11.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6336 í B-deild Alþingistíðinda. (5746)

Almennar stjórnmálaumræður

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Það verður ekki undan skaparanum kvartað, veðurguðunum eða náttúruvættunum, þegar erfiðleikar yfirstandandi árs og síðustu missera verða raktir til uppruna síns. Tíðarfar hefur verið gott, jafnvel með eindæmum gott í sumum landshlutum, gæftir eftir því og afrakstur lands og sjávar með hagstæðasta móti. Það skyldi því einhver ætla að þessari bændaþjóð og fiskimanna liði vel. Hér væri uppgangur og velsæld og ekki síst það fólk sem að framleiðslunni stendur lifði velsældartíma. En reyndin er önnur. Kjör þessa fólks sem og alls almenns launafólks hafa stórversnað. Fólksflótti er úr þeim greinum sem standa undir verðmætasköpun þjóðarinnar. Eigið fé í þeim atvinnurekstri er að brenna upp og skotlin er á ný holskefla byggðaröskunar. Og allt þetta er að gerast þrátt fyrir það að ýmsar ytri aðstæður séu með hagstæðasta móti eins og áður var rakið.

En féllu ekki þjóðartekjur? spyrja menn. Svarið er nei. Þvert ofan í falsspár um annað jukust þjóðartekjur á síðasta ári um 2.7%.

En varð ekki aflabrestur? spyrja menn. Nei. Þrátt fyrir nokkurn samdrátt í fiskveiðum varð heildarverðmæti sjávarafla með því mesta í sögunni á síðasta ári.

En hverju má það þá sæta, spyrja menn, að mitt í góðæri rambi sjávarútvegur og landbúnaður á barmi gjaldþrots, byggðaröskun sé stórfelld og fólkið flýi úr störfum í mörgum þeim starfsgreinum sem leggja efnahagslegan og velferðarlegan grunn að samfélagi okkar? Skýringarnar eru nærtækar. Framsóknarfrjálshyggjan með sinni mannfjandsamlegu láglaunastefnu, okurvöxtum og dekri við fjármagnseigendur og gróðapunga er skýringin. Stjórnin þjarmar að framleiðslugreinum, að bændum og sjómönnum, að verkafólki kaupstaðanna, að fiskvinnslufólkinu, að fóstrum o. s. frv. til þess að geta alið betur gæðinga sína, hvort sem þeir vinna fyrir stóriðjunefnd, stunda innflutning á kaffibaunum, byggja bankahallir eða verslanir.

Góðir áheyrendur. Það gefst því miður ekki tími hér til að skamma þessa ríkisstjórn eins og vert væri og skylt. Til þess þyrfti ég þennan eldhúsdag allan að segja það eitt sem ég teldi maklegt um undirlægjuhátt Geirs Hallgrímssonar og þjónustulund við vígbúnaðaröflin. Þeim mun meir sem sómi hans vex í klúbbum afturhaldsins úti í heimi minnkar hann í mínum augum.

Eða þá um loforð, svik og aumingjaskap húsnæðismálaráðherrans og sjálfstæðismanna í húsnæðismálum. Ástandi húsnæðismála verður best lýst með því að fólkið í landinu hefur orðið að stofna samtök til varnar sér gegn stjórnarstefnunni. En örfá orð ætla ég að láta hér falla sérstaklega um framgöngu hæstv. ríkisstj. í landbúnaðarmálum undir forustu skörungsins hvassbrýnda, Jóns Helgasonar frá Seglbúðum.

Í landbúnaðinum er ástandið þannig að afkoma bænda hefur ekki verið verri um áratugi, ekki síðan í kreppunni miklu. Launaliðir í búrekstri hafa hrapað niður úr öllu valdi og skuldir bænda og reyndar einnig margra sölufyrirtækja þeirra hafa vaxið óhugnanlega. Ríkisstj. hefur jafnt og þétt dregið úr niðurgreiðslum, en það hefur samfara kjaraskerðingunni leitt til minni neyslu, nánast hruns á innanlandsmarkaði. Þannig er vegið í senn að neytendum og bændum. Neytendur þurfa að kaupa dýrari vöru, bændur selja minna af framleiðslu sinni.

