06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (573)

107. mál, skráning og mat fasteigna

Fyrirspyrjandi (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær upplýsingar sem komu fram í svari hans við fsp. á þskj. 111. Það er ánægjulegt að heyra að nú er loks tekið að framkvæma þá till., sem samþykkt var fyrir þremur árum hér á þingi, og að núverandi ríkisstj. hefur látið það verða eitt af sínum fyrri verkum að hefja þá framkvæmd.

Hér er um nauðsynjamál að ræða, eins og ég vék að í orðum mínum hér áðan þegar ég kynnti þessa fsp. Hér er mál sem gæti horft til verulegs sparnaðar og einföldunar á sviði sem mikilvægt er þar sem það snertir allar fasteignir landsmanna í bæ og í byggð.

Það var ætlunin með flutningi þáltill. að koma hér á nýju og betra skipulagi og það var ætlunin með því að bera fram þessa fsp. að ítreka þann tilgang, ekki síst ef það mætti horfa til sparnaðar og hagræðingar, en það eru tvö atriði sem ég veit að hæstv. fjmrh. eru sérlega hugleikin.