11.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6311 í B-deild Alþingistíðinda. (5737)

Almennar stjórnmálaumræður

Kristín Ástgeirsdóttir:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Eftir viku verða sjötíu ár liðin frá því að íslenskar konur öðluðust kosningarrétt og kjörgengi til Alþingis. Jafnframt er lokaár kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna að verða hálfnað en kjörorð hans er: Jafnrétti, þróun og friður.

Það er því tvöföld ástæða til að velta því fyrir sér hvernig heimurinn og það samfélag sem við lifum í hungur sveltandi fólks, til heilsugæslu og menntunar en stuðlað að jafnrétti þegnanna og bættum hag kvenna, hvernig hefur verið unnið að þróun okkar sjálfra og hins stóra heims og hvað hafa Íslendingar lagt af mörkum til varðveislu friðar í heiminum? Spyrjum fyrst um frið.

Þessa dagana er verið að safna undirskriftum allra kvenna landsins undir ávarp sem afhenda á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í Nairobi í Kenýa í sumar. Í ávarpi þessu segir m. a., með leyfi forseta:

„Við viljum undirbúa jarðveg friðarins með því að stuðla að réttlæti, vináttu og auknum samskiptum milli þjóða.

Við viljum að fjármagni sé varið til þess að seðja hungur sveltandi fólks, til heilsugæslu og menntunar en ekki til vígbúnaðar.

Við viljum að Íslendingar leggi lið sérhverri viðleitni á alþjóðavettvangi gegn kjarnorkuvopnum og öðrum vígbúnaði.

Við viljum ekki að Ísland verði vettvangur aukins vígbúnaðar á norðurslóðum og höfnum kjarnorkuvopnum á landi okkar og hafinu umhverfis, hvort sem er á friðar- eða stríðstímum.“

Hér er talað tæpitungulaust og þetta ávarp felur í sér hvatningu til íslenskra stjórnvalda um stefnubreytingu. Það er ekki að ástæðulausu að eitt af kjörorðum kvennaáratugarins er friður. Og það er ekki heldur að ástæðulausu að íslenskar konur taka höndum saman til að lýsa andstöðu við kjarnorkuvopnin og aukinn vígbúnað. Á undanförnum árum hefur veröldin horft upp á vopnabúr stórveldanna þenjast út, milljörðum á milljarða ofan er varið til rannsókna á framleiðslu gjöreyðingarvopna, sem allir eru þó sammála um að aldrei megi nota. Tæplega helmingur allra vísindamanna heimsins notar þekkingu sína og hugvit til að upphugsa ný kerfi kafbáta, eldflauga og gervihnatta sem verða æ nákvæmari en um leið óútreiknanlegri.

Þróun vígbúnaðarins stóreykur hættuna á að hann verði notaður. Andstæðingurinn rembist eins og rjúpan við staurinn við að finna svör sem duga og þannig koll af kolli. Það er þegar búið að leggja löndin, höfin og loftið undir stríðsleikinn. Alla daga sveima yfir höfðum okkar orrustuvélar og njósnagervihnettir sem greint geta bílnúmer á jörðu niðri. Hafið umhverfis okkur er krökki af kafbátum, hlustunartæki og radarstöðvar fylgjast með hverri hreyfingu.

Og nú á að teygja sig enn lengra — út í himingeiminn, finna upp ný kerfi svo að stríðsvélin haldi áfram að mala sitt gull. Bandaríkjamenn dreymir suma hverja um að koma upp eins konar „stóra bróður“ úti í geimnum sem ætlað er að verja okkur öll og passa upp á að jarðkúlan springi ekki í loft upp. Það á að skjóta langdrægar eldflaugar niður þegar þær fara út úr gufuhvolfi jarðar á leið sinni til annarra heimsálfa. Þetta á að gera með laser-geislatækjum, sem reyndar er ekki búið að smíða enn. Hugsanlega á að nota gríðarstóra spegla til að endurkasta geislunum, en hvernig á að smíða þá og koma þeim fyrir veit enginn enn. Öllu á svo að stýra með tölvukerfi sem ekki verður hægt að stöðva eftir að ákvörðun hefur verið tekin um að skjóta. Ef af verður hafa menn á jörðu niðri svo sem 5–10 mínútur til að taka allar ákvarðanir.

Yfir jörðina mun rigna geislavirkum leifum eldflauganna með ógnvænlegum afleiðingum og enginn veit hvaða áhrif þessi geimleikur hefði á andrúmsloft jarðar. Enginn veit hvort þetta er í raun framkvæmanlegt. Samt á að verja milljörðum dollara í þessa fullkomnu geggjun vígbúnaðarkapphlaupsins.

