11.06.1985
Sameinað þing: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6341 í B-deild Alþingistíðinda. (5748)

Almennar stjórnmálaumræður

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það er mesti misskilningur hjá þeim hv. þm. sem hér talaði áðan, Steingrími J. Sigfússyni, að núverandi ríkisstj. stafi mest hættan af Alþb. Núverandi ríkisstj. stafar ekki hætta af 10% flokki eins og Alþb. nú er og fer sífellt minnkandi. Núverandi ríkisstj. stafar fyrst og fremst hætta af því sóknarafli og þeim sóknarþunga sem mun skila sér með hinni sterku stöðