11.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6338 í B-deild Alþingistíðinda. (5747)

Almennar stjórnmálaumræður

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Eftir ótrúlega mildan vetur og vinalegt vor erum við senn komin að sumarsólstöðum og þingi ekki lokið. Það lengsta í manna minnum. Nú mun þó liðið nær lokaspretti og þingstörf einkennast sannarlega af hitasóttarkenndum afkastaham. Sá telst góður sem heldur þræði og rænu milli funda, mála eða ákvarðana, svo hröð er atburðarásin. Þó er hér tekist á um stóru málin, þau sem helst þyrfti að vanda. Samt virðast ríkja hér þau vinnubrögð sem of lengi hafa ráðið í útflutningsatvinnuvegum okkar. Það er spurt um magn en ekki gæði. Og öll vitum við hve afdrifaríkt slíkt vinnulag hefur reynst. Því er mál að linni og menn láti af metnaði sínum, því að verri eru ólög en engin lög.

Ekki mundi mér mislíka það þótt þm. sætu almennt lengur á þingi en nú er, svo fremi þeir töpuðu ekki tengslum við þjóðlífið. Það skiptir nefnilega meginmáli að hér starfi þeir sem bera skynbragð á þarfir þjóðfélagsins og einstaklinganna sem það byggja. Og ég velti því fyrir mér í annríki dagsins, fulltrúar hverra eru þeir sem hafa mestu ráðið um gang mála á þessu þingi? Getur það verið að meiri hluti þjóðarinnar sætti sig við það verðmætamat sem þar hefur oftast ráðið ferðum? Mér gengur svo dæmalaust illa að trúa því. Er það í raun ríkjandi vilji þjóðarinnar að þeir sem gæta mestra fjármuna skuli fá fyrir það margföld laun þeirra sem gæta lítilla barna? Er það vilji þjóðarinnar að veita mæðrum ekki lengra fæðingarorlof en þrjá mánuði? Er það vilji þjóðarinnar að tryggja ekki börnum sínum örugga umönnun og samfelldan skóladag meðan foreldrar þeirra verða að vinna fyrir framfærslu heimilanna? Er það vilji þjóðarinnar að til kennarastarfa fáist einungis þeir sem ekki eiga á öðru völ?

Umhverfisverndarmenn og aðrir óttast með réttu um egg og afkomu ránfugla þessa dagana. En það eru fleiri egg í hættu. Hver eru fjöregg þín, íslenska þjóð, og hvernig viltu gæta þeirra á öllum árum hinnar íslensku æsku?

„Ég á engin börn,“ sagði einhleypur maður á förnum vegi um daginn. „Hvers vegna á ég að borga til að sjá fyrir annarra manna börnum? Hvað er þetta fólk að hlaða niður börnum og hendir þeim svo frá sér inn á stofnanir? Svo á ég að borga.“ Hann hafði lagt fyrir fé til ellinnar en það brann upp í verðbólgubálinu. Nú óttast hann öryggisleysi hinna öldruðu því að hann veit í hve fá hús þeir eiga að venda. Hann er heldur ekki alveg heilsuhraustur, með skerta starfsorku og veit að hlutskipti öryrkjans er litlu betra en hins aldraða.

Það hefur löngum verið mönnum gefið að eiga sér draum. Og í annríki dagsins velti ég því fyrir mér hverjir draumar bærast með íslenskri þjóð. Eru það þröngir eiginhagsmunadraumar lítilla sanda og lítilla sæva eða örlátir og metnaðarfullir draumar þar sem okkur er öllum ætlað að vera með og njóta lífsins? Mér finnst ekki nóg að fylgja ríkjandi hefð og skammast endalaust út í ráðherrana og stjórnarmeirihlutann ef þeir eru í raun dyggilega studdir af fólki sem er fyllilega sátt við ráðagerðir þeirra. Fólki sem heldur að kennarar vinni létt starf og löðurmannlegt, slæpist á sumrin og séu líklega ofborgaðir. Fólki sem heldur að enginn vilji leigja húsnæði, það hljóti að vera einhver aumingjaskapur að geta ekki eða vilja ekki kaupa húsnæði. Nú, og þeir sem kaupa verði síðan að yrkja sínar drápur í steypu, fara í gegnum hefðbundnar þrengingar, duga eða drepast eins og forfeður þeirra á undan þeim, alveg án tillits til gerbreyttra efnahagsaðstæðna. Fólk sem man ekki lengur á hverju það lifir og gleymir því'að borga mannsæmandi laun fyrir fiskvinnslu og tryggja rekstur þess atvinnuvegar sem ber uppi lífskjör þess. Það er ekki nóg að skammast út í stjórnmálamennina þó að þeim séu mislagðar hendur. Þeir eru hér ekki fyrst og fremst á sínum eigin vegum heldur sem erindrekar þess fólks sem kaus þá.

