11.06.1985
Efri deild: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6278 í B-deild Alþingistíðinda. (5706)

5. mál, útvarpslög

Frsm. 4. minni hl. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 1227 skilað nál. frá 4. minni hl. menntmn. Ed. og enn fremur á þskj. 1208 og öðru þskj. þar sem er ein tillaga, brtt. við frv. til útvarpslaga sem ég flyt ásamt hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni.

Nú vil ég taka fram í upphafi máls míns að ég tel nauðsynlegt að fjalla nokkuð ítarlega um þetta mál við þessa umr. þar sem þetta mál er þannig vaxið og ber þannig að að nauðsynlegt er að það liggi alveg ljóst og skýrt fyrir í þingtíðindum hvernig þetta mál stendur nú, hvernig að því hefur verið unnið og hver afstaða manna er til málsins á þessu stigi. Ég ætla ekki að hafa uppi neina tilburði til að tefja málið, en ég áskil mér rétt til að segja það sem mér býr í brjósti. Ég læt lönd og leið þau frýjunarorð sem hæstv. menntmrh. mælti hér í nótt um að menn treystust ekki til að vinna með eðlilegum hætti, að því er hún taldi, og bendi á að þetta mál kom úr n. í gærmorgun og um kvöldmat eða skömmu eftir kvöldmat lágu fyrir allar brtt. og öll nál. fjögurra minni hl. í málinu. Þeim ásökunum að menn í Ed. vinni ekki sem skyldi vísa ég því algjörlega á bug.

Það hefur lengi verið um það deilt hér hvort leyfa ætti fleirum að leggja stund á útvarps- og sjónvarpsrekstur en Ríkisútvarpinu einu, en þessi mál hafa af tæknilegum ástæðum verið að taka breytingum um langan tíma. Auðvitað er öllum ljóst að einokun ríkisfjölmiðlanna svonefndu, útvarps og sjónvarps, er úr sögunni fyrir löngu og verður ekki upp tekin að nýju. Það er alveg ljóst.

Á sínum tíma var sett nefnd til að endurskoða lög um Ríkisútvarpið. Sú nefnd lauk störfum, að ég hygg, á árinu 1982 og skilaði þá nál. þar sem gert er ráð fyrir að fleiri aðilar en Ríkisútvarpið fái leyfi til að stunda útvarpsrekstur.

Um skeið lá málið í salti. Það var síðan sýnt seint á þinginu í fyrra, ef ég man rétt. Síðan gerðust þeir atburðir á haustdögum, sem öllum eru í fersku minni, er starfsmenn Ríkisútvarpsins hurfu illu heilli á brott frá störfum sínum og gengu út þannig að útvarp og sjónvarp féllu niður. Þá urðu miklar deilur hér uppi og ekki óeðlilegt. Þetta var óskynsamleg og röng ákvörðun hjá starfsfólki Ríkisútvarpsins, tekin í hita augnabliksins þegar menn höfðu ekki fengið launin sín greidd eins og þeir töldu sig eiga rétt á lögum skv., og varð úr mikið deilumál. En það er kannske ekki meginefni þessa máls, heldur varð það til þess að mikill fítonsandi hljóp í ýmsa. Hæstv. menntmrh. flutti hér á Alþingi frv. til nýrra útvarpslaga. Það var líklega um miðjan október á síðasta hausti sem hæstv. ráðh. lagði frv. til nýrra útvarpslaga fram í þinginu og ætlaði þinginu tvær vikur tæpar til að fjalla um og samþykkja ný útvarpslög því að í frv. sem ráðh. lagði fram stóð: „Lög þessi öðlast gildi 1. nóv. 1984.“

Ég efast um að nokkru sinni fyrr í þingsögunni hafi verið lagt fram flókið lagafrv. um margþætt mál og þinginu ætlaðar tvær vikur til að hespa málið af. Þetta eru vinnubrögð sem ekki geta talist til fyrirmyndar. Það vissu auðvitað allir að á tveimur vikum yrði þessi löggjöf ekki samþykkt né færi hún í gegnum þingið. Alþingi hv. starfar með þeim hætti að það þarf lengri tíma til að afgreiða minni mál en þetta. Það var vitað að um þetta mál voru mjög skiptar skoðanir. Og það sem meira var og alvarlegra var það að þetta mál var nánast órætt í þjóðfélaginu. Það er annað uppi núna þegar þó er búið að ræða þetta mál í allan vetur.

