11.06.1985
Efri deild: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6271 í B-deild Alþingistíðinda. (5703)

5. mál, útvarpslög

Frsm. 1. minni hl. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti 1. minni hl. menntmn., en ég stend ein að álitinu. Álitið er svohljóðandi:

„Allt frá því að verkfall BSRB stóð sem hæst á s. l. hausti og útvarp féll niður að mestu hefur gætt mikillar óþreyju meðal þeirra sem þá vörðu í orðum og gerðum ólöglegar útvarpsstöðvar. Á Alþingi hefur verið reynt með ýmsum ráðum að þrýsta í gegn breytingum á útvarpslögum sem fela í sér óheft „frelsi“ fyrir hvern sem er til að útvarpa. Það hefur mikið verið rætt um réttindi en minna um skyldur.

Kvennalistinn lét sínar skoðanir á útvarpsmálum í ljós í vetur með flutningi sérstaks frv. til útvarpslaga (198. mál Ed.) sem byggist á þeirri meginhugmynd að besta leiðin til að bregðast við nýjungum og breytingum sé að gjörbreyta skipulagi Ríkisútvarpsins — gera byltingu innan dyra — opna nýja útvarpsrás fyrir einstaklinga og félagasamtök og heimila íbúum sveitarfélaga að koma á fót staðbundnum útvarpsstöðvum þar sem meiri hluti íbúanna æskir þess. Við teljum að Ríkisútvarpið tryggi best að lýðræðisleg umræða og skoðanamyndun eigi sér stað og að ekki veiti af einhverju mótvægi við þá stóru aðila sem nánast einoka aðra fjölmiðla. Ríkisútvarpið hefur í meira en hálfa öld eflt og staðið vörð um íslenska menningu og tungu og hefur jafnframt séð um að kynna fólki það besta úr menningu annarra þjóða.

Með því að heimila þeim aðilum, sem leyfi fá til útvarps, að afla tekna með auglýsingum er hætt við að einn af megintekjustofnum Ríkisútvarpsins skerðist verulega, sem væntanlega hefur þá í för með sér minni þjónustu. Í frv. er gert ráð fyrir að leyfishafar eigi sjálfir boðveitukerfi það sem þeir nota, en það er skoðun t. d. borgaryfirvalda í Reykjavík að eðlilegast og fyrirhafnarminnst sé að Reykjavíkurborg eigi boðveitukerfið (þ. e. fyrir kapalsjónvarp) og leigi síðan út rásirnar, annað kostar uppgröft út um allan bæ eða móttökuskjái fyrir gervihnetti á hvert hús. Bæði þessi atriði gera frv. stórgallað. Þá ber að nefna að þar sem slakað hefur verið á reglum um útvarp hefur verið um tilraunir á tilteknu tímabili að ræða og það skýrt tekið fram t. d. á Norðurlöndum. Í frv. er að vísu ákvæði um endurskoðun laganna og eins verða leyfi skv. þeim aðeins veitt til þriggja ára. Miklu eðlilegra væri að gera tilraun þar sem um svo mikilvægan fjölmiðil er að ræða.

Kvennalistinn er mótfallinn þeirri meginhugsun sem felst í frv. um ný útvarpslög og óttast að óbreytt grafi þau undan Ríkisútvarpinu og verði til þess að fjársterkir aðilar fari með sigur af hólmi í frumskógi samkeppninnar sem eflaust mun fylgja í kjölfarið. Reynslan erlendis sýnir að margir eru kallaðir en fáir útvaldir. Það er „frelsi“ peninganna sem heldur velli en almenningur stendur eftir sem áður utan garðs án tækifæra til sköpunar og þátttöku í mótun fjölmiðla. Hér á landi hefur Ríkisútvarpið verið mjög „opinn“ fjölmiðill miðað við það.sem annars staðar gerist og væri miður ef það breyttist til hins verra.

Að baki þeirrar hugmyndafræði, sem fætt hefur af sér þetta frv. til útvarpslaga, virðist liggja sú draumsýn að það, sem gildir í milljónaþjóðfélögum úti í hinni stóru veröld, gangi einnig hér í samfélagi sem telur 240 þús. sálir. Það gefur auga leið að svo lítill markaður, sem Ísland er, getur ekki borið margar útvarpsstöðvar sem reknar verða með afnotagjöldum og auglýsingum og eiga að uppfylla skilyrði um innlenda dagskrárgerð. Þar munu hinir (fjár)sterkari lifa af og það er auðvitað meiningin.