Ég lít á feril þessarar stjórnar, úrræðaleysi hennar vegna innri togstreitu og ósamkomulags. hversu hart hún hefur gengið að mörgum og þrengt kjör þeirra af óréttlæti, og trúi ekki mínum eigin augum þegar ég les síðan niðurstöður skoðanakannana um fylgi stjórnarinnar. Er það í raun og veru svona sem flestir vilja hafa það? Er raunin sú að flestir hafa það ágætt og þeim er sama hvað verður um hina? Því trúi ég ekki. Er það e. t. v. vænlegast að andæfa ekki ríkjandi skipulagi, vera hlýðinn og taka því sem það réttir manni, hvort sem það eru margföld mánaðarlaun eða réttindalítil láglaunastaða? Nei, reyndin er sú, að það eru æ fleiri sem sætta sig ekki við orðinn hlut, vilja breytingu á þjóðfélaginu og vilja sjálfir eiga beinan þátt í því að framkvæma hana. Treysta ekki lengur hefðbundnum fulltrúum.

Kvennaframboð og Kvennalisti, Bandalag jafnaðarmanna, Flokkur mannsins, Áhugahópur um úrbætur í húsnæðismálum, Búseti og nú síðast Lögvernd eru allt dæmi um ákveðna þróun í þjóðfélaginu, viðleitni einstaklinga og hópa til að fara ótroðnar slóðir til að verða virkari í mótun samfélagsins og verja hagsmuni sína. Þessari þróun er ekki hægt að líta fram hjá. Hún táknar vaxandi óánægju með ríkjandi skipulag, löngun til að leita nýrra leiða við að reka mál sín, því að betri farveg vantar.

Hvers vegna gefa stjórnmálamenn þessa mynd af sér, munnhöggvast reiðir með skömmum og úthúða hver öðrum, finna hver öðrum allt til foráttu? Ekki lætur venjulegt fólk svona í þjóðlífinu þegar það er að reyna að leysa mál sín. Flestir halda auðvitað að þarna séu á ferð hatrammir óvinir, sem varla geti heilsast, þó að í raun sé um að ræða vinnufélaga, sem oftast geta unnið saman, þótt þeir séu á öndverðum meiði. Eru og þurfa stjórnmálamenn að vera skylmingaþrælar til þess að geta af heilindum talist verðugir málsvarar? Ég segi nei. Lýðræðið hlýtur að eiga aðra kosti og þeir hljóta að bjóðast okkur öllum.

Það er ekki bara kvenfrelsisbarátta síðustu ára sem hefur kallað konur út á vinnumarkaðinn. Vaxandi fjöldi kvenna verður að leita sér vinnu, ýmist sem einu fyrirvinnur heimila sinna eða í búskap með öðrum. Reyndar hafa konur löngum verið á vinnumarkaðinum og stóðu að mestu undir þeirri vinnslu vaðmáls og fiskjar sem var aðalútflutningsvara Íslendinga um margra alda skeið. En nú er þjóðfélagið bæði breyttara og fjölbreyttara. Heimilin eru ekki lengur sú félagslega eining sem áður myndaði stoð og athvarf fyrir nokkuð stóran hóp einstaklinga. Fámenn kjarnafjölskyldan þarf að spjara sig upp á eigin spýtur. Starfsval er að vísu meira, en engu að síður byggja heilar atvinnu- og þjónustugreinar á vinnuframlagi kvenna eins og áður.

