11.06.1985
Efri deild: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6273 í B-deild Alþingistíðinda. (5704)

5. mál, útvarpslög

Frsm. 2. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Virðulegi forseti. Útvarpslög eru hér enn til umr. og enn eru býsna skiptar skoðanir um afgreiðslu þess máls. Mér virðist það nokkuð dæmigert um þann glundroða og samstöðuleysi sem upp hefur komið í þessu máli vegna ákveðins einstefnuaksturs Sjálfstfl. sem hefur reynt að keyra það áfram með stuðningi einstakra þingflokka til skiptis. Það er greinilegt að hér á að afgreiða frv. frá Alþingi með atkv. minni hl. Alþingis. Eins og ég sagði er það til marks um þann glundroða sem ríkir í þessu máli að það koma fram fjögur nál. Það kemur fram sérálit frá Alþb., annað frá Kvennalistanum, það þriðja frá Alþfl. og svo það fjórða frá Framsfl. og Sjálfstfl. Þeir flokkar eru samt ekki með sameiginlegar brtt., heldur fyrst og fremst sameiginlegt nál. Skemmst er að minnast þess að þm. Framsfl. í Nd. greiddu ýmist atkv. á móti frv. eða sátu hjá við afgreiðslu málsins tír Nd. Reyndar fékk frv. aðeins 16 atkv. af 40 þegar greidd voru atkv. í Nd.

Ég tel að meðferð þessa máls hér í þinginu sé komin í slíkar ógöngur að sjálfsagt sé og eðlilegt að það verði tekið til endurskoðunar fram að næsta þingi, helst með skipun mþn. til að athuga það nánar. Ég geri það að tillögu minni að málinu sé vísað til ríkisstj., að sjálfsögðu með því fororði að hún beiti sér fyrir aukinni samstöðu um það og horfið verði frá því að reyna að þröngva því hér í gegn með svo litlu þingfylgi sem raun ber vitni. Auðvitað eru útvarpsrekstur og sjónvarpsrekstur í landinu slík meginatriði lýðræðislegra starfshátta hjá þjóðinni að það er grundvallarskilyrði að meginstefnan á því sviði sé mörkuð í samstarfi flokka og manna en ekki með þeim glundroða og minnihlutasjónarmiðum sem hér virðast eiga að ráða ferðinni.

Í Nd. flutti þingflokkur Alþb. allmargar brtt. við frv. Ég hef ekki séð ástæðu til að fara að endurflytja þær hér við afgreiðslu málsins í Ed. vegna þess að þær voru flestallar felldar í Nd. og sýnt að þær ná ekki fram að ganga, en mér þykir hlýða að gera hér grein fyrir meginsjónarmiðum þingflokks Alþb. sem stendur einhuga að þeirri afstöðu.

Í fyrsta lagi leggjum við Alþb.-menn mikla áherslu á það að vel sé búið að Ríkisútvarpinu varðandi alla starfsaðstöðu. Á það reynir enn frekar þegar hafin verður starfræksla svæðisbundinna útvarpsstöðva. Ríkisútvarpið þarf eftir sem áður að vera burðarásinn í útvarpsfjölmiðlun og á það eru lagðar margháttaðar skyldur sem ekki eru gerðar til svæðisstöðva. Þess vegna þarf að tryggja viðunandi kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins og áhrif þeirra á starfrækslu stofnunarinnar. Um þetta efni fluttu Alþb.-menn tillögur við afgreiðslu málsins í Nd. og ég ítreka vilja okkar að þessu leyti.

Ég þarf ekki að taka það fram að við Alþb.-menn munum styðja hverja þá brtt., sem fram kann að koma við meðferð málsins í Ed., sem við teljum að horfi til heilla fyrir Ríkisútvarpið og geri því fært að rækja hlutverk sitt sem öflugasti fjölmiðill í landinu.

