06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

95. mál, skattsvik

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég verð að játa það að mér blöskrar þegar að hæstv. fjmrh. ber hv. þm. á brýn misnotkun á opinberum gögnum þegar um það er að ræða að hv. þm. hefur lagt mikla vinnu í að afla sér upplýsinga frá embættismönnum hæstv. fjmrh. og frá sjálfstæðum aðilum í skatteftirlits- og dómskerfinu um þessa hluti. Hvernig hvarflar það að hæstv. ráðh. að bera hv. þm. á brýn misnotkun á tölum? Við getum haft skoðun á skattamálum. Við getum haft skoðun á því hversu háar upphæðir eru dregnar undan skatti eða hvort þær eru engar. En skoðun er sitthvað annað en staðreyndir. Og tölur eru tölur og um þær eiga menn ekki að hafa neinar skoðanir aðrar en þær að hugsanlegt er að hafa þá skoðun að þessar tölur séu allt of lágar. það megi vefengja þær, það megi færa rök að því.

Í þeim gögnum og í þeirri vinnu sem hv. 2. landsk. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur lagt hér fram, t.d. í málum sínum s.l. vetur eða í fyrra, um rannsókn á umfangi skattsvika, þá studdist hún eingöngu við opinber gögn, opinberar tölur. Hún leitaði til aðila eins og Þjóðhagsstofnunar, skattrannsóknastjóra og ríkisskattstjóra og hefur ekki í einu einasta tilviki farið með neinar tilgátur. Ég minni hins vegar á að í sjónvarpsþætti, þar sem þessi mál voru rædd að viðstöddum löggiltum endurskoðanda, skattrannsóknastjóra, og í viðtali við forstöðumann Þjóðhagsstofnunar, þá lögðu þessir aðilar ýmislegt mat á slíkar tölur. En þó minni ég á að forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar viðurkenndi og lagði ákveðið mjög varfærið mat á skattundandrátt í íslensku þjóðfélagi.

Ég held að við ættum að reyna að ræða þessi mál alveg hleypidómalaust. En það er auðvitað stórmál fyrir hæstv. fjmrh. þegar fram fara umræður og lagðar eru fram tölur af opinberum aðilum sem gefa til kynna að um sé að ræða óeðlilega hluti eins og t.d. þegar hinar áætluðu viðmiðunartölur sjálfstæðra atvinnurekenda, sem hv. Alþingi fjallar ekki um á ári hverju heldur eru ákveðnar af ríkisskattstjóra, eru miklum mun lægri en framlögð opinber gögn um meðaltekjur launþega í viðkomandi atvinnurekstri.

Hér er ekki verið að fara með neinar getsakir. Hér er verið að vitna í staðreyndir og þær staðreyndir vekja upp ákveðnar spurningar. Það er svo annað mál að það er komið undir pólitísku mati og pólitískum vilja hvort hæstv. fjmrh. sér ástæðu til að aðhafast eitthvað, t.d. þegar upplýsingar hafa verið lagðar fram hér á hinu háa Alþingi á þessum degi um það hversu mikils tekjuauka hæstv. fjmrh. mætti vænta ef t.d. verulegur hluti af óteljandi undanþágum vegna söluskatts yrði afnuminn. Sjálfur svaraði hæstv. ráðh. á þá leið að hér væri um að ræða marga milljarða kr.

Herra forseti. Þetta eru örfá orð að gefnu tilefni. En ég vil ekki láta því ómótmælt að hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sé borin á brýn misnotkun á tölum í þessu efni.