón, aukinn vímuefnavanda, almennari og meiri neyslu þess sem við öll viðurkennum að er of mikil í dag þar sem sjúkrarúmin og meðferðarstofnanirnar segja sína hryggilegu sögu, svo að ekki sé að enn alvarlegri afleiðingum vikið.

Í mínum huga er það eitt efst alls að gera rétt, gera það sem ég held að megi til heilla verða og ef unnt er hefja á öllum sviðum gagnsókn í nafni heilbrigðis og hollra lífshátta. Ég frábið mér allar dylgjur um að ég vilji ekki taka afstöðu, að allir taki afstöðu og axli þá ábyrgð. Ég tek það fram að tafir á þessu máli eða svæfing þess hefur aldrei átt hljómgrunn hjá mér. Á þessum vettvangi, þar sem örlög eru ráðin á ýmsan veg um hin margbreytilegustu efni, er hins vegar skylt að fara að með fullri gát. Engar upphrópanir og svigurmæli, hvaðan sem þau koma, eiga að hrekja okkur frá að taka þá ákvörðun sem samviska, þekking og vit okkar segir okkur að gera.

Ég á hér efni í ræður, rök og vitnaleiðslur sem enst gætu fram eftir sumri. Mín skoðun er hins vegar sú að hér á löggjafarsamkomu okkar eigi þessi rök að vera hverjum og einum tiltæk og að lokinni þeirri skoðun taki hver og einn þm. sína afstöðu. Ég minni enn og aftur á þá virtu stofnun, Alþjóðaheilbrigðismálastofnun Sameinuðu þjóðanna, og kenningu hennar byggða á traustum grunni vísdóms og reynslu víðs vegar að úr veröld, að betra aðgengi, meira framboð vímuefna skapi verri vá, alvarlegri afleiðingar. Þetta vita þm., en það er vert að ítreka þetta. Ekki síst þess vegna tek ég þá afstöðu sem ég hef haldið fram.

Hver sem niðurstaðan hér verður vona ég að menn gleymi ekki þessum ótvíræðu sannindum sem erfitt er að hrekja. Ljóst er að nú á lokastigi þessa máls er viss óhugur í ýmsum þeim sem jafnvel ætla að gjalda þessu máli jáyrði, viss ótti sem veldur þeim eðlilegu angri. Um afstöðu mína velkist enginn í vafa. Með tilliti til hennar vil ég vísa þessu máli frá á þann hátt sem eðlilegastur er miðað við það hvernig staða þessara mála er í dag þar sem stjórnskipuð nefnd vinnur að öllum þessum málum í heild sinni skv. einróma ályktun Alþingis. En ég vil einnig líta til allra leiða annarra, svo sem mun koma í ljós við afgreiðslu þessa máls ef svo fer fram sem horfir. Hins vegar skal ekki standa á mér í umræðum um málið allt því nægur er efniviðurinn frá þeim mikla fjölda sem hefur gjörhugsað og kannað þessi mál. En það skal þá bíða 3. umr. ef af henni verður.