11.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6298 í B-deild Alþingistíðinda. (5733)

Almennar stjórnmálaumræður

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti.

Ágætu tilheyrendur. Eldhúsdagsumræður frá Alþingi í dag, 11. júní, eru um margt óvenjulegar. Ekki er enn séð fyrir um þinglok enda þótt þing hafi nú staðið lengur en nokkru sinni fyrr. Fjöldi mála er nú meiri en áður og því miður hefur umræða um mál sem hafa ekki afgerandi þýðingu fyrir þjóðfélagið í heild tekið miklu meira af tíma þingsins en æskilegt er og þannig tafið framgang þýðingarmestu mála sem þurfa mikla umfjöllun. Ég tel að samþykkt nýrra þingskapalaga hafi jákvæð áhrif á þinghald og löggjafarstarf hér eftir og fagna þeim áfanga í starfi Alþingis.

Eitt af aðalmarkmiðum ríkisstj. var að vinna að því að brjótast út úr vítahring verðbólgunnar svo unnt væri að tryggja grundvöll atvinnulífsins, koma í veg fyrir atvinnuleysi. Stjórnarandstaðan fullyrti að þessum markmiðum gæti núv. ríkisstj. aldrei náð. Hér yrði bullandi atvinnuleysi og efnahagshrun. En hver er svo staðreyndin?

Ríkisstj. tók við ástandi þjóðmála þar sem verðbólgan hafði náð 130% árshraða á tímabilinu febrúar til maí 1983 og stöðvun atvinnuveganna blasti við. Í dag er verðbólgan að vísu um 25%, en atvinnuleysi í algeru lágmarki. Skv. yfirliti um atvinnuástandið í maí s. l. var atvinnuleysi hér á landi aðeins 0.6%. Á sama tíma ganga tugir milljóna manna í aðildarlöndum OECD atvinnulausir, mestmegnis ungt fólk. T. d. var atvinnuleysi í Bretlandi fyrstu mánuði þessa árs 13.2%, Írlandi 18%, Vestur-Þýskalandi 9.7%, Finnlandi 6.4, Danmörku 10.2 og í Bandaríkjunum 8.5%. Við hér á Íslandi höfum sem betur fer algera sérstöðu þar sem hér á landi hefur tekist að halda uppi fullri atvinnu. Það er vissulega tímabært að minna þjóðina á þessa jákvæðu staðreynd, ekki síst nú þegar reynt er að gera alla umræðu neikvæða á sem flestum sviðum þjóðlífsins.

Atvinnuleysi er mesta böl þjóða. Meðan okkur Íslendingum tekst að haga málum svo að allar vinnufúsar hendur hafi nóg að starfa er full ástæða til að gleðjast og viðhalda bjartsýni á lífið og tilveruna. Ég vil minna á að Alþingi hefur nú samþykkt ný lög um vinnumiðlun og ný lög um ríkisábyrgð á laun. Hvor tveggja þessi lög eru mikilvægur hlekkur í málefnum vinnumarkaðarins hér á landi bæði fyrir launþega og atvinnurekendur. Vænti ég að gott samstarf takist um framkvæmd þessara laga. Ég ætla ekki hér og nú að ræða horfur um samkomulag aðila vinnumarkaðarins um kaup og kjör sem fram undan eru. En ég vona einlæglega að allir aðilar átti sig á þeirri brýnu nauðsyn að samkomulag náist á breiðum grundvelli, tryggi raunverulegar kjarabætur án þess að efnahagskerfið fari úr skorðum og óðaverðbólga taki við.

Við erum væntanlega öll sammála því sjálfsagða markmiði að vernda kaupmátt lægstu launa og lífskjör þeirra sem þyngst framfæri hafa og semja þannig að það fólk sem vinnur við aðalframleiðslustörf þjóðfélagsins beri ekki sífellt skertan hlut frá borði. Gerum þessi markmið að aðalatriðum í komandi viðræðum og samningum.

