10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6223 í B-deild Alþingistíðinda. (5690)

Um þingsköp

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það hefur verið vitnað til fundar sem var í dag hjá forsetum með formönnum þingflokka og hefur komið hér fram það sem gerðist á þessum fundi. En til fundarins var boðað vegna þess að það eru ákveðnar útvarpsumræður annað kvöld. Spurningin var hvort það ætti að bregða út af þeim vana, sem hefur verið þegar útvarpsumræður hafa verið að kveldi, að hafa þá ekki þingfundi að degi til samdægurs.

Ég lýsti því yfir að ég teldi ekki rétt að víkja frá venju í þessu efni nema það þýddi að fundur á morgun hefði úrslitaáhrif um það hvort hægt væri að ljúka þinginu fyrir helgi. Það er nokkuð óljóst hvort það muni takast, en þó að svo væri þótti mönnum hyggilegt að hafa þingfund á morgun. En það er gert ráð fyrir því að það verði stuttur fundur í Sþ. og síðan deildafundir og þeir verði ekki nema til kl. 4. Það er vegna tillits til þeirra sem eru í útvarpsumræðunum sem þessi takmörk voru sett og ég vil lýsa því hér yfir að ég held að það hafi engum dottið í hug í dag að það yrði hér næturfundur núna.

Það mál sem hér er rætt um er til 2. umr. í síðari deild. Það er engin hætta á því að það hljóti ekki afgreiðslu á þessu þingi þó að þinginu yrði lokið fyrir helgi. Það getur verið efst á dagskrá og strax til umræðu á morgun. Og með tilliti til þess hvernig mál liggja fyrir legg ég til að þessum fundi verði ekki fram haldið.