11.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6322 í B-deild Alþingistíðinda. (5741)

Almennar stjórnmálaumræður

Þorsteinn Pálsson:

Herra forseti. Um þessar mundir blasa við þrjú meginverkefni í íslenskum atvinnu- og efnahagsmálum. Í fyrsta lagi að hamla gegn óhóflegum erlendum lántökum til rekstrar og neyslu. Í öðru lagi að hefja þá uppbyggingu íslensks atvinnulífs sem verið hefur í deiglunni í því skyni að auka hagvöxt og verðmætasköpun. Og í þriðja lagi blasir við það verkefni að stuðla hér að vinnufriði til þess að unnt verði að verja kaupmátt án verðbólgu. Þessi verkefni eru nú brýnust eigi okkur að takast að vinna okkur út úr þeim erfiðleikum sem við höfum strítt við undangengin ár. Það er ætlun okkar að búa við sambærileg lífskjör og þær þjóðir sem við jöfnum okkur helst til. Og því verðum við að leysa þessi verkefni. Við stöndum á tímamótum. Að baki er árangur í baráttunni við verðbólguna en líka áföll eftir verðbólgusamninga s. l. haust sem Karl Steinar Guðnason lýsti mætavel í ræðu sinni hér á undan.

Við viljum horfa fram á við. Úrslitum ræður hvort okkur tekst að vinna okkur út úr erfiðleikunum með verðmætasköpun en ekki eyðslu. Um margt hefur okkur miðað fram á við en í öðrum efnum höfum við ekki náð þeim árangri sem nauðsynlegur er, eins og gerist og gengur. Það er gömul árátta í stjórnmálaumræðum að draga upp myndir í hvítum og svörtum litum. En hér hefur aldrei verið og mun væntanlega aldrei verða mynduð ríkisstjórn sem ekki má gagnrýna fyrir það að ná ekki öllu fram sem hugur stendur til. Ástæðulaust er t. a. m. að draga fjöður yfir þá staðreynd að í þessu stjórnarsamstarfi hefur ekki tekist að stöðva gegndarlausan innflutning erlends fjármagns, sem um mörg ár, í tíð margra ríkisstjórna hefur grafið um sig eins og meinsemd í þjóðarlíkamanum. Alvarlegast er þó að erlendar skuldir hafa í auknum mæli farið í neyslu og rekstur en í minna mæli en áður til framkvæmda sem með ótvíræðum hætti skila arði í þjóðarbúið. Ein versta afleiðing skuldasöfnunar er ofþensla í þeim atvinnugreinum sem keppa við sjávarútveginn. Útvegurinn stríðir nú við alvarleg vandamál. Þau eru margslungin og af ólíkum toga spunnin. En augunum verður ekki lokað fyrir því að víða hefur gengið á eignir atvinnufyrirtækja í sjávarútvegi, enda hefur verðmæti útflutningsins rýrnað um rúma 8 milljarða króna frá árinu 1980. Það hlýtur að segja til sín í afkomu og rekstri fyrirtækjanna og setja mark sitt á afkomu þess fólks sem vinnur við svo mikilvæg störf í sjávarútvegi, við að framleiða þau verðmæti er skila mestum gjaldeyristekjum í þjóðarbúið.

Í nýlegri ályktun Sambands ísl. fiskframleiðenda segir „að ekki skapist skilningur á mikilvægu hlutverki sjávarúfvegsins til öflunar gjaldeyris á meðan fjármagns til fjárfestingar og reksturs er aflað með erlendu lánsfé sem engin verðmæti standa á bak við.“ Það er því einmitt vegna sjávarútvegsins sem mikilvægast er að hefta skuldasöfnunina. Stjórnarflokkarnir gerðu um það efni samkomulag í fyrrahaust sem ríkisstj. tókst ekki að framkvæma af ýmsum ástæðum. En vegna brýnna hagsmuna sjávarútvegsins verður ekki lengur undan því vikist að takast á við þetta verkefni. Stuðningur Sjálfstfl. við núverandi ríkisstj. hlýtur að vera við það bundinn að sá árangur náist í þessum efnum sem að var stefnt með samkomulagi stjórnarflokkanna s. l. haust.

Þinghaldi hefur verið haldið áfram nú í vor lengur en venja stendur til. Þetta hefur verið gert til þess að koma fram ýmsum þeim málum sem áform hafa verið uppi um og stuðla eiga að nýsköpun í íslensku atvinnulífi. Þeim verður ekki skotið á frest. Róttækar breytingar á flóknu og stöðnuðu fjármagnskerfi eru óhjákvæmilegar. Þau mál sem stjórnarflokkarnir hafa einsett sér að koma fram á þessu vori, hvort sem það kallar á lengra þinghald eða skemmra, miða að umbótum á þessu sviði. Þau eru engin allsherjar lausn en mikilvægt skref til framfara. Fyrir því hefur Sjálfstfl. lagt á það áherslu að þinginu yrði haldið áfram þar til þessum málum yrði lokið og þess er að vænta að það muni takast innan skamms.