Bandaríkjamenn vilja fá bandamenn sína í NATO til að styðja stjörnustríðsáætlunina. En er nema von að mönnum ói við þessum áformum? Íslenski utanrrh. er þó ekki reiðubúinn til að hafna stjörnustríði, enda traust hans á Bandaríkjamönnum óbilandi. Í austri situr svo hitt tröllið og raðar í kringum sig skotpöllum fyrir langdrægar, meðaldrægar og skammdrægar eldflaugar, kjarnorkukafbátum, gervihnöttum, hlustunarkerfum og radarkerfum, öllum þessum tólum sem ógnarjafnvægið hefur fætt af sér og ku eiga að fæla andstæðinginn frá því að gera árás, en er þó aldrei nóg af.

Hópur vísindamanna í Englandi hefur sýnt fram á að það eru um 800 manns sem raunverulega taka allar ákvarðanir um vígbúnað hér vestan megin. Þar eru að verki hergagnaframleiðendur og herforingjar. Er röðin kemur að stjórnmálamönnum standa þeir frammi fyrir gerðum hlut, þegar búið er að eyða miklu fé til rannsókna og tilrauna, og þeir eru neyddir til að samþykkja hverja áætlunina á fætur annarri.

Á meðan þessu fer fram eykst bilið milli norðurs og suðurs, milli velferðarríkjanna svokölluðu og þess hluta veraldarinnar sem býr við hungur, sjúkdóma og hvers kyns neyð. Við höfum hvað eftir annað fengið inn í stofu til okkar myndir af litlum, sveltandi börnum sem eiga sér enga lífsvon í löndum þar sem þurrkar herja og í ríkjum sem eru grátt leikin af misskiptingu auðsins og óréttlæti. Hvar er ábyrgð þín og mín?

Í mínum huga eru vígbúnaðarkapphlaupið og hungrið í heiminum svo óendanlega mikilvægari og alvarlegri mál en það hvort Íslendingar fái að drekka bjór eða hvort Framkvæmdastofnun verður breytt í þríhöfða þurs. Það er okkur Íslendingum til vansa hversu lítið við höfum látið af mörkum til aðstoðar fátækum ríkjum heims, verandi ein af best settu þjóðum veraldarinnar. Það er okkur til vansa að hafna ekki öllum vígbúnaði á landi okkar og taka ekki skelegga afstöðu gegn vígbúnaði hvar sem er í heiminum. Því ber að fagna að Alþingi hefur samþykkt tillögu um að ekki skuli staðsett kjarnorkuvopn á Íslandi og að ætlunin er að auka smám saman framlag Íslands til þróunaraðstoðar. En betur má ef duga skal.

Herra forseti. Víkjum þá að jafnréttinu. Áður en þessu þingi lýkur verður væntanlega staðfestur sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um afnám alls misréttis gegn konum. Þessa dagana er einnig verið að fjalla um breytingar á jafnréttislögum. Atþingi vill gjarnan brosa framan í konur í tilefni ársins. En allt eru þetta orð. Ég spyr um gerðir. Ég spyr um áform sem stuðla að bættum kjörum kvenna. Það vita allir, sem ekki loka öllum skilningarvitum fyrir staðreyndum lífsins, að konur búa við verulegt misrétti í þessu þjóðfélagi.

Samfélagið hefur tekið hröðum breytingum á undanförnum árum, en ein sú mesta er stóraukin atvinnuþátttaka kvenna. Nú starfa um 80% kvenna utan heimilisins enda leyfa fjárlög heimilanna ekki annað. Samt virðist svo sem þessi grundvallarbreyting á þjóðfélaginu hafi nánast algjörlega farið fram hjá stjórnvöldum og atvinnurekendum og er rétt eins og þeir ímyndi sér að heima bíði ástríkar eiginkonur með strauboltann á lofti og inniskó eiginmannsins til reiðu, ilmandi steik í ofninum og börnin þæg og góð.

Þetta er kannske það sem margan manninn dreymir um. En í huga flestra kvenna heyrir slíkt fortíðinni til, nútíðin er önnur. Það er litið á konur sem annars flokks vinnuafl og sér þess stað í þeim launakjörum sem konum er boðið upp á. Stjórnvöld neita að koma til móts við þarfir fjölskyldna með því að byggja nægjanlegt dagvistarrými. Skólakerfið býður börnum upp á að þjóta milli heimilis og skóla, jafnvel margsinnis á dag, rétt eins og það sé einhver heima til að sinna þeim.

Það er ekki ætlast til þess að konur eigi börn. Í það minnsta er þeim ekki gefinn kostur á að sinna þeim heima nema í þrjá mánuði eftir fæðingu. Og hvað á svo að gera við þau? Þaðan af síður er gert ráð fyrir því að konur séu einar að ala upp börn sín og þurfi þar af leiðandi hærra kaup og húsnæði til að búa í. Samt eru sumir að tala um að Íslendingum þurfi að fjölga.

Samhjálp og samábyrgð hafa einkennt íslenskt samfélag allt frá því á landnámsöld. Þótt margur hafi hlotið illa meðferð hefur ætíð verið gengið út frá því að okkur beri að gæta hvers annars. Á undanförnum áratugum hefur ríkt sú stefna hér á landi að byggja upp félagslega þjónustu sem tekur mið af öllum landsmönnum. Menntakerfið og heilbrigðiskerfið hafa haft að markmiði að þjóna öllum jafnt.

