11.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6307 í B-deild Alþingistíðinda. (5736)

Almennar stjórnmálaumræður

Svavar Gestsson:

Gott kvöld, góðir Íslendingar. „Þeir hugsa of mikið um eigið skinn en ekki fjöldann.“ Þetta er orðrétt tilvitnun í Steingrím Hermannsson þegar hann var að ræða við Morgunblaðið á dögunum. Um hverja var hann að tala? Var hann að tala um Seðlabankann? Nei, auðvitað var hann ekki að tala um Seðlabankann. Var hann að tala um Verslunarráð Íslands? Nei, auðvitað var hann ekki að tala um Verslunarráð Íslands, vegna þess að þaðan tekur ríkisstj. stefnu sína. Voru það kannske bankarnir eða okurlánasjoppurnar sem nú eru í umboði ríkisstj. að féfletta húsbyggjendur á nauðungaruppboðunum, bændur og útvegsmenn? Nei, auðvitað ekki, því að með því hefði forsrh. hitt sjálfan sig og stefnu sína fyrir.

Nei, vissulega var forsrh. landsins ekki að skamma þessa þröngu sérhagsmunaliópa sem ráða Íslandi þessa dagana. Forsrh. og formaður Framsfl. var hins vegar að tala um bændur. Það eru þeir sem hugsa um sína eigin þröngu hagsmuni en ekki um fjöldann. Og það er athyglisvert hvernig Framsfl. hefur fjarlægst uppruna sinn í tíð núv. ríkisstj. Hann lætur allt falt fyrir ráðherrastólana, svo gjörsamlega að þegar formaður Framsfl. loksins byrstir sig, þá ræðst hann gegn bændum og þar með í rauninni öllum þeim sem búa við svipaðar aðstæður vegna stjórnarstefnunnar, húsbyggjendum og framleiðsluatvinnuvegum.

Og það eru fleiri, herra forseti, sem fá kaldar kveðjur frá ríkisstj. þessa dagana. Fellt er frv. Guðmundar J. Guðmundssonar um kauptryggingu verkafólks. Þar með afhjúpaði ríkisstj. stéttareðli sitt. Frv. var þó allt í senn: byggðamál, jafnréttismál og mannréttindamál. Jafnréttismál vegna þess að meginhluti starfsfólks í fiskiðnaði eru konur, mannréttindamál vegna þess að flestir hópar í landinu hafa þegar fyrir löngu tryggt sér lögvarinn eða samningsbundinn rétt andspænis fyrirvaralausum uppsögnum, en byggðamál vegna þess að meiri hluti fiskvinnslunnar fer fram á landsbyggðinni. Öryggisleysið í fiskverkunarhúsunum er ein meginástæða fólksflóttans utan af landi.

Framleiðslan er vissulega undirstaða lífskjaranna og framleiðslan getur aldrei gengið ef verkafólkinu er sýnd fyrirlitning eins og sú sem nú birtist í siðlausum kauptöxtunum. Þessi láglaunastefna hittir fyrir alla þá sem síst skyldi.

Um þessar mundir eru fóstrur að ganga út af dagheimilum Reykjavíkurborgar. Þar eru mannaskipti svo ör að þess eru dæmi að sama barnið hafi haft yfir sér tólf starfsmenn s. l. níu mánuði. Kennarar eru að hverfa frá störfum vegna lágra launa. Þannig er vegið að hvarvetna, framleiðslustéttirnar að gefast upp, húsbyggjendur að missa íbúðarholurnar sínar, bændur að yfirgefa sveitirnar, uppeldis- og menntakerfið í upplausn.

En á sama tíma og þetta gerist vaða afturhaldsöflin yfir landið með hroka og stærilæti sem aldrei fyrr. Stuttbuxnadeildin í Sjálfstfl. æðir hér um þingsali með forsrh. í tjóðurbandi og það ber ekki á minnstu viðleitni framsóknarforustunnar til þess að streitast á móti. Stuttbuxnadeildin beitir sér fyrir tugmilljónagjöfum úr sjóðum borgarbúa í Reykjavík til gæðinga íhaldsins á sama tíma og útsvör í Reykjavík eru hærri en nokkru sinni fyrr og borgarstjórnin ákveður nú að afhenda þekktri íhaldsfjölskyldu Bæjarútgerð Reykjavíkur. Þannig eru dæmin utan endis.

