06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

107. mál, skráning og mat fasteigna

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég fagna því þegar þm. flytja till. sem, eins og hér var sagt, fluttar eru til að auka sparnað í rekstri ríkisins. Það er rétt að ekki mun af veita. En ég harma það að ef einhvers staðar skyldi nást fram sparnaður þá ráðstafi þeir hinir sömu þm. þeim sparnaði þegar í stað og í sömu ræðu aftur. En svona til upplýsingar, eins og þm. muna, voru fjárlög skorin niður um 1000 millj. og síðan voru þau endurskoðuð um mitt árið og afgreidd hér í maí með öðrum 1000 millj. niðurskurði og nú er rekstrarútkoman líklega nálægt 1000 millj. betri en áætlað var. Ég get því fullvissað hv. 2. þm. Reykn. að það hefur verið gert mikið og allt sem mögulegt er til þess að reyna að spara.

En fsp. sem beint er til mín á þskj. 111 er svohljóðandi:

„Hvað líður framkvæmd þál. þeirrar sem samþykki var á Alþingi 21. maí 1981 þar sem ríkisstj. var falið að láta hraða undirbúningi þess að koma á samræmingu og hagræðingu hjá þeim aðilum sem annast mat og skráningu fasteigna í landinu?“

Það er skemmst frá því að segja að í þessu máli hefur ekkert skeð fyrr en þessi ríkisstj. tók við völdum og félmrh. með samþykki ríkisstj. skipaði nefnd til að endurskoða matskerfi Fasteignamats ríkisins og brunabótamat, uppbyggingu þeirra og framkvæmd. Réttara hefði því verið að félmrh. svaraði fsp. þessari. En félmrh. skipaði þann 9. ágúst 1983 eftirtalda menn í nefnd þessa: Garðar Sigurgeirsson viðskiptafræðing, tilnefndan af Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Guttorm Sigurbjörnsson forstjóra, tilnefndan af Fasteignamati ríkisins, Héðin Emilsson deildarstjóra, tilnefndan af Samvinnutryggingum, Inga R. Helgason forstjóra, tilnefndan af Brunabótafélagi Íslands, Kristin Á. Guðmundsson deildarstjóra, tilnefndan af Húsatryggingum Reykjavíkurborgar og Pétur Stefánsson verkfræðing, formann nefndarinnar. Félmrh. skilgreinir verksvið nefndarinnar í skipunarbréfi þannig:

„Verkefni nefndarinnar í sambandi við endurskoðun matskerfis fasteignamats og brunabótamats er einnig að gera till. um að samræma grundvöll matsins. jafnframt hvernig mögulegt er að eitt matskerfi gildi fyrir allar fasteignir í landinu til afnota fyrir almennar upplýsingar um fasteignir, vegna fasteignagjalda, brunatrygginga, kaups og sölu, lántöku o.fl. Nefndin skal hraða störfum eftir því sem kostur er.“

Nefndin tók fljótlega til starfa og hefur samkvæmt upplýsingum forstjóra Fasteignamats ríkisins haldið milli 35 og 40 bókaða fundi. Auk þess hafa nefndarmenn hver á sínu sviði aflað mikilla upplýsinga til úrvinnslu við tillögugerð. Formaður hefur boðað á fund nefndarinnar fjölda aðila, sem á einhvern hátt hafa not af skráningu og/eða mati fasteigna við starfsemi sína. ef fá mætti heildarmynd af þörfum einstakra starfsgreina á þessu sviði. Grg. nefndar þessarar til félmrh. er að vænta alveg á næstunni samkvæmt upplýsingum forstjóra Fasteignamats ríkisins.

Ég hef ekki meira um þetta að segja annað en það að ég vil undirstrika að þessi þáltill., sem gerir ráð fyrir þeirri framkvæmd sem ég hef nú lýst, var samþykkt á Alþingi 21. maí 1981, en það er ekki fyrr en þessi ríkisstj. kemur til starfa sem framkvæmdir hefjast.