11.06.1985
Sameinað þing: 93. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6226 í B-deild Alþingistíðinda. (5696)

519. mál, fiskiðnskóli á Siglufirði

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Fsp. á þskj. 1022 hljóðar svo:

„Hvað líður áformum um stofnun fiskiðnskóla í Siglufirði, sbr. ályktun Alþingis 30. mars 1973 og framlag í fjárlögum ársins 1985 til athugunar málsins.“

Þessi athugun málsins stendur yfir. Það er nokkuð viðurhlutamikið að stofna til nýs skóla á svo sérhæfðu sviði og það er skynsamlegt að standa vel að athugun þess máls áður en ákvörðun er tekin um að hefjast handa.

Frumathugun um aðstæður á Siglufirði var gerð á s. l. hausti. Þessa athugun gerði deildarstjóri í menntmrn. Stefán Ólafur Jónsson. Meginniðurstöður hans voru eftirfarandi:

1. Fyrir Siglufjörð væri það vafalaust ávinningur að þar yrði stofnaður fiskvinnsluskóli. Grundvöllur atvinnulífsins á staðnum eru fiskveiðar og vinnsla sjávarafurða. Fiskvinnsluskóli ætti að stuðla að nýjungum og endurbótum á vinnslu sjávarafurða og örva fólk til starfa í fiskiðnaði á staðnum.

2. Möguleikar eru á að breyta húsinu Hótel Hvanneyri í skólahúsnæði þar sem koma mætti fyrir bóklegum kennslustofum og heimavist fyrir lítinn skóla sem væri fyrir 30–10 nemendur. Það telst vera lítill skóli. Ég veit ekki hvort þeir sem hugsað hafa um þennan skóla teldu að það væri kostur á svo mörgum nemendum. Þessi hugmynd um nýtingu á umræddu húsnæði er þó háð því að eigendur hússins yrðu samþykkir því. Húsnæði fyrir alla verknámskennslu yrði að útvega annars staðar, leigja eða byggja. Starfandi fyrirtæki í fiskiðnaði mundi ekki geta leyst þessa þörf, en þau mundu nýtast sem þjálfunarstaðir.

3. Rannsóknarstofur fyrirtækja á Siglufirði gætu hugsanlega veitt skóla þar afnot af þeim að einhverju leyti.

4. Skólann yrði að reka að mestu leyti með fastráðnum kennurum þar sem hörgull yrði á sérmenntuðum stundakennurum.

5. Heppilegt yrði, ef skóli verður stofnaður á Siglufirði, að skipuleggja hann með öðrum hætti en fiskvinnsluskólann í Hafnarfirði. Till. um þetta liggur fyrir þó.að hún sé vitanlega ekki fullunnin.

6. Frekari athugun á grundvelli fiskvinnsluskóla þarf að taka til eftirtalinna atriða:

a) Þörf á nýjum skóla í fiskiðnaði, stærð hans og námstímalengd.

b) Kostir og ókostir við staðsetningu skóla á Siglufirði, m. a. að því er tekur til samgangna.

c) Kostnaður við kaup og breytingar á eldra húsi og/ eða nýbyggingu.

d) Rekstrarkostnaður og skipulag.

e) Hlutdeild skólans í endurmenntun fiskvinnslufólks.

f) Samstarf skólans við atvinnulífið á Siglufirði.

Allt þetta eru atriði sem ég geri ráð fyrir að áhugamenn um þetta mál hafi haft í huga og velt fyrir sér en þeir hafa þráfaldlega spurt um þetta mál, nú hv. þm. Ragnar Arnalds í formlegri fsp. ásamt hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni. Ég kann ekki að segja hve oft hv. þm. Eyjólfur Konráð hefur nefnt þetta mál, bæði í þingflokki okkar sjálfstæðismanna og annars staðar, en hann hefur ýtt mjög á, og þeir báðir, að niðurstaða fáist úr þessari athugun.

Til þess að vinna þetta mál frekar hefur rn. í hyggju að fá frekara samstarf við fulltrúa frá bæjarstjórn Siglufjarðar og væntanlega Fiskifélagi Íslands, en einnig hafa niðurstöður úr þessari athugun verið sendar til nefndar sem nú fjallar um menntun í sjávarútvegsfræðum, í fiskvinnslu og þeim störfum sem sjávarútvegi tengjast, og þá fyrst og fremst um fyrirkomulag Fiskvinnsluskólans, starfsskrá hans og námsskrá í framtíðinni, en æskilegt er að fá álit þeirrar nefndar einnig á þessu atriði, hvernig það tengist við heildaruppbyggingu fiskvinnslumenntunarinnar í landinu.