En þá kem ég að þeim þætti málsins sem ég tel vera lakastan þó ég vilji ekki endilega segja ámælisverðan. Menntmn. Nd. fær þetta mál til umfjöllunar tiltölulega fljótt. Oft er það svo þegar mál af þessu tagi eru til umræðu í þinginu að nefndir beggja deilda starfa að málunum. Það var ekki gert í þessu tilviki. Formaður menntmn. Nd. sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrir fáeinum dögum að Eiður Guðnason hefði komið í veg fyrir að menntmn. deildanna störfuðu saman með því að hafna þeirri tillögu. Ég hef vísað þessari alröngu staðhæfingu á bug. Þetta eru hrein ósannindi. Í fyrsta lagi hafði Eiður Guðnason ekkert neitunarvald um þetta efni. Í öðru lagi var tillagan um að nefndirnar störfuðu saman aldrei borin upp við mig. Í þriðja lagi átti ekki að bera hana upp við mig. Það átti að bera hana upp við formann menntmn. Ed., hv. þm. Harald Ólafsson. Ég skil ekki hvað mönnum gengur til að láta slík hrein ósannindi á þrykk út ganga. Ég leiðrétti þetta þegar mér var bent á þetta í Morgunblaðinu og það hefur engin aths. komið við þá leiðréttingu. En þetta er alveg furðulegt. Æskilegt hefði verið að þetta mál hefði fengið aðra umfjöllun.

Ég veit að hv. þm. muna með mér að það gekk ekki á öðru í nóvember og desember en að þá var málið alltaf að koma úr nefnd. Það voru viðtöl við formann menntmn. í Nd. í fjölmiðlum vikulega, stundum oft í viku, og alltaf var málið að koma úr nefnd. Það vissu allir að þetta var hreint rugl. Málið var ekkert að koma úr nefnd. Það var ekki á leiðinni úr nefnd og það kom ekki úr nefnd fyrr en löngu seinna. Það er ekki fyrr en 12. maí, fyrir tæpum mánuði, sem útvarpslagafrv. kemur frá Nd. til Ed. Þá er það búið að vera í nefndinni í Nd. síðan um miðjan október, frá 20. október. Við skulum segja að málið hafi farið til nefndar 20. október. 20. nóvember er liðinn einn mánuður, 20. desember eru liðnir tveir mánuðir, 20. janúar þrír, 20. febrúar fjórir, 20. mars fimm, 20. apríl sex. Það er komið hátt á sjöunda mánuð, rúmlega hálft ár, sem þetta mál er búið að vera í menntmn. Nd. Síðan er þetta búið að vera tæpan mánuð í umfjöllun hv. menntmn. Ed. og hún hefur nú skilað áliti.

Það hefði verið æskilegt að nefndin hefði getað haft meiri tíma til að fjalla um þetta mál. En það voru engar tilraunir uppi hafðar til að tefja það. Að vísu tafðist málið kannske um fáeina daga því að það var ekki unnið að því í nefnd vegna fjarveru eins nm. í erindum þingsins og fjarveru formanns í erindum þingsins í fáeina daga, en ég held að þeir dagar hafi engu máli skipt í sambandi við afgreiðslu málsins.

Í Nd. var fluttur mikill sægur brtt. við útvarpslagafrv. um hin ólíkustu efni. Atkvgr. voru langar og flóknar. Ég minnist þess að við 2. umr. var tillögugerið slíkt — og við Alþfl.-menn áttum þar margar tillögur — að við athugun sá ég að eina færa leiðin til þess að atkvgr. gæti farið fram með nokkuð vitrænum hætti, eins margar og till. voru, eins líkar og þær voru sumar og sumar gerðu ráð fyrir mjög breyttri uppbyggingu og kaflaskiptingu frv., var sú að ég hafði samband að eigin frumkvæði við forseta Nd. og sagði honum að ég hefði komist að þeirri niðurstöðu að eina leiðin til að greiða atkv. við 2. umr. væri sú að við drægjum okkar tillögur til baka til 3. umr. þannig að það hreinsaðist svolítið borðið og atkvgr. yrði auðveldari í framkvæmd. Þetta var gert. Okkar till. komu svo til atkv. seinna. Þetta er til marks um ágreininginn og hversu óskaplega skiptar skoðanir eru um þetta mál.