Og hvernig bregst ríkisstj. við fjárhagsvanda bænda og skuldaaukningu, yfirvofandi gjaldþroti? Eða við vanda launafólks sem hefur ekki lengur efni á að kaupa þessar hollustu og brýnustu neysluvörur heimilanna? Hún gerir ekkert, ekkert nema að undirbúa á laun nýtt frv. um framleiðslu- og sölumál landbúnaðarins sem bóndinn Jón Helgason leggur svo fram í sauðburðarbyrjun af tillitssemi við bændur. Það vekur óneitanlega athygli að þeir framsóknarmenn hafa ekki pláss fyrir landbrh. í ræðumannahópi sínum. Hann fær ekki einu sinni tvær mínútur til þess að kynna hér málið fyrir þeim sem það varðar. Gallað og illa undirbúið frv. velkist nú hér í þinginu eftir ámælisverða málsmeðferð af hálfu hæstv. ríkisstj. Örlagaríkt mál fyrir bændur og neytendur, fyrir landsbyggð og þéttbýli, fyrir iðnað og þjónustu er olnbogað hér í gegnum þingið án minnstu viðleitni til að leita sátta og skapa jákvæða afstöðu þeirra sem eiga að lifa og starfa og njóta á grundvelli þessara laga. Og landbrh. er í fríi í kvöld.

Þá er rétt að skoða ofurlítið ástandið í byggðamálum þegar Framsfl. á ekki aðeins landbrh. og sjútvrh. í ríkisstj. heldur forsrh. líka. Og hvernig er ástandið? Það er hliðstætt eða verra en það var á svörtustu árum viðreisnar. Stjórnin er úrræðataus og dettur það helst í hug að skipta um nafn á Framkvæmdastofnun. Við, þm. Alþb., höfum flutt tillögur um róttækar aðgerðir í byggðamálum til að snúa þessari óheillaþróun við.

Liður í því er að dreifa þjónustustofnunum út um landið. Við höfum m. a. lagt til að fyrstu skref verði . stigin með því að staðsetja Byggðastofnun eða væntanlegt þróunarfélag á Akureyri. Atkvæðagreiðslur um þau mál hér á Alþingi næstu daga verða prófsteinn á raunverulegan vilja stjórnarliða í þessu efni, ekki síst framsóknarmanna, sem eru mikið fyrir hátíðlegt málróf í þessum efnum. Nú gefst þeim tækifæri til aðgerða.

Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar með sína ellefu ráðherra, tíu sitjandi og einn standandi, talar mikið um þjóðarsátt. En hver er sú sáttargjörð sem hún býður þjóð sinni? Það er sátt um vaxandi launamisrétti. Það er sátt um Singapore-kjör, um vaxtaokur, um byggðaröskun, um gjaldþrot í sjávarútvegi og landbúnaði, um frelsi hinna ríku til að græða en hinna lakar settu til að fórna, um aukinn vígbúnað og útþenslu hernámsins og þjónkun við vitfirringu vígbúnaðarkapphlaupsins, um sjúklingaskatta. Það er t. d. sátt um sjúklingaskatta. Og ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar býður þjóð sinni sátt um bílamál bankastjóra og ráðherra og stóriðjunefndarlaun þm. og seðlabankastjórans á sama tíma og þeir segja að þjóðarbúið þoli ekki hækkun á lágmarkslaunum verkafólks. Slíkri sáttargjörð hlýtur og verður íslenska þjóðin að hafna. Í einum flokki og aðeins einum flokki eiga íslenskir vinstri menn og félagshyggjufólk þá brjóstvörn sem eitthvað dugar gegn kjaraskerðingar- og hermangsflokkunum. Þess skulu menn minnast og einmitt nú þegar yfir gengur svæsin óhróðursherferð afturhaldsins gegn Alþb. Þið heyrðuð hvað Þorsteinn Pálsson, hinn stóllausi, talaði um hér áðan. Hann talaði um Alþb. og Þjóðviljann, um Þjóðviljann og Alþb. Afturhaldið veit hvaðan því er mest hætta búin.

Landar mínir góðir. Við skulum ekki fara að hafa þessa forheimskutilraun frjálshyggjuofstækisins með efnahagslega og félagslega velferð íslensku þjóðarinnar öllu lengri. Tvö ár eru reyndar meira en nóg. — Góðar nætur og gleðilegt sumar.