11.06.1985
Sameinað þing: 93. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6225 í B-deild Alþingistíðinda. (5695)

519. mál, fiskiðnskóli á Siglufirði

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Fyrir allmörgum árum, eða nánar tiltekið 30. mars 1973, samþykkti Alþingi þáltill. sem flutt var af þm. beggja kjördæma, Norðurl. v. og Norðurl. e. undir forustu þáv. alþm. Gunnars Gíslasonar. Till., sem samþykki var hér í þinginu 30. mars 1973, var á þessa leið:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hefja undirbúning að því að settur verði á stofn fiskiðnskóli í Siglufirði.“

Það hefur vissulega dregist nokkuð að af þessum ráðagerðum yrði og ekki var mikil hreyfing á þessum málum fyrst eftir að samþykktin var gerð, enda má kannske skýra það að einhverju leyti með því að þá hófst undirbúningur að stofnun fiskiðnskóla í Hafnarfirði og það tók vissulega okkur tíma að koma honum á fót, ýta á eftir því máli. Margir voru orðnir langeygir eftir því að það mál kæmist í höfn og að byggt yrði yfir þann skóla.

Á seinni árum hefur verið ofurlítil hreyfing á þessu máli og nú við afgreiðslu fjárlaga var veitt fjárveiting nokkur til frekari undirbúnings að ákvarðanatöku í þessu máli.

Það þarf ekki að orðlengja það að Siglfirðingar eru orðnir nokkuð langeygir eftir því að sjá þennan skóla komast af stað. Þeir geta vissulega hugsað sér að hann verði með nokkuð öðru sniði en sá skóli sem rekinn er í Hafnarfirði og telja að aðstæður í Siglufirði séu á ýmsan hátt mjög hentugar og heppilegar til að reka skóla af þessu tagi. Vitað er að á s. l. hausti gerði menntmrn. út leiðangur á Siglufjörð til athugunar á þessu máli, en ekki hefur frést um árangur af þeirri ferð.

Við sem berum upp þessa fsp., hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson og ég. viljum sem sagt leita frétta hjá hæstv. menntmrh. hvað líði þessum áformum.