Ég held hins vegar, og hef það fyrir mér í því sem ég hef rætt við nm. ýmsa í neðrideildarnefndinni, að aldrei hafi verið gerð raunveruleg tilraun til að ná víðtæku samkomulagi þar í n. vegna þess að á því var ekki áhugi. Það var snemma ljóst að þetta frv. átti að keyra í gegnum þingið eins og stundum er sagt. Það átti að sigla hraðbyri í gegn þrátt fyrir allan ágreining. Þess vegna var aldrei neinn áhugi á öðru en að reyna að ná einhvers konar samstöðu milli stjórnarflokkanna til þess að frv. hefði þó meiri hl. og m. a. s. það tókst ekki. Það segir auðvitað sitthvað um vinnubrögðin í þessari hv. n. sem ég held að hafi verið með alveg fádæmum slök.

Síðan kemur málið til okkar upp í Ed. Ég er næstum því viss um að í ljósi þeirra umr., og það leyfi ég mér að fullyrða, sem áttu sér stað í menntmn. Ed., hefði verið hægt að ná — ég segi ekki algjöru samkomulagi, það brýtur þarna á vissum grundvallarmálum, en það hefði verið hægt að ná mjög víðtæku samkomulagi um ýmis atriði frv. sem mikill ágreiningur var um í Nd. Þetta hefði verið hægt ef ekki hefði komið í ljós það sem ég segi hér í nál.: „Það tókst hins vegar ekki þar sem ekki var unnt að skilja afstöðu fulltrúa Sjálfstfl. á annan veg en svo að engu mætti breyta í frv. Ed. yrði að samþykkja frv. nákvæmlega eins og það kom frá Nd.“ Nákvæmlega eins. M. a. s. vitleysurnar í frv., rökleysurnar, sem ég mun koma nánar að hér á eftir, meiningarleysurnar og merkingarleysurnar sem fá ekki staðist eigum við að samþykkja óbreytt í Ed. af því að svo lítur út sem Sjálfstfl. hafi gert — eða ég a. m. k. dreg þá ályktun af afstöðu fulltrúa hans í n. — ályktun í sínum þingflokki um að engu megi breyta í málinu, það eigi að samþykkja það með öllum bannsettum vitleysunum sem í því eru. Þá er ég ekki að tala um efnisatriði. Þá er ég að tala um greinar sem eru óskiljanlegar, greinar sem stangast á og sem lögfræðingar segja mér að fái ekki staðist, séu rugl. Ég mun koma að því nánar og rökstyðja það skýrar síðar.

Ég er þeirrar skoðunar að þm. Ed. eigi ekki að láta bjóða sér slík vinnubrögð, að menn skuli vera settir út í horn, upp við vegg eða hvað menn vilja kalla það og sagt: Þú samþykkir þetta óbreytt eða . . . . ! Er þetta lýðræðislegt? Er þetta þingræðislegt? (Gripið fram í.) Til hvers koma mál til umr. í Ed. frá Nd.? Er það til að samþykkja þau óbreytt? Er það ekki til þess að þm. Ed. geti lagfært það sem kann að hafa farið fram hjá mönnum í Nd. Það mætti þá, ef okkar hlutverk er að taka við frv. frá Nd., samþykkja þau og stimpla þau, hversu vitlaus sem þau eru leggja Ed. niður. Við erum ekki að gegna skyldum okkar nema við grandskoðum málin. (Gripið fram í: Það mætti leggja Nd. niður.) Já, þetta er heldur skynsamleg till. hjá hv. þm. En við skulum ekki fara út í þá sálma.