Og spurningin er, góðir hlustendur: Vill þjóðin hafa þetta svona eða er ekkert við þessu að gera? Er það óhjákvæmilegt að launin verði jafnlág til frambúðar og þau eru nú, 25–30% lægri en þegar ríkisstj. tók við? Er það kannske óhjákvæmilegt að vextir séu okurháir áfram, eins og ákveðið var af ríkisstj. í fyrra og nú er allt að drepa?

Ránvaxtastefnan var innleidd að kröfu Alþfl. og það er hún sem er auk lágu launanna stærsta efnahagsvandamálið á Íslandi í dag. Er óhjákvæmilegt, góðir hlustendur, að aldraðir á Íslandi búi við næringarskort? Er óhjákvæmilegt að frystihúsin lokist vegna þess að þar er greitt allt of lágt kaup? Er það óhjákvæmilegt að kennarar, fóstrur og aðrar uppeldisstéttir hafi lág laun og flýi starfsgreinina?

Nei, góður hlustandi, svo er ekki. Ekkert af þessu er óhjákvæmilegt. En það er vísvitandi stefnt að því á Íslandi um þessar mundir af þeim sem ráða að brjóta niður félagslega.þjónustu og félagsleg viðhorf til þess að geta komið upp einkaskólum, einkadagheimilum og einkasjúkrahúsum. Það er pólitík sem þessu ræður, trúarofstæki frjálshyggjunnar sem veður hvarvetna uppi í þessu landi um þessar mundir, en einn helsti hugmyndafræðingur hennar lagði til fyrir nokkru að sala á eiturlyfjum yrði gefin frjáls, eins og það var orðað. En frelsi þeirra þýðir áþján fjöldans.

En þá skuluð þið, góðir hlustendur, gera ykkur ljóst að með því að kjósa íhaldið eru menn að kjósa nauðungaruppboðin á íbúðum og skipum, kjósa niðurskurð í skólakerfinu, kjósa lágt kaup, kjósa vaxtaokrið, kjósa byggðaeyðingu. Það er kominn tími til þess að fólk átti sig á samhengi atkvæðis síns og valdsins í landinu. Þeir sem styðja íhaldið eru að kjósa gegn eigin hagsmunum fyrir utan fámenna forustuklíku í Verslunarráðinu.

Eða er það kannske þetta þjóðfélag, sem ég hef hér verið að lýsa, sem fólkið vill? Er það þjóðfélag þar sem húsnæðismálin eru rædd við geðlækna, þar sem valdastéttin greiðir sjálfri sér nefndalaun, ráðgjafarlaun og starfsmannalaun sem eru margföld miðað við kauptaxta? Vill fólkið aukið misrétti, þar sem hinir ríku verða ríkari og hinir fátæku verða fátækari? Ég hef enga trú á því að svo sé og ég bendi á hliðstætt dæmi.

Í verkfalli BSRB stóðu menn hlið við hlið úr öllum stjórnmálaflokkum. Enginn lét sér til hugar koma að bregðast félögum sínum og brjótast af verkfallsvaktinni né fremja verkfallsbrot. En stuðningur við íhaldið er hliðstæður vegna þess að stuðningur við íhaldsöflin jafngildir árás á eigin hagsmuni yfirgnæfandi meiri hluta þjóðarinnar. Hvaða flokkur ætli það sé sem hefur lagt sig fram um að berjast gegn stjórnarstefnu leiftursóknarinnar? Ætli það sé Alþfl. sem með glamri og töfrabrögðum hefur dregið að sér athygli að undanförnu? Nei, því miður, vegna þess að stefna formanns Alþfl. er svo lík stefnu íhaldsins að flokkarnir geta fyrirvaralaust runnið saman í ríkisstj. strax eftir næstu kosningar.

Ætli það séu nýju flokkarnir? Hafa þeir breytt einhverju í þágu félagslegra sjónarmiða? Nei, því miður. Þvert á móti bendir allt til þess að sundrung félagshyggjufólks sé ein meginástæðan fyrir stórsókn afturhaldsins á öllum sviðum, m. a. sérstaklega gegn hagsmunamálum kvenna. Staða þeirra hefur vissulega ekki batnað, heldur versnað. Eini stjórnmálaflokkurinn í landinu sem getur myndað mótvægi við íhaldsöflin og framsókn hægri aflanna er Alþb. Það er sama hvort um er að ræða kjaramál, þjóðfrelsismál eða menningarmál, hvað eina sem nefnt er. Alls staðar eru ýtrustu andstæðurnar milli íhaldsins og Alþb. Það er lífsnauðsyn fyrir þjóðfélagið að þetta jafnvægi sé afdráttarlaust og það er kjósenda að gera það upp við sig hvort þeir kjósa nauðungaruppboð leiftursóknarinnar, miðjumoðið eða félagsleg sjónarmið Alþb.

