11.06.1985
Neðri deild: 92. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6293 í B-deild Alþingistíðinda. (5724)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég varð fyrir allmiklum vonbrigðum við framlagningu fjárlagafrv. fyrir þetta ár. Þar voru litlar upphæðir inni í nokkur ár til mengunarvarna, og var þeim skipt af heilbr.- og trmrh., ekki til neinna stórra verkefna, heldur rétt til þess að liðka fyrir nokkrum verksmiðjum sem voru nokkuð langt á veg komnar með mengunarvarnir. Þetta mál er mikilvægt og það er alveg rétt, sem síðasti ræðumaður sagði, að þetta er langmesta vandamálið á Austfjörðum. En fjmrh. og ríkisstj. hafa ekki gert tillögur um að leggja þarna fram háar upphæðir. Það sem stendur í mönnum er að það sé varla hægt að fá meira af innlendu lánsfé en þegar er komið í lánsfjáráætlunina. Því er ekki, því miður, stuðningur við þessa till.