Menn vinna með allt öðrum hætti í Ed. en Nd. og við erum eins og ein sæmilega stór nefnd sem hefur að vísu sjö undirnefndir sem allir hér eiga sæti í. Og ég segi það: Við sem sitjum í Ed. eigum ekki að láta bjóða okkur svona vinnubrögð. Það er fyrir neðan virðingu þess sem boðlegt er að segja við okkur: Þið samþykkið frv. eins og það er, með öllum þeim vitleysum sem í því eru. Þá er ég ekki að tala um efnisatriði, þá er ég ekki að tala um auglýsingadeiluna, þá er ég ekki að tala um menningarsjóðinn sem slíkan. Ég er bara að tala um ákvæði sem eru í frv. og fá ekki staðist.

Hvað segja menn t. d. um ákvæði eins og er í 3. gr., 7. tölul.?

„Óheimilt er að aðrir aðilar en sá, sem leyfi hefur til útvarpsrekstrar, kosti almenna dagskrárgerð þótt ekki gildi það um einstaka dagskrárliði.“

Hvað merkir þessi setning? Hvað merkir þetta? Hver er munurinn á almennri dagskrárgerð og einstökum dagskrárliðum? Þetta er merkingarlaust rugl eins og þetta er sett fram hér. Og ætla menn að samþykkja það? 7. tölul. 3. gr. hefur enga merkingu.

Það er auðvitað til vansa ef menn fara að samþykkja málsgreinar í þessum lögum sem eru hreint rugl aftur og enn eins og þetta er lesið. Lög eiga að vera þannig að þau séu auðskilin og skýr. Þetta er alveg óskiljanlegt ákvæði. Ég hef gert brtt. við þetta og kem síðar að henni.

Okkur er ætlað að kokgleypa þetta frv. eins og það kemur frá Nd., en hver var staðan í Nd.? Hvernig og hverjar lyktir hlaut málið þar? Hv. þm. Ragnar Arnalds er búinn að víkja að því hér og það gerir ekkert til þó það sé rifjað upp aftur.

Af 40 þm. sem eiga sæti í Nd., þ. e. 39 sem viðstaddir voru þegar þetta frv. var afgreitt, voru það 16 af 39 þm. sem treystu sér til að segja já þegar frv. var borið undir atkv. 12 sögðu nei og 11 sögðu ekki neitt, sátu hjá. Nú er það alveg ljóst, held ég, að frv. hefur mjög knappan meiri hl. í þessari deild. Sjálfsagt hefur það meiri hl., ég er ekki að gera því skóna að það standi öðruvísi, en við skulum segja að þetta frv. hafi 11–12 atkv. hér í Ed. Ég tel að það sé þó kannske rúmt reiknað. Þá erum við að samþykkja útvarpslög sem 28 þm. hafa treyst sér til að styðja. Er hæstv. menntmrh. ánægður með að samþykkja útvarpslög sem njóta stuðnings minni hl. á Alþingi? (Gripið fram í: Minna fylgi en þjóðaratkvgr. um bjórinn.) Það mál á eftir að fara aftur til Nd. og það er ekki útséð um hvert fylgi það hefur á Alþingi, hv. þm., þeir Nd.-menn eiga eftir að greiða atkv. um þá skynsamlegu ákvörðun sem tekin var í gærkveldi í því máli.

Það eru sem sagt allar horfur á að á þessu Alþingi, ef þessu offorsi ekki linnir og þeim ofstopa sem þetta mál er rekið með, verði samþykkt útvarpslög sem njóta stuðnings minni hl. þm. vegna þess að Sjálfstfl. hefur tekið þá ákvörðun að þetta mál eigi að reka með ofstopa í gegnum þingið og offorsi. Sú staðreynd hvernig atkvgr. fór í Nd. lýsir því auðvitað mætavel hve djúpstæður ágreiningur er um þetta mál og hversu miklar efasemdir menn hafa um ágæti þess frv. sem hér er nú til umr.