Guðmundur Einarsson, talsmaður Bandalags jafnaðarmanna vitnaði hér mjög til smádýra í ræðu sinni fyrr í kvöld. Gagnrýni hans minnti óneitanlega á pólitískan músagang. Á þeim bæ má engu breyta ef það er ekki hluti af allsherjar byltingu. Málflutningur af þessu tagi skilar sannarlega seint árangri. En það sem hér er um að ræða er stofnun nýs þróunarfélags, sem ætlunin er að verði í meirihlutaeigu atvinnulífsins og stuðlað geti að arðsamri atvinnuuppbyggingu, og auk þess eru á ferðinni verulegar breytingar á almennum reglum um fjárfestingarsjóði atvinnuveganna og lög um viðskiptabanka.

Eitt mikilvægasta málið í þessu sambandi lýtur að nýrri löggjöf um framleiðslu og sölu landbúnaðarafurða. Landbúnaðurinn stendur sannarlega á tímamótum og miklu skiptir að þær breytingar sem óumflýjanlegar eru á næstu árum séu varðaðar með skynsamlegri löggjöf er stuðlað geti að sáttum framleiðenda og neytenda. Þó að það frv. sem nú er til meðferðar sé ekki með öllu gallalaust er það ótvírætt mikilvægt framfaraspor í þágu landbúnaðarins og nauðsynlegur þáttur í þeirri viðleitni sem nú á sér stað til alhliða eflingar atvinnulífs um allt land.

Á þessari stundu er þó mikilvægast af öllu að unnt reynist að verja kaupmátt með vinnufriði og án verðbólgu. Stjórnarflokkarnir hafa haft forustu um lækkun tekjuskatts af almennum launatekjum í því skyni að auðvelda aðilum vinnumarkaðarins að ná þessu markmiði. Fyrsti áfangi þessarar stefnu kemur til framkvæmda á þessu ári og annar áfangi á því næsta. Sérstök ástæða er til að fagna þeirri viðleitni bæði atvinnurekenda og launafólks að freista þess nú með samningum að koma í veg fyrir það kaupmáttarhrap sem fyrirsjáanlegt er á næstu mánuðum og um leið með samningum um kaupmátt án verðbólgu að tryggja vinnufrið til lengri tíma. Engum vafa er undirorpið að mikill meiri hluti þjóðarinnar væntir þess að niðurstöður geti fengist á þessum grundvelli. En það er auðvitað áhyggjuefni að einstaka pólitískir liðsoddar Alþb. leggja nú allt kapp á að kynda undir upplausn og óróleika í þeim tilgangi einum, að því er virðist, að kjarasamningar geti leitt til nýrrar verðbólguholskeflu. Þær gömlu vinnuaðferðir hafa ekki fært launafólki í þessu landi kjarabætur, þvert á móti. Þess vegna er nú þörf á víðtækari samstöðu til þess að fylgja fram hugmyndum um nýjar leiðir út úr þeim vanda sem jafnan fylgir kjaraákvörðun.

Alþb. er í kreppu vegna þess að það segist vera forustuflokkur verkalýðshreyfingarinnar án þess að vera það. Þetta er ekki hnútukast andstæðinga Alþb. og þetta er ekki forustugrein í Morgunblaðinu. Þetta eru ummæli Ólafs Ragnars Grímssonar formanns framkvæmdastjórnar Alþb. um eigin flokk og þarf þá ekki fleiri orð til að afhjúpa þá skinhelgi sem fram kom í ummælum formanns Alþb. fyrr í þessari umræðu um kjaramál og stéttaeðli sem honum er gjarnt að tala um. Alþb. er auk heldur svo upptekið við stéttastríðshugmyndir gömlu lærifeðranna og svo fjarri því að sýna þeim málum áhuga er horft geta til framfara í landinu, að Ólafur Ragnar Grímsson hefur gagnrýnt flokksforustuna í Þjóðviljanum fyrir að hundsa hinar athyglisverðu og merku hugmyndir sem forseti Alþýðusambandsins kynnti um daginn um nauðsyn nýsköpunar í atvinnumálum. Og Ólafur Ragnar benti á að Morgunblaðið hefði sýnt þessum tillögum forseta Alþýðusambandsins meiri skilning en Þjóðviljinn.