Og við höfum bent á færar leiðir. Við höfum flutt ítarlegar tillögur um efnahagsmál, kaupmáttartryggingu, um húsnæðismál og um hvers konar menningarmál, en þau eru líka hluti af lífskjörum okkar. Við höfum sýnt fram á það að þjóðin þarf ekki að una þeim afarkostum sem stjórnvöld skammta alþýðuheimilunum í landinu. Við neitum því að skorturinn taki öll völd á heimilunum um leið og stjórnarherrarnir vaða svo hér um með hroka. Hefur það gerst iðulega í vetur að þingið hefur verið stjórnljóst vegna innbyrðis deilna stjórnarflokkanna. Þetta kærkomna tækifæri hafa þm. úr öllum flokkum notað til þess að ná samstöðu um veigamikil mál, utanríkismál, húsnæðismál, jafnréttismál, þar sem alls staðar hefur náðst verulegur árangur og alls staðar hefur verið lýst vantrausti á þá ráðh. sem með viðkomandi málaflokka fara.

Hér í þinginu var fellt frv. um sölu á Sementsverksmiðju ríkisins. Þessi mál og málatilbúnaður stjórnarandstöðunnar í vetur og heilleg tillögugerð Alþb. í flestum málaflokkum hafa litla athygli vakið vegna þess að fréttamennirnir hafa aðallega sagt frá bjórumræðum hér á þinginu. Það segir að mínu mati meira um fréttamennina en um þingmennina.

Herra forseti. Nú standa yfir samningar um kaup og kjör verkafólks í landinu. Vinnuveitendasambandið hefur boðið upp á kjarasamninga sem í raun myndu festa láglaunastefnuna í sessi til frambúðar. Það er háskalegt. Samningur án kaupmáttartryggingar er ekki mikils virði eins og dæmin sanna. Þess vegna hefur Alþb. markað þá meginafstöðu sína að kaupmáttartrygging hljóti að vera úrslitaatriði. Núverandi kaupstig er óþotandi og niðurlægjandi um leið og það er efnahagslega fráleitt. Á miðstjórnarfundi Alþb. nýlega sýndu þrír ungir hagfræðingar fram á það að lágu launin eru aðalefnahagsvandamálið á Íslandi því að þau leiða til stöðnunar þegar fram í sækir þegar kaupstig er miklu lægra en í samkeppnislöndum okkar.

Alþb. telur það eitt meginverkefni íslenskra stjórnmála nú að byggja upp sterkt mótvægi við íhaldið, afl sem getur barist við hlið verkalýðshreyfingarinnar, afl sem getur sótt fram til nýrra og betri lífskjara. Við viljum fá fólkið til að líta upp úr bónuskúguninni og vinnuþrældómnum og gera sér grein fyrir því að þrátt fyrir vaxandi vandamál sem núv. ríkisstj. er um að kenna eru verulegir möguleikar til á flestum sviðum. Við verðum auðvitað að gera okkur ljóst að stórfelld erlend skuldasöfnun má ekki eiga sér stað. Og við verðum líka að koma í veg fyrir að gengið verði á höfuðstól lífrænna auðlinda okkar.

En þrátt fyrir þetta er unnt að benda á möguleika til verulega aukinnar þjóðarframleiðslu. Ég nefni fjögur dæmi:

1. Með því að nýta framleiðslufjármuni betur en nú er gert, hvort sem er í verslun, sjávarútvegi, landbúnaði eða iðnaði, má auka þjóðarframleiðslu um 10–15% að mati færustu hagfræðinga okkar, en það jafngildir 1012 milljörðum króna á ári.

2. Með því að leggja áherslu á rannsóknir og vöruþróun og hvers kyns nýtækni, sem byggist m. a. á hámenntun, hugviti okkar og reynslu, má tryggja hér stórstígar framfarir. Talið er raunsætt að 18 þúsund störf geti orðið í nýjum iðngreinum hér á landi eftir aðeins 15 ár, þar með talinn svonefndur upplýsingaiðnaður.