Í öðru lagi er rétt að ítreka það sjónarmið, sem reyndar kom skýrt fram í ræðu minni við 1. umr. málsins, að það er síður en svo að við Alþb.-menn höfum tekið þá afstöðu að alls engan annan útvarpsrekstur skuli leyfa en rekstur Ríkisútvarpsins. Við höfum ekki markað þá stefnu. Við höfum verið fylgjandi því að hópum með ólíkan bakgrunn yrði heimilað að spreyta sig á útvarpsrekstri og þá með það að markmiði að auka tjáningarfrelsi í landinu og lýðræðislega umræðu. En við höfum sett það skilyrði í þessu sambandi að einungis samtök sem sérstaklega eru stofnuð með útvarpsrekstur í huga fái slíka heimild. Við teljum óeðlilegt að fyrirtæki sem stunda annan og óskyldan rekstur geti gerst beinir aðilar að útvarpsrekstri.

Í þriðja lagi leggjum við í þessu sambandi alveg sérstaka áherslu á að útvarpsstöðvar aðrar en Ríkisútvarpið verði án auglýsinga. Við viljum að ráðstöfun útvarpsréttarins sé í höndum almannavaldsins áframhaldandi og að svigrúm til almenns útvarpsrekstrar verði því takmarkað og Alþingi sniði þessari nýju starfsemi ákveðinn stakk. Þess vegna teljum við með öllu óeðlilegt að útvarpsstarfsemin sé gerð að markaðsvöru í gróðaskyni. Við leggjumst gegn því að handhöfum útvarpsheimilda verði leyft að selja þriðja aðila aðgang að senditíma með hvers kyns viðskiptaauglýsingum eða annarri verslun með dagskrártíma í svæðisbundnum útvarpsstöðvum. Við höfum sýnt fram á það í þessari umr. með skýrum rökum hvernig unnt er að fjármagna rekstur útvarpsstöðva án auglýsingatekna. Fjölmörg dæmi eru um það erlendis að útvarpsstöðvar séu reknar án auglýsinga. T. d. eru auglýsingar ekki heimilaðar í útvarpi í Noregi, Svíþjóð og Danmörku.

Sem sagt: það er meginsjónarmið okkar að auka eigi tjáningarfrelsi í þessum fjölmiðli og opna mönnum leiðir til að reka útvarp, en það eigi að gera án auglýsinga og það megi gera einungis fyrirtæki sem sérstaklega eru til þess stofnuð.

Ég bendi á í þessu sambandi að enginn flokkur hér á Alþingi gerir tillögur um ótakmarkaðar heimildir til útvarpsrekstrar. Deiluefnið hér í þinginu snýst fyrst og fremst um það með hvaða takmörkunum útvarpsrekstur skuli leyfður. Vissulega viljum við Alþb.-menn ganga þar lengra en ýmsir aðrir, þó ekki allir aðrir því að ég hygg að fulltrúar Kvennalistans hafi nokkuð hliðstæð viðhorf í þessum efnum og við. Við teljum sem sagt nauðsynlegt að tryggja, til þess að varðveita sem best tjáningarfrelsið í landinu og til þess að tryggja sem best lýðræðislega umræðu, að þessi nýja starfsemi verði ekki undir alræðisvaldi fjármagnsins, fjársterkra aðila í þjóðfélaginu. Við óttumst að ef fjársterkustu aðilar þjóðfélagsins ná því að einoka þessa starfsemi í krafti miklu auðveldari aðgangs að auglýsingum og með bandalagi við forsvarsmenn viðskipta og verslunar í þessu landi sé hert að lýðræðinu í landinu og þessi fjölmiðill nýtist ekki almenningi í landinu með eðlilegum hætti til lýðræðislegrar umræðu.