Sá málaflokkur félagsmála, sem mest hefur verið fjallað um í fjölmiðlum og hér á hv. Alþingi undanfarin misseri, eru húsnæðismál. Oft hefur sú umræða verið háð meira af kappi en forsjá og reynt að færa hana í neikvæðan farveg. Frá því að núv. ríkisstj. var mynduð hefur þessi málaflokkur haft vissan forgang og verið lögð áhersla á að auka fjármagn og leita leiða til lausnar á vanda húsbyggjenda og kaupenda húsnæðis. Aðkoman að þessum málaflokki var því miður allt annað en glæsileg í maí 1983. Verðbólgan komin í 130%, fjármagn ekki til útlána, hlutfall lána aðeins 13–15% miðað við staðalíbúð. Vegna augljósra vandræða fjölda fólks voru fyrstu viðbrögð okkar í ríkisstj. 1983 að setja brbl. um frestun hluta greiðslu afborgana vaxta og verðbóta sem þýddi í raun lengingu lána.Yfir 3000 aðilar notfærðu sér þessa aðgerð. Ríkisstj. gerði samkomulag við viðskiptabanka og sparisjóði um sérstök skuldbreytingalán til húsbyggjenda, allt að 8 ára lán. Þessi skuldbreyting 1983 nam 150–160 millj. kr. Ríkisstj. ákvað að veita sérstök viðbótarlán til að létta vanda húsbyggjenda og húskaupenda afturvirkt 1981–1983 með því að hækka afgreidd lán á þessu tímabili um 50%. Tæplega 5000 lántakendur fengu útborguð þessi 50% viðbótarlán í des. 1983 og jan. 1984, samtals 303 millj. kr. Þetta eru aðgerðir sem ríkisstj. framkvæmdi 1983, sem ekki hafði verið reiknað með að þyrfti að gera í sambandi við fyrstu efnahagsaðgerðir.

Til viðbótar þessu samþykkti ríkisstj. að frá og með 1. jan. 1984 skyldu öll lán frá Byggingarsjóði ríkisins hækka um 50%, nýbyggingarlán til þeirra sem byggja eða kaupa í fyrsta sinn greidd í tveim hlutum, sem þýddi í raun helmings flýtingu lána til þessara aðila, og um leið hækkun lánshlutfalls úr 13–14% miðað við staðalíbúð í 30%.

Ný húsnæðislög voru sett sem tóku gildi 1. júlí 1984. Ýmis mikilvæg nýmæli eru í þessum lögum sem ég lýsi ekki hér. M. a. var lánstími lengdur, gjalddögum fjölgað og fjármögnun verulega bætt þar sem lögin gera ráð fyrir 40% framlagi frá ríkissjóði að samþykktri útlánaáætlun. Hefur framlag ríkissjóðs þegar margfaldast miðað við það sem áður var, t. d. 1980–1982. Á milli áranna 1983 og 1984 tvöfaldaðist fjármagnið að raungildi. 1983 var lánað út 1 milljarður 640 millj., 1984 2 milljarðar 568 millj. Í ár verða til útlána úr byggingarsjóðunum tæpir 3 milljarðar kr.

Vegna hinnar miklu verðbólgu sem náði hámarki 1982–1983 var augljóst að misgengi milli lánskjaravísitölu og launa var orðið gífurlegt vandamál fyrir húsbyggjendur og kaupendur húsnæðis, ekki síst hjá þeim er skulduðu stórar fjárhæðir til stutts tíma með fullri verðtryggingu. Þetta misgengi er fyrst og fremst þeim þungt í skauti er fjárfestu 1981–1983. Þetta misgengi var tiltölulega lítið 1984 þegar aðgerðir ríkisstj. við að ná niður verðbólgunni komu í ljós. Vegna þessa augljósa greiðsluvanda fólks ákvað ríkisstj. að tillögu félmrh. að gera ákveðnar ráðstafanir til að létta vanda þessa fólks.

Stofnaður var nýr útlánaflokkur við Byggingarsjóð ríkisins sem lánar viðbótarlán og var reiknað með að til þessara aðgerða færu 200 millj. kr. Jafnhliða var sett upp ráðgjafarþjónusta við stofnunina sem tæki við umsóknum og veitti allar upplýsingar og leiðbeiningar. Samið var við banka og sparisjóði um að taka þátt í þessari aðgerð með aðild að ráðgjafarþjónustunni, sem miðast við að þessir aðilar skuldbreyti þannig að viðkomandi fái fullviðunandi fjármálalega lausn síns vanda.