Fregnir frá Bandaríkjunum herma að það séu hvorki kapalstöðvar né gervihnattasendingar sem fólk vill horfa á, heldur það efni sem fólk velur sjálft á myndbandaleigum. Það má því spyrja hvort glýja nýrrar tækni blindi ekki augu þeirra sem þrá svo heitt að heyra stöðvar í anda útvarps DV eða að sjá sjónvarp Ísfilm birtast á skjánum. Kannske verður framtíðin sú að hver og einn velur sjálfur á hvað hann horfir eða hlustar, óháð öllum stöðvum. Ef svo fer er eins gott að Ríkisútvarpið verði ekki horfallið og geti áfram sinnt þeirri öryggisþjónustu og fréttamiðlun sem samfélaginu er nauðsynleg og landsmenn hafa treyst á í 55 ár.

Undirrituð mun því greiða atkv. gegn þessu frv. verði ekki á því verulegar breytingar.“

Herra forseti. Í þeim umr., sem fram hafa farið um útvarpsmálin nú vetur, hefur greinilega komið í ljós að verulegur áhugi er á að auka aðgang fólks að útvarpi og því að nýta þá tækni í fjölmiðlum sem nú er sem óðast að ryðja sér til rúms. Menn greinir hins vegar á hvernig að breytingunum skuli staðið. Í mínum huga er hér um mjög alvarlegt mál að ræða og það þarf vart að taka fram, eins og ég hef þegar sagt, að ég er mjög ósátt við þann bræðing sem frv. ríkisstj. er orðið að.

Ríkisútvarpið hefur þróast ört á undanförnum árum og verulega lagt sig í líma við að mæta kröfum tímans með nýrri rás og tilraunum um staðbundna útvarpsstöð á Akureyri. Innan Ríkisútvarpsins ríkir samkeppni, samkeppni milli rása og mismunandi miðla. Ríkisútvarpið hefur alla möguleika á að fjölga rásum, leigja þær út til félaga og einstaklinga. Það getur tekið á móti gervihnattasjónvarpi og það getur stuðlað að því að koma á fót fleiri staðbundnum útvarpsstöðvum um landið í samráði við heimamenn. Með slíkum hætti er tryggt að landsmönnum öllum verði þjónað, að allir sitji við sama borð hvað varðar lýðræðislega umræðu, skoðanamyndun og sköpun.

Með frv. því sem hér er til umr. er að mínum dómi stigið óheillaspor. Frá því að síminn var lagður hefur verið uppi sú stefna að hvers konar fjarskipti skuli vera í eigu almennings og þjóna allri þjóðinni. Með þeirri breytingu á útvarpslögum sem nú er verið að knýja í gegn er vegið að Ríkisútvarpinu með því að öðrum aðilum verði heimilt að útvarpa og afla tekna með auglýsingum. Með þessu frv. eru allar gáttir opnaðar meðan aðrar þjóðir, þar sem þjóðarútvarp er til staðar, heimila tilraunir með útvarp í tiltekinn tíma.

Ég efast ekki um að öllum þm. hv. Ed. sé ljóst hve mikilvægu hlutverki Ríkisútvarpið hefur gegnt í 55 ár sem miðill menningar og upplýsinga. Bestu verk leikbókmenntanna, sögur íslenskra og erlendra rithöfunda hafa verið kynnt, umræður um þjóðmál og alls konar fræðsla hafa farið fram í Ríkisútvarpinu. Ríkisútvarpið er eitt mikilvægasta öryggistækið í okkar þjóðfélagi. Það miðlar veðurfregnum, hvers kyns tilkynningum og því má oftast nær treysta að mismunandi sjónarmið fái þar inni. Ég óttast að með því frv. sem hér er til umr., verði það samþykkt, verði grafið undan Ríkisútvarpinu og að verið sé að gera því erfitt að gegna hlutverki sínu.

Eins og ég hef áður sagt óttast ég, og það eru mín aðalrök í þessu máli, að það verði fjársterkir aðilar sem eftir munu standa þegar mesta nýjabrumið er farið af.

Þegar útvarp hófst hér á landi árið 1926, þá í tilraunaskyni, var það í höndum einkaaðila. Mönnum þótti hins vegar rétt að stofna Ríkisútvarp til að tryggja að það næði til allra landsmanna, til þess að stjórn væri höfð á þessari tækni og ekki síst vegna þess að dreifing þess var dýr. Dreifingin er enn dýr. Skoðanamyndandi afl þessarar tegundar fjölmiðla er meira en nokkru sinni fyrr og því ríður á að tryggja að það sitji allir við sama borð.

Það hefur margsinnis komið í ljós að landsmenn eru ánægðir með Ríkisútvarpið og enda þótt ég telji að þar innan dyra þurfi mörgu að breyta vil ég standa vörð um Ríkisútvarpið, útvarp allra landsmanna.