Nú taldi ég áðan að vinnubrögð í nefnd í Nd. hefðu verið heldur slök eða verkstjórn. Það hef ég sagt áður. Það hef ég sagt í Sþ. og það hefur hv. formaður þeirrar nefndar heyrt. Engu að síður tók þetta frv. allmiklum breytingum í Nd. Það var ekkert óeðlilegt. Þetta var orðið gamalt mál. Það var búið að liggja lengi frá því að útvarpslaganefndin samþykkti það og það gerist margt á skömmum tíma í þessum efnum. Það þurfti þess vegna engum að koma á óvart þó að málinu yrði breytt.

Af hálfu Alþfl. voru fluttar mjög margar brtt. í menntmn. Nd., eins og ég hef raunar áður vikið að. Eitt er það í þessum till. sem er höfuðatriði og það er sá kafli till. sem fjallar um svonefnd boðveitukerfi eða kapalkerfi. Ég held að það hafi runnið upp nýtt ljós fyrir ýmsum nm. í efrideildarnefndinni þegar þessi mál voru nánar skýrð á fundi þar og það var skýrður sá möguleiki að hér á höfuðborgarsvæðinu væri hægt að koma við boðveitukerfi með tiltölulega litlum tilkostnaði sem væri ekki grafið í jörð heldur væri á öldum ljósvakans, en væri samt lokað kerfi. Þetta er ný tækni sem Kanadamenn hafa haft forustu um og frumkvæði og hingað komu í fyrrasumar m. a. menn af íslensku bergi brotnir frá Winnipeg til að kynna þetta.

Reykjavíkurborg er byrjuð að undirbúa þessi mál, Seltjarnarneskaupstaður er byrjaður að undirbúa þessi mál, en það eru engar reglur um málið og Sjálfstfl. stendur þversum gegn því að um þetta mál séu settar reglur. Það er staðreynd sem upp úr stendur. Það skiptir ekki öllu máli hvort þetta er í fjarskiptalögum eða útvarpslögum. Það er ekki meginmálið. Aðalatriðið er að um þetta séu settar reglur þannig að sveitarfélögin geti byrjað, að boðveitukerfin séu í eigu sveitarfélaganna og þau geti byrjað að undirbúa málið. Ég held að það sé mjög mikil trygging fyrir borgarana að kerfi af þessu tagi séu í eigu sveitarfélaganna. Það er trygging fyrir öruggum rekstri, það er trygging fyrir þjónustuöryggi og það er trygging fyrir því að þarna sé vel að verki staðið og þetta sé ekki eitthvert hálfkák eða af vanefnum gert. Ég treysti Reykjavíkurborg og stjórnendum hennar fullkomlega til að koma á fót slíku boðveitukerfi hér af myndarskap og þannig að þar yrði veitt góð þjónusta, en greinilegt er að Sjálfstfl. ber ekki það traust til stjórnenda Reykjavíkur að hann vilji greiða fyrir því að slíkar reglur verði settar.

