11.06.1985
Sameinað þing: 93. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6230 í B-deild Alþingistíðinda. (5700)

519. mál, fiskiðnskóli á Siglufirði

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það var einungis til að svara fsp. sem fram kom í máli hv. 4. þm. Vesturl., fsp. sem raunar var ekki hér á dagskrá, en tengist óneitanlega þessu máli. og var um námskeið fyrir skipstjórnarmenn sem starfað hafa á undanþágum og að óvissa væri um að þau yrðu haldin vegna skorts á fjárveitingu. Ég vil upplýsa að fjárveiting hefur fengist fyrir fyrsta námskeiðinu sem nú á að halda mjög fljótlega. Það var tekið sérstaklega fyrir og afgreitt. Ég vonast til þess og hef raunar góða von um að svo fari með fleiri. Það verður haldið áfram að vinna að þessu. (Gripið fram í.) Vélstjóranámskeiðin voru þegar komin í gang skömmu eftir áramótin.