3. Með því að fullvinna sjávaraflann betur en nú er gert má gera ráð fyrir því að unnt sé að auka útflutningsverðmæti hans um þriðjung. Samhliða slíkri breytingu þarf að eiga sér stað skipulagsbreyting í sjávarútveginum þar sem fiskverkunarfólkinu eru tryggð mannsæmandi laun, fast mánaðarkaup og atvinnuöryggi og almenn mannréttindi, ekki lakar en tíðkast í öðrum atvinnugreinum.

4. Margt bendir til þess að Íslendingar eigi stórfellda möguleika í fiskeldi. Össur Skarphéðinsson ritstjóri er einn þeirra ungu sérfræðinga sem fjalla um þessi mál. Hann segir í blaði okkar nú um helgina að gera megi ráð fyrir allt að 11 milljörðum króna í útflutningsverðmæti í þessari grein, en það er meira en allt verðmæti þorskafurða.

Hér hafa verið nefnd fjögur dæmi sem sýna að það er unnt að tryggja miklu betri efnahagsleg lífskjör en nú er um að ræða hér á landi. Stjórnvöld landsins þurfa hins vegar að hætta að hlaupa á eftir erlendum stórfyrirtækjum um allar jarðir með orku á útsölu eins og nú er gert. Í staðinn eigum við að einhenda okkar í að hagnýta til fulls nýjar atvinnugreinar sem byggjast á þekkingu og hugviti, reynslu okkar í aldir og hámenntun af hvaða tagi sem er.

Fyrsta skilyrðið er að búa vel að almennri menntun og skólum í landinu sem skapa grunninn að hvers konar vísindastarfi og rannsóknum sem markvisst vinni í þessa átt að raunverulegri nýsköpun verðmæta. Við nýtingu þessara möguleika má ekki láta neinar kreddur ráða, hvorki um rekstrarform né almennar fjármögnunaraðferðir. Við eigum einfaldlega að hagnýta þá möguleika sem bestir bjóðast. Við eigum að verja verulegum fjármunum til að leita að þessum möguleikum og til þess að finna þá.

Núv. ríkisstj. gerir allt sem hægt er til að koma ríkinu út úr atvinnurekstri. Þó er ljóst að meiri háttar átak á þessum sviðum mun ekki eiga sér stað nema með forustu og þátttöku ríkisvaldsins. Það þarf ekki að þýða að ríkið eigi öll fyrirtæki, fjarri fer því. Aðalatriðið er að stjórnvöld nálgist vandamálin opnum huga en ekki á grundvelli kreddusjónarmiða eins og nú er gert og birtist í allsherjarsölu ríkisfyrirtækja og í leit að erlendum samstarfsaðilum í stóriðnaði. Það virðist vera það eina sem ríkisstj. hefur til málanna að leggja í þessum efnum.

Lýðræði á vinnustöðum á að vera hornsteinn nýrrar sóknar í atvinnu- og efnahagsmálum og lýðræði í byggðarlögunum sjálfum þar sem sköpuð er ný byggðastefna sem sækir líf sitt til fólksins sjálfs, sjómanna, bænda og verkamanna.

Góðir hlustendur. Ef við hagnýtum okkur nýja tækni hámenntunar og hugvits og kosti lýðræðisins út í æsar getum við gert okkur vonir um að eignast nýtt Ísland, frjálst og fullvalda, þar sem lífskjörin eru ekki einasta sambærileg við það sem gerist í grannlöndum okkar, heldur betri. Þannig yrði vinnutíminn styttri hér á landi en nú er, húsnæði ódýrara og hamingjan á heimilunum yrði ekki aðeins í skoðanakönnunum Seðlabankans. Við þurfum að leggjast á eitt. Fyrst er að safna liði og koma ríkisstjórn ríka fólksins frá, en jafnframt að berjast og standa saman um sterkan stjórnmálaflokk eins og Alþb., sem ætlar að beita sér fyrir því sem við hljótum öll að leggja áherslu á og yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar á að geta átt samstöðu um. Það er nýtt Ísland jafnréttis og lýðræðis, þjóðfélag þar sem frelsi allra einstaklinga er í hávegum haft en ekki aðeins þeirra sem eiga fjármagn.

Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.