Ég vil geta þess að þessi ráðgjafarþjónusta og aðgerð hefur tekist miklu betur en við þorðum að vona. Farið var á helstu þéttbýlisstaði landsins á skipulegan hátt. Þann 1. júní s. l. höfðu ráðgjafarþjónustunni borist 2000 umsóknir. Búið er að afgreiða með viðbótarlánum og fyrirgreiðslu viðkomandi banka og sparisjóða tæplega 1000 umsóknir að fjárhæð rúmlega 100 millj. kr. úr Húsnæðisstofnun. Reiknað er með að um miðjan næsta mánuð verði lokið við að afgreiða allar umsóknir. Þessi ráðgjafarþjónusta hefur sannað þörfina á slíkri þjónustu við fólk sem ætlar að fjárfesta í húsnæði. Í mörgum tilfellum hefði slík þjónusta komið í veg fyrir vandamál sem fólk á nú við að stríða. Hef ég því ákveðið að slík ráðgjafarþjónusta verði fastur liður í starfsemi Húsnæðisstofnunar ríkisins. Er stjórn stofnunarinnar nú að ganga frá skipulagi fyrir þá starfsemi.

Ég vil lýsa ánægju minni með framtak aðila á Suðurnesjum sem stofnað hafa slíka ráðgjafarþjónustu á því svæði með aðild Húsnæðisstofnunar. Hér er um að ræða launþegafélögin á Suðurnesjum, lífeyrissjóði og alla banka og sparisjóði á svæðinu. Þetta er til fyrirmyndar og á áreiðanlega eftir að hafa jákvæð áhrif í þessum mikilvæga málaflokki.

Félmrh. fól sérstakri nefnd, sem hefur það verkefni að kanna fasteignamarkaðinn og fasteignaviðskipti, að gera tillögur um leiðir til að jafna greiðslubyrði af fasteignaveðlánum einstaklinga. Þessi nefnd skilaði áfangaskýrslu um slíka greiðslujöfnunarleið til ráðherra 22. febr. s. l. og var hún kynnt rækilega í fjölmiðlum. Á grundvelli þessara hugmynda nefndarinnar lét ráðherra semja frv. til l. um greiðslujöfnun fasteignaveðlána til einstaklinga sem lagt var fyrir ríkisstj. 7. mars s. l. Í viðræðum ríkisstj. við fulltrúa ASÍ var síðan skipaður samstarfshópur sem m. a. féllst á þessa greiðslujöfnunarleið. Hefur þetta frv. nú hlotið afgreiðslu hér sem lög frá Alþingi.

Með frv. þessu er boðuð ný stefna í verðtryggingu húsnæðislána. Frv. byggir á svonefndri greiðslujöfnun fasteignaveðlána sem felst því að endurgreiðslur húsnæðislána eru tengdar launabreytingum. Tilgangur frv. er þannig að fyrirbyggja að greiðslubyrði vegna húsnæðislána þyngist ef misgengi skapast milli hækkunar lánskjaravísitölu og hækkunar launa og/eða vegna hækkunar raunvaxta. Ef laun hækka minna en lánskjaravísitala er hluta endurgreiðslu lánsins frestað þar til laun hækka á ný umfram lánskjaravísitölu. Í ákvæði til bráðabirgða er greiðendum verðtryggðra lána gefinn kostur á að fresta greiðslum afborgana og vaxta, verðbóta á næsta heila ári og gildir þetta um lán sem tekin voru fyrir 1. mars 1982. Umsóknir þurfa að berast Húsnæðisstofnun fyrir 1. sept. 1985, en stofnunin skal auglýsa reglur fyrir 15. júlí n. k. Þessi nýju lög taka aðeins til Byggingarsjóðs ríkisins. Leitað verður samninga við aðrar lánastofnanir. Lífeyrissjóðir hafa þegar samþykkt að veita lántökum þessa fyrirgreiðslu, sem er mjög mikilvægt atriði. Ég trúi því að bankar og sparisjóðir muni láta sínum viðskiptavinum þessa fyrirgreiðslu í té.

Til þess að mæta þeim ráðstöfunum sem ég hef nú lýst var ljóst að það vantaði fjármagn að fjárhæð 300–400 millj. kr. Ríkisstj. var sammála um að afla þessa fjármagns með skatttöku þar sem erlend lántaka kæmi ekki til greina.