Undanfarin ár hafa öfl, sem veifa frelsishugtakinu á undarlegan hátt, sett á oddinn þá stefnu að gefa allt frjálst, láta markaðslögmálin ráða ferðinni. Þeir sem verða undir, ja, þeir verða bara undir. Í nafni slíkra hugsjóna hefur verið vegið að heilbrigðiskerfinu. Skólakerfið er allt í upplausn. Ríkisútvarpið, sem þjónað hefur okkur dyggilega í 55 ár, má nú sigla sinn sjó í samkeppnisfrelsinu. Launakerfi ríkisins er í molum. Hinir ríku verða ríkari og hinir fátæku fátækari. Þetta kalla sumir frelsi. En í raun er þessi hugmyndafræði í hróplegu ósamræmi við aldagamlar tilraunir manna til að koma á réttlæti og jafnrétti í mannlegum samskiptum. Í raun skerðir frjálshyggjan, eins og hún birtist í stefnu ríkisstj., frelsi fólks til að lifa mannsæmandi lífi, og hún er ógnun við jafnréttisþjóðfélagið.

Konur sem verja hluta hvers dags í að sinna andlegri og líkamlegri velferð sín og sinna, konur sem frá alda öðli hafa borið ábyrgð á mannlegum verðmætum, konur sem leggja af mörkum gífurlega ólaunaða vinnu svo samfélagið megi ganga frá degi til dags hljóta að hafna frjálshyggjunni og þeim frumskógarlögmálum sem henni fylgja.

Konur verða að grípa til sinna ráða eigi að snúa öfugþróun síðustu ára við. Þær eru reyndar löngu byrjaðar á því verki. Þátttaka kvenna í verkfalli BSRB, kennaradeilan, mótmæli fóstra undanfarna daga og sú hörmulega staðreynd að 250 hjúkrunarfræðinga vantar til starfa á sjúkrahúsum meðan rúm standa auð, bera vott um að launamál kvenna eru í algjörum ólestri og að þær una því ekki lengur.

Afleiðingar af launastefnu ríkisstj. birtast í æ fleiri myndum. Snjóboltinn, sem fór af stað fyrir tveimur árum, er nú orðinn að skriðu sem vonandi lýkur ferð sinni með því að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hrökklast frá völdum. Það blása kaldir vindar um ríkisstjórnarheimilið. Þar er ekki lengur að finna ástir samlyndra hjóna, hafi nokkurn tíma verið hlýtt þar á milli. Börnin eru meira að segja farin að ókyrrast og hlýða ekki settum reglum. Það er engin guðsblessun yfir þessu hjónabandi og stefnir greinilega í skilnað, enda engum börnum hollt að alast upp við ósætti og ástleysi.

Við Kvennalistakonur höfum á þessu þingi lagt fram frv. um lengingu fæðingarorlofs, frv. um átak í dagvistarmálum, átak í byggingu leiguhúsnæðis auk fjölda annarra mála. En þar er skemmst frá að segja að það þykir of dýrt að sinna börnum, of dýrt að koma á samfelldum skóladegi og of dýrt að foreldrar geti verið hjá börnum sínum fyrstu sex mánuðina eftir fæðingu. Það þykir hins vegar ekki of dýrt að reisa bankahallir, ekki of dýrt að selja Alusuisse orku undir kostnaðarverði, ekki of dýrt að reisa risastóra flugstöð, ekki of dýrt að borga álnefndarmönnum margföld laun fóstra og kennara fyrir nokkurra mánaða starf á vegum ríkisins, margföld árslaun. Þarna skilur á milli. Við Kvennalistakonur viljum að mannleg verðmæti sitji í fyrirrúmi og komi á undan steinsteypu, malbiki og bruðli.

Ég minntist þess í byrjun að hinn 19. júní verða 70 ár tíðin frá því að konur hlutu kosningarrétt til Alþingis. Konur hafa nýtt þann rétt vel þótt ekki sjáist þess enn stað í sölum Alþingis eða í sveitarstjórnum landsins. Þær hafa valið aðrar leiðir til að koma áhugamálum sínum í framkvæmd en þá að láta til sín taka í valdastofnunum þjóðfélagsins. Ef samfélagið á að breytast verða konur að komast þangað sem ákvarðanir eru teknar, eigi að takast að tryggja jafnrétti þegnanna, þróun og frið í heiminum.

Hinn 19. júní munu konur um allt land hittast, halda fundi og gróðursetja þúsundir trjáplantna. Sú gróðursetning er táknræn fyrir þann vaxtarbrodd sem finnst í hreyfingum kvenna, táknræn fyrir að konur vilja græða og bæta í stað þess að ógna og eyða. Um leið minnir hver lítil planta okkur á þá gömlu speki að friðarins tré vex af rótum réttlætisins. — Góða nótt.