Hvað yrði t. d. um fiskvinnsluna og heilbrigðisþjónustuna ef allar konur hyrfu þaðan? Konur hafa reynt það að eigin samtakamáttur er sterkasta hreyfiaflið sem dugar til að þoka málum þeirra áleiðis.

„Hvaða jafnréttisraus er þetta,“ sagði karlinn, „eins og það sé ekki jafnrétti á Íslandi?“

Það kemur ekkert jafnrétti upp úr launaumslögunum þegar karlar fá 53% hærri laun en konur að meðaltali á ársverk. „Ef þið viljið jafnrétti, því eru þá ekki konur í byggingarvinnu og til sjós?“ sagði annar karl. Það er einmitt mergurinn málsins, að konan fái að njóta jafnréttis á við karla en fái jafnframt að vera kona með þeim eiginleikum sem því fylgja, með þeirri lífsreynslu og því verðmætamati sem hefðbundin störf kvenna færa. Enn fremur að þau launuð störf sem konur almennt vinna og eru nánast framhald af þeim störfum sem þær vinna launalaust inni á heimilum sínum séu endurmetin og látin njóta sannmælis en ekki tekin sem sjálfsögð þjónusta. Hvers vegna skyldi kona þurfa að fara í byggingarvinnu til að njóta jafnréttis? Að sjálfsögðu ber að gera starfsval fjölbreyttara fyrir bæði kynin og eyða fordómum þannig að hver geti valið það sem hugur stendur til. Hitt er jafnmikilvægt að kynhlutverk, eiginleikar og störf beggja kynja séu metin jafnrétthá.

Konum hefur gengið illa að fá hljómgrunn og brautargengi innan hefðbundinna stjórnmálaflokka eins og hin dræma þátttaka þeirra í stjórnsýslu hefur sýnt. Jafnframt finnst mörgum konum leikreglur og vinnulag karla framandi og fráhrindandi en njóta sín betur og sækja meira sjálfstraust og tjáningarfrelsi í kvennahreyfingar. Þannig eiga þær oft auðveldara með að verða marktækar á eigin forsendum.

Sú skylmingahefð sem lengi hefur ríkt á vettvangi karla, ýmist í leik eða af alvöru, hefur m. a. sett mark sitt á alþjóðasamskipti. Nú er svo komið að heimsbyggðinni allri er ógnað af vígbúnaði sem hefur stigmagnast að því er virðist óviðráðanlega eins og í martröð án þess að nokkur maður hafi viðurkennt að hann hafi viljað það. Enn ætla menn að sporðreisa hið viðkvæma jafnvægi vígbúnaðarkapphlaupsins með því að sperra ósamkomulag sitt út í geiminn. Hærra, minn guð, til þín. Konur hafa ekki verið með í ráðum til að móta þann heim sem við byggjum og sá kvenleiki sem þeim er eiginlegur en býr í okkur öllum, konum jafnt sem körlum, hefur verið lítils virtur sem mótandi afl. Þeir hæfileikar sem karlar hafa til að sinna svonefndum mjúku gildum eða lífinu hafa almennt verið allt of vanræktir. Dönsk skáldkona hefur sagt að hið nýja mæðraveldi muni leysa vandamál heimsins vegna þess að umhyggjan fyrir einstaklingunum verður þar ráðandi og hið nýja mæðraveldi kemst ekki á fyrr en við öll ræktum þessa hæfileika með okkur, verðum mæður í þeim skilningi að við sýnum þessa umhyggju burtséð frá kynferði okkar og aldri. Konur eru ekki óvinir karla, en þær vilja fá að ráða nútíðinni og framtíðinni til jafns við þá. Þær eiga erindi í stjórnsýslu, ekki einungis til að leita réttar síns heldur einnig vegna þess að þær hafa svo fjarskalega margt verðmætt til málanna að leggja.

Ég þakka áheyrnina. Góðar stundir og gleðilegt sumar.