Eins og alþjóð veit hafa miklar umræður farið fram um húsnæðismálin. Athyglin hefur fyrst og fremst beinst að aukinni greiðslubyrði fólks. Það er ekki nema gott um það að segja að opin umræða fer fram um þessi mál. Eftir gildistöku nýrra laga um húsnæðismál hefur Húsnæðisstofnun í samráði við félmrn. unnið að reglugerðum og nýjum hugmyndum um framkvæmd laganna, sem nú eru smátt og smátt að koma til framkvæmda. M. a. eru nú komnar í gildi nýjar reglur um stærðarmörk íbúða. Ákveðið er að lán verði eftirleiðis aðeins veitt sama aðila tvisvar og þeir sem byggja eða kaupa í fyrsta sinn fá forgang að lánsfé. Búið er að ákveða að lán til kaupa á notuðu húsnæði hækki í áföngum. Á fyrsta ársfjórðungi næsta árs verða slík lán 50% af nýbyggingarláni. Þá er verið að móta tillögur um sérstakan lánaflokk til útlána til íbúða aldraðra sem yrði lán til fárra ára.

Við höfum kallað þessa nýju stefnu húsnýtingarstefnu. Jafnframt er unnið að langtímaáætlun um íbúðarhúsnæði til næstu 10–15 ára. Um leið og athugaðar eru ýmsar leiðir til að bæta húsnæðislánakerfið er brýnast að mínu mati að móta aðgerðir til að lækka byggingarkostnað. Hann er of hár hér á landi. Ég tel að ný tækni í byggingariðnaði hafi ekki skilað sér nægjanlega til lækkunar á byggingarkostnaði. Að þessu þarf að huga.

Fyrir næsta þing verður tekin ákvörðun um á hvern hátt ákvæði skattalaga um vaxtafrádrátt vegna húsnæðisöflunar verður breytt. Það er alveg ljóst að þetta ákvæði núgildandi laga nýtist ekki fjölda framteljenda. Ýmsar hugmyndir hafa komið fram m. a. um sérstakan húsnæðisafslátt, endurgreiðslu á söluskatti til húsbyggjenda og í sambandi við tekjuskattslækkun. Næsta ár verður þetta að liggja ljóst fyrir.

Góðir áheyrendur. Ég hef notað tíma minn að mestu til að ræða húsnæðismálin, ekki til að deila á einn eða neinn heldur til að upplýsa þessi mál. Húsnæðismálin eru einn mikilvægasti málaflokkur í okkar kalda landi. Við verðum að byggja vandað húsnæði. Um 80–90% þjóðarinnar vilja eiga sína íbúð. Hins vegar er alveg ljóst að við þurfum að byggja hentugar leiguíbúðir í meira mæli en hingað til. Þar þurfa til að koma sveitarfélög og samtök ýmiss konar. Við þurfum að vinna markvisst að því að byggja upp fjármagnskerfi húsnæðismála sem gerir öllum Íslendingum kleift að velja það húsnæðisform sem þeir vilja búa við og geta ráðið við á hverjum tíma.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég vekja athygli á málefnum fatlaðra. Alþingi hefur nú tekið ákvörðun um fyrsta skref að Greiningarstöð ríkisins og að hún skuli taka til starfa í Kjarvalshúsi. Undirbúningur í sambandi við þessa ákvörðun er nú hafinn. Þetta er mikilvæg ákvörðun til framgangs málefnum fatlaðra sem ber sérstaklega að fagna.

Þá vil ég einnig vekja athygli á þörf aðgerða til að auðvelda fötluðum, hreyfihömluðum, aðkomu að byggingum í landinu, ekki síst opinberum byggingum. Um þetta eru í gildi sérstök lög og reglugerðir. Ég skora á opinbera aðila, stjórnvöld og almenning að taka hér til hendi, sveitarstjórnir að gera áætlanir um breytingar á húsnæði í þessu skyni. Það er vissulega til vansæmdar fyrir okkur sem þjóð ef við tökum ekki á í þessu máli. Ég heiti á þjóðina að líta í kringum sig og leysa þetta mál.

Í dag eru merkileg tímamót hér á landi. Samband ísl. sveitarfélaga á 40 ára afmæli í dag. Samband sveitarfélaga hefur með starfi sínu haft mikil áhrif og markað djúp spor til heilla og framfara í þjóðfétagi okkar þessi 40 ár. Ég hef oft sagt að sveitarfélögin og samtök þeirra séu best fær um að tryggja framfarir og búsetuöryggi í landi okkar í nútíð og framtíð. Ég flyt Sambandi ísl. sveitarfélaga og sveitarfélögum í landinu bestu heillaóskir í tilefni þessara tímamóta.

Ég þakka áheyrnina.