Það er talað um að gefa einhverjar óljósar yfirlýsingar. Við höfum reynslu af því hversu mikið er að marka óljósar yfirlýsingar ráðh. hér úr ræðustólum, að hitt og þetta skuli gert eða stefnt skuli að einhverju. Það er nákvæmlega einskis virði ef ráðh. kýs að hafa það að engu. Það er alveg greinilegt að fulltrúar Sjálfstfl. ætla sér að standa gegn því að þessi boðveituákvæði komist í lög. — Þar sem flm. þáltill. um móttöku erlends gervihnattarsjónvarps er nú staddur hér í Ed. á leið til sætis síns í Nd. er ekki úr vegi að víkja að því að boðveitukerfi er alger forsenda þess að Íslendingar geti horft á sjónvarp frá gervihnöttum. Það er grundvöllurinn undir því öllu saman. Þó við ættum völ á sex eða sjö sjónvarpsdagskrám frá gervihnöttum er dreifikerfi íslenska sjónvarpsins bara einfalt dreifikerfi og dagskrá íslenska sjónvarpsins er stundum frá kl. 6 á kvöldin og fram úr, stundum frá kl. 8. Það væri þá hægt að sjónvarpa einhverju um miðjan daginn. Ef menn ættu að geta valið á milli, horft á mismunandi rásir, mismunandi stöðvar, sem geta verið okkur tiltækar með gervihnattasjónvarpi, verður að koma upp boðveitukerfi. Ætlar Sjálfstfl. að standa gegn því að Íslendingar geti notfært sér þessa nýju tækni með því að þrjóskast við að taka upp reglurnar um boðveitukerfi í eigu sveitarfélaga eins og Seltirningar vilja koma á, eins og verið er að undirbúa í Reykjavík fyrir forgöngu m. a. borgarstjórans? Þetta er öldungis með ólíkindum, enda sé ég að hæstv. menntmrh. hefur nú yfirgefið deildina, en henni þykir sjálfsagt ekki gaman að hlusta á þessar staðreyndir því staðreyndir eru þetta, að Sjálfstfl. ætlar að standa gegn því að Íslendingar geti notfært sér kosti þeirrar nýju tækni að horfa á sjónvarp frá gervihnöttum, en boðveitukerfi er forsenda þess. — Ég sé mig knúinn til að endurtaka nokkrar setningar af því sem ég sagði áðan af því að hæstv. menntmrh. var ekki í deildinni. (Menntmrh.: Ég heyrði, hv. þm.) Já, það er gott að hæstv. ráðh. heyrir í gegnum holt og hæðir. Það er alger forsenda þess að við getum valið milli sjónvarpsdagskráa frá ólíkum gervihnöttum að hér sé boðveitukerfi. Reykjavíkurborg vill koma þessu á fót, en Sjálfstfl. á Alþingi stendur gegn því að þessi ákvæði geti komist í lög og að sveitarfélögin fái að veita sínum íbúum eðlilega þjónustu. Þetta er umhugsunarefni fyrir ýmsa kjósendur Sjálfstfl. á höfuðborgarsvæðinu. (Menntmrh.: Það er rangt, hv. þm., að Sjálfstfl. standi gegn þessu og það er gegn lögum.) Já, við skulum setja þetta í fjarskiptalög, alveg sjálfsagt mál. Aðalatriðið er að reglurnar verði settar. Reglurnar eru tilbúnar, samdar af hæfum lögfræðingum, og það er ekkert því til fyrirstöðu. Það stendur kannske eitthvað í sjálfstæðismönnum að það skuli hafa verið Alþýðuflokksmenn sem lögðu fram þessa till. Það skyldi þó aldrei vera hluti skýringarinnar.

Það mætti hugsa sér slíkt boðveitukerfi hér í Reykjavík þar sem væru a. m. k. átta rásir. Ein væri notuð fyrir íslenska sjónvarpið, tvær væru leigðar innlendum dagskrárgerðarfyrirtækjum sem gætu sent þar um efni, ein rás væri fyrir efni frá gervihnöttum sem senda beint, norrænt, enskt, þýskt, franskt, eina eða tvær rásir mætti hugsa sér fyrir námsefni, fræðsluefni, opinn háskóla, frjálsan háskóla eins og var mjög athyglisverð grein um í Morgunblaðinu fyrir fáeinum dögum, Námsflokka Reykjavíkur, margháttað fræðsluútvarp. Síðan gæti verið rás fyrir auglýsingar sem væru eins konar svona smáauglýsingar, fyrirbæri sem sumir hafa kallað skjárita á íslensku. Það heitir videotext eða teletext eða eitthvað slíkt. Það eru mörg nöfn yfir það á erlendum málum. Þar gætu menn leitað upplýsinga. Bílamarkaður, fasteignamarkaður gætu verið á slíkri rás. Það er mjög einfalt að koma því fyrir. Og loks gæti ein rás verið „karlinn í kassanum“ þar sem þeir sem vildu gætu komið og haldið ræður um sín hugðarefni, komið skoðunum sínum á framfæri. Þetta gæti orðið mjög athyglisverð tilraun til að efla lýðræði og skoðana- og tjáningarfrelsi og það að menn skiptust á skoðunum.