Hér hafa því augljóslega skapast skörp skil í stjórnmálabaráttunni. Annars vegar fer Alþb. í forustu fyrir upplausnaröflum, sem vilja fórna hagsmunum launþega á altari verðbólgubálsins, og Alþfl., sem ekkert hefur fram að færa annað en kröfur um aukna skattheimtu, eins og Jóhanna Sigurðardóttir lýsti með ágætum hér í ræðu sinni í kvöld. Hins vegar fer Sjálfstfl. með þá meginstefnu að skapa hér aðstæður til alhliða uppbyggingar atvinnulífs, til þess að tryggja jafnvægi og verja kaupmátt í samningum til lengri tíma. Löng reynsla sýnir að hatrömm stéttaátök eru ekki leiðin að þessu markmiði. Og formanni Alþb. var vorkunn hér í umræðunum þegar hann þurfti að viðurkenna að málflutningur Alþb. í vetur hefði verið svo mjóróma að hann hefði kafnað í umræðu um jafn lítilsvert mál eins og bjór.

Upp á síðkastið hafa farið fram miklar umræður um málefni húsbyggjenda. Ljóst er að í þeim efnum eru ýmsir enn að glíma við afleiðingar óðaverðbólgunnar sem fyrir tveimur árum var komin yfir 130%. Með margs konar ráðstöfunum hefur verið reynt að auðvelda húsbyggjendum að glíma við þessa erfiðleika. En svo var komið nú í vor að nauðsynlegt var að afla sérstakra fjármuna í þessu skyni og enn fremur til þess að standa undir lágmarki nýrra útlána á þessu ári, sem annars hefðu engin orðið. Þrátt fyrir þessar aðgerðir verður óhjákvæmilega talsverður samdráttur í nýbyggingum enda hníga gild rök að því að við höfum farið fullgeyst í þeim efnum. Að nokkru leyti tókst samstaða milli stjórnar og stjórnarandstöðu um þessar aðgerðir. Sú samstaða var mikils um verð. En leiðir skildu fyrir þá sök að stjórnarandstöðuflokkarnir vildu ganga tvisvar sinnum lengra í skattheimtu en stjórnarflokkarnir töldu skynsamlegt og ráðlegt við þessar aðstæður. Tekjuöflun var ákveðin með þeim hætti að byrðum yrði jafnað sem réttlátast niður þannig að meir kemur á herðar þeirra sem bestar aðstæður hafa í þjóðfélaginu. Með hliðsjón af stefnu sinni í húsnæðismálum og afstöðu til óhóflegrar erlendrar lántöku taldi Sjálfstfl. rétt og skylt að knýja á um aðgerðir af þessu tagi. Útilokað hefði verið fyrir Sjálfstfl. að sitja í ríkisstj. sem ekki hefði verið fús að leysa þetta verkefni.

Á landsfundi Sjálfstfl. var mörkuð sú skýra afstaða að áframhaldandi aðild að ríkisstjórninni væri komin undir málefnalegum ávinningi. Á þeim grundvelli hefur verið unnið með árangri síðustu vikur. Við vitum að það er hægt að lyfta Íslandi upp úr doða sundurlyndis og stöðnunar í atvinnumátum og við ætlum okkur að gera það. En það gerist ekkert í þessu efni í einni sjónhendingu, allt tekur það sinn tíma. En það verður engin breyting ef menn eru ekki tilbúnir til þess að takast á við þessi verkefni og brjótast fram með nýjungar af bjartsýni og áræði. Við vísum á bug þeirri bölsýni og þeim sundurlyndisfjanda sem einkennir málflutning stjórnarandstöðunnar. Hann færir okkur ekki fram á veginn. Hann færir okkur ekki út úr erfiðleikunum til bættra lífskjara og bjartari framtíðar.

Við höfum lagt áherslu á að auka kaupmáttinn með verðmætasköpun. Hún getur ekki orðið í stöðugum ófriði á vinnumarkaði. Þess vegna ræðst framtíðin af því hvort okkur auðnast að koma fram málum er geta orðið jarðvegur nýrrar uppskeru í atvinnulífinu og grundvöllur bættra lífskjara.

Herra forseti. Sjálfstfl. leggur mikla áherslu á aðfylgja fram þeirri stefnu í utanríkis- og öryggismálum sem mikill meiri hluti Íslendinga hefur staðið vörð um í rúma þrjá áratugi. Aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfi innan vébanda þess við Bandaríkin er þar kjölfestan. Nýlega sameinaðist Alþingi um ályktun um friðar- og afvopnunarmál. Þar er sú stefna áréttuð að hér séu ekki kjarnorkuvopn án samþykkis íslenskra stjórnvalda. Enn fremur eru hugmyndir um kjarnorkuvopnalaus svæði tengdar aðild Atlantshafsbandalagsríkjanna að gagnkvæmum samningum um útrýmingu kjarnorkuvopna. Sjálfstfl. stóð að þessari yfirlýsingu á þessum forsendum og mun ekki láta rangtúlkanir forustumanna Alþb. breyta utanríkisstefnu Íslendinga. Íslendingar hafa tekið þátt í því alþjóðlega samstarfi í varnar- og öryggismálum. sem best hefur tryggt friðinn. Því munum við halda áfram í samræmi við lýðræðishugsjónir okkar og í ljósi þeirra sanninda að friður án frelsis er ekki til. — Góðar stundir.