10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6222 í B-deild Alþingistíðinda. (5686)

Um þingsköp

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Spurningin um hvort halda eigi áfram umr. þegar kl. er farin að halla í tvö snýst ekki um hvaða mál er á dagskrá. Það breytir heldur engu þótt úti sé björt nótt. Meginatriði málsins er að venja hefur verið að taka visst tillit til þess ef útvarpsumræða á að fara fram daginn eftir. Þá er ekki venja að halda fundum áfram fram á nótt. Þeir sem eiga að taka þátt í þeirri umr.. sem eru allmargir eins og við vitum, þurfa vissulega einhvern undirbúningstíma. Þeir fá hann ekki í fyrramálið. Við höfum gert sérstaka undantekningu varðandi þingfund á morgun milli kl. tvö og fjögur. Það er af þessari ástæðu sem ég mótmæli því mjög harðlega að nú verði farið að halda fundum áfram og taka til umræðu nýtt mál. Eins og ég hef þegar sagt skiptir málið sem slíkt, efni þess og afstaða manna til þess engu máli að þessu leyti, heldur einungis hitt að talað var um að það yrði kvöldfundur og ég ræddi það sérstaklega við forseta að hann stæði væntanlega ekki lengur en til hálftólf eða til tólf. Með sérstöku tilliti til útvarpsumræðnanna á morgun tel ég ekki koma til greina að halda fundarstörfum áfram.