Eins og fleiri höfum við lagt ríka áherslu á að dreifikerfi til útvarpssendinga, bæði boðveitulagnir í jörð og endurvarpsstöðvar fyrir þráðlaust útvarp, verði í eigu opinberra aðila. Með opinberum aðilum á ég við ríki og/eða sveitarfélög. Við teljum sem sagt ekki að það eigi alfarið að veita sveitarfélögum heimildir af þessu tagi vegna þess að það er ekki víst að sveitarfélögin sjái sér öll fært að hagnýta sér þann rétt eða séu þess megnug. Á ég þar fyrst og fremst við smá sveitarfélög víðs vegar úti á landi. Þess vegna er eðlilegt að þessi einkaréttur sé í höndum ríkis og sveitarfélaga jöfnum höndum. Við teljum þetta nauðsynlegt fyrst og fremst til þess að koma í veg fyrir einokun í skjóli einkaeignar á dreifikerfum. Við bendum á að þetta skilyrði þarf á engan hátt að hindra að handhafar útvarpsheimilda komi sér upp góðum tækjum eftir því sem þeir kjósa. Þessi afstaða er hins vegar m. a. tekin með það í huga að heimildir til útvarpsrekstrar eru veittar til takmarkaðs tíma og það væri með öllu óeðlilegt að rétthafi, sem hefur verið sviptur útvarpsheimild, t. d. fyrir stórfelld brot á útvarpslögum, gæti eftir sem áður verið eigandi að umfangsmiklum dreifikerfum. Einnig má benda á að ákvæði af þessu tagi eru nauðsynleg til að tryggja visst samræmi í sendibúnaði. Útvarpsleyfishafar mundu hins vegar hafa fullt forræði umræddra tækja á meðan þeir væru handhafar leyfis.

Að lokum vil ég leggja áherslu á það sjónarmið okkar Alþb.-manna að tryggt verði með öllum ráðum að aukning verði á innlendu efni í þessum fjölmiðlum. Við Alþb.-menn leggjum sem sagt ríka áherslu á að framfylgt verði þeim markmiðum útvarpslaga að sérstök rækt sé lögð við menningu og tungu þjóðarinnar og gætt hagsmuna allra þjóðfélagshópa. Sérstaklega viljum við vekja athygli á nauðsyn þess að allar stöðvar flytji íslenskt efni að vissu marki og í auknum mæli frá því sem er í Ríkisútvarpinu nú. Við teljum nauðsynlegt í ljósi reynslunnar að reyna að tryggja að Ríkisútvarpið og aðrar stöðvar verji hreinlega ákveðnum hluta af dagskrárfé sínu til efnis fyrir börn.

Eins og ég hef þegar lýst er þetta mál bersýnilega komið í hinar mestu ógöngur. Sjálfstfl. hefur reynt að skáskjóta þessu máli í gegnum þingið með stuðningi við þennan stjórnmálahópinn í annað skiptið og hinn í hitt skiptið í stað þess að andstæðingar Sjálfstfl. hefðu þá átt að taka höndum saman, úr því að flokkurinn var ekki reiðubúinn til eðlilegs samstarfs við aðra flokka um þetta mál, og hindra framgang frv. með því að fella það og reyna þannig að knýja á að samstarf tækist um þetta mál sem leiddi til þess að ákvörðun í þessu stórkostlega mikilvæga máli yrði tekin af meiri hl. Alþingis en ekki minni hl. Þess vegna teljum við að það verði að endurskoða þetta mál og að það verði best gert með því annaðhvort að fella málið eða vísa því til ríkisstj. til nánari athugunar í sumar þannig að unnt verði að flytja endurskoðað frv. á næsta þingi og þá að sjálfsögðu í trausti þess að ríkisstj. leiti samstarfs við önnur stjórnmálaöfl í landinu um þá stefnumótun í þessu máli sem getur skapað nauðsynlega og viðunandi samstöðu um það.

Ég vil taka það fram að við Alþb.-menn áskiljum okkur að sjálfsögðu rétt til að fylgja eða flytja brtt. við meðferð málsins núna í Ed. Það hafa komið fram nokkrar brtt. sem sjálfsagt er að líta á með jákvæðu hugarfari. Einnig tel ég rétt, ef till. okkar um að vísa málinu til ríkisstj. er felld, að horfið sé að því ráði að fella frv. við lokaafgreiðslu þess hér í deildinni.