11.06.1985
Sameinað þing: 93. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6228 í B-deild Alþingistíðinda. (5698)

519. mál, fiskiðnskóli á Siglufirði

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Það ber að fagna því að hér liggur fyrir fsp. um þróun kennslu og mennta í sambandi við sjávarútveg og það er eðlilegt að menn velti vöngum yfir því hvernig og á hvaða brautum þar skuli unnið og einnig því að byggðar skuli nýjar menntastofnanir á þessum vettvangi, jafnvel þó að svo standi enn að sú stofnun sem byrjaði að kenna þau fræði fyrir mörgum árum — ætli það sé ekki hálfur annar áratugur eða svo — sé enn þá húsalaus og vanbúin að öllu leyti til að sinna því starfi sem henni var ætlað. En það dregur ekki heldur neitt úr því að það sé nauðsyn að auka þessa kennslu og koma henni af stað víðar en þegar er.

Mín skoðun er þó sú að bygging fleiri sérskóla fyrir menntun í sjávarútvegsfræðum eða sjómannafræðslu, sjávarútvegsfræðslu og fiskvinnslufræðslu, sé ekki sú leið sem við eigum að fara. Ég er á því að það sé æskilegra að hafist sé handa við að endurbyggja fjölbrautaskólana, byggja þær brautir upp og styrkja sem þegar hafa farið inn á þann vettvang að sinna sjávarútvegsfræðum, bæði stýrimannafræðum, vélstjórafræðum og fiskvinnslufræðum, þó að það hafi verið mjög lítið. Mitt erindi hingað upp er fyrst og fremst að leggja áherslu á að sú nefnd, sem hæstv. ráðh. nefndi, sem nú er að vinna að endurskipulagningu í þessum fræðum, taki það til athugunar hvort ekki er hægt að styrkja menntabrautir í fjölbrautaskólunum og jafnvel allt niður í 9. bekk grunnskóla, þar verði hafist handa um menntun í fiskvinnslu og sjávarútvegsfræðum.

En einn er sá þáttur sem hefur verið til umræðu á síðustu mánuðum og við samþykktum um sérstök lög rétt fyrir jólin. Það var um réttindi skipstjórnar- og vélstjórnarmanna. Þar var ákveðið að halda skyldi námskeið bæði fyrir stýrimenn og vélstjóra, þá sem hefðu verið á undanþágum og eru enn á undanþágum. Mér hefur verið sagt að það væri alls óvíst að staðið yrði við þennan lagabókstaf, sem var samþykktur hér á haustmánuðum, vegna þess að enn lægi ekki fyrir hvort til væri fjármagn til þessara námskeiða. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. menntmrh. hvort þeir hlutir séu nú komnir fyrir vindinn.