Þetta þarf ekki að kosta tiltakanlega mikið. Það er alveg ljóst. Og það kemur auðvitað að því að sveitarfélögin.á höfuðborgarsvæðinu munu hafa samráð í þessu máli. En Sjálfstfl. ætlar e. t. v. að standa gegn því um langa hríð enn að það séu settar reglur um boðveiturnar. Afstaða flokksins er sú núna að þetta eigi ekki heima í útvarpslögum. Ég segi: Gott og vel, þá skulum við hafa þetta í fjarskiptalögum. En það er verið að athuga málið, það er verið að skoða málið. Við þekkjum öll hvernig það getur gengið fyrir sig. Það er ekki áhugi á þessu máli. Það væri fróðlegt að heyra álit borgarstjórans í Reykjavík á því hvernig flokksbræður hans á Alþingi þvælast fyrir þessu máli og drepa því á dreif.

Till. okkar um boðveiturnar er að finna á þskj. 1208 og þar segir, með leyfi forseta:

„Þar til lokið er endurskoðun þeirra ákvæða fjarskiptalaga, nr. 73/1984, er snerta boðveitur í eigu sveitarfélaga, gilda eftirfarandi ákvæði um uppsetningu og rekstur þeirra.“

Það er sem sagt gert ráð fyrir að þarna komi bráðabirgðaákvæði þangað til búið er að endurskoða fjarskiptalög. Getur hæstv. menntmrh. ekki fallist á að það séu ekki óeðlileg vinnubrögð?

Þessar boðveitur skulu vera í eigu sveitarfélaga. Ég hirði ekki um að vera að lengja þessa umr. sérstaklega með því að lesa upp þessa till. í heild. Ég sé enga ástæðu til þess, herra forseti. Það er gert ráð fyrir að boðveitur af þessu tagi verði — og ég neyðist til að nota ensk orð yfir það því mér er ekki ljóst að búið hafi verið til íslenskt nýyrði yfir það sem kallað er common carrier á ensku og notað er um slík boðkerfi — í eigu einhvers ákveðins aðila sem ekki sér um neitt er varðar dagskrárhlið, aðeins um hinn tæknilega rekstur kerfisins, en kerfið er öllum opið sem uppfylla ákveðin skilyrði.

Í Nd. voru allar till. um þetta felldar. Þá var því lýst yfir af hálfu Alþfl.þm. hans styddu auglýsingafrelsi í nýjum útvarpsstöðvum að því tilskildu að þetta nauðsynlega ákvæði um boðveiturnar, sem gerir okkur kleift að njóta gervihnattasjónvarpsins, kæmi inn í lög, útvarpslög eða fjarskiptalög, skiptir ekki máli. Þetta var allt fellt og ekki var á það hlustað. Þá var því sömuleiðis komið skilmerkilega á framfæri að ef ekki yrði fallist á ákvæðin um reglur fyrir boðveiturnar mundu þm. Alþfl. endurskoða afstöðu sína til ákvæðisins um auglýsingafrelsi. Þessi yfirlýsing er í fullu gildi enn. (Forseti: Má ég spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi langt mál eftir?) Já, herra forseti. Ég hef líklega talað í um hálfa klst. og það telst ekki mjög langur tími í umr. um stórmál. Ég á enn nokkuð eftir af mínu máli. (Forseti: Ég spyr vegna þess að samkomulag varð um að bregða út af venju og fundur yrði hér í dag milli 2 og 4 þrátt fyrir þá útvarpsumr. sem fram fer í kvöld og ef ekki hefði verið mikið eftir af máli hv. ræðumanns hefði ég leitast við að ljúka umr. Ef hann telur sig eiga drjúgt eftir tel ég ekki fært að halda þessum fundi áfram lengur.) Ég á, herra forseti, eftir að gera grein fyrir nánast öllum þeim brtt. sem ég flyt við frv. þannig að ég þarf a. m. k. annan eins tíma til þess og ég hef nú talað. Ég geri ekki ráð fyrir að ég tali mikið lengur en eina klst. við þessa umr., en ég á a. m. k. hálfa klst. eftir og mun þá halda áfram máli mínu þegar þessari umr. verður fram haldið.