10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6219 í B-deild Alþingistíðinda. (5679)

86. mál, áfengislög

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir afstöðu minni til frv. og skal ekki endurtaka það. En mig langar við þessa umr. að láta í ljós ánægju mína yfir því hvað vaxið hefur áhugi almennings fyrir að berjast gegn frv. og slæmum afleiðingum áfengisneyslu í landinu. Ég vonast til þess að það geti haft varanleg áhrif og að því leyti hafi þessi frumvarpsflutningur haft áhrif til góðs hver sem afgreiðslan verður á Alþingi, en ég mun vissulega ekki greiða því atkv. heldur leggjast á móti.

Það kom hér fram m. a. í máli hv. 5. landsk. þm. að það væri stefnuleysi í áfengismálum. Sú stefna sem ríkisvaldið hlýtur að hafa er gildandi lög um áfengismálin. Í þeim lögum er m. a. ákvæði um að dómsmrn. skuli gefa út leyfi til vínveitinga til þeirra aðila sem uppfylla ákveðin skilyrði. Það mun hafa verið venja áður en ég kom í dómsmrn. að þau væru afgreidd þegar slík skilyrði voru fyrir hendi.

Ég gerði grein fyrir því fyrir stuttu á Alþingi í sambandi við fsp. til mín að ég hefði þar reynt nokkuð að spyrna á móti. En mitt mat er að erfitt sé að framkvæma stefnu í þessum málum sem er mjög andsnúin almenningsáliti. Framkvæmd í slíkum málum þarf helst að styðjast við almenningsálitið. Þess vegna fagna ég þeim áhuga sem ég gat um áðan.

Nú fyrir skömmu var haldin ráðstefna á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga um áfengismál og þar kom fram að það þyrfti að spyrna þarna við fótum og stemma stigu við fjölgun vínveitingaleyfa. Í framhaldi af því gaf dómsmrn. í dag út fréttatilkynningu um að það mundi vilja leita samstarfs við sveitarstjórnir og aðra aðila sem um þessi mál fjalla. Eins og við vitum eru starfandi í hverju sveitarfélagi áfengisvarnanefndir. Formaður þeirra er skipaður af heilbrigðisráðuneyti, en aðrir nefndarmenn eru valdir af sveitarstjórn úr hópi þeirra manna sem þær treysta best til að fjalla um þessi mál. Í þessari fréttatilkynningu var frá því skýrt að ráðuneytið mundi taka fullt tillit til umsagna þessara sérstöku trúnaðarmanna heilbrigðisráðuneytis og sveitarstjórna í sambandi við afgreiðslu nýrra leyfa. Og með tilliti til þess áhuga, sem ég var að geta um að virðist nú vera, að reyna að berjast gegn aukinni áfengisneyslu, þá vænti ég að þetta samstarf megi verða til góðs.

Ég skal svo ekki tefja tímann lengur. Eins og ég sagði áðan er ég andvígur þessu frv. og mun sýna það við atkvgr. hér í deildinni á eftir eftir því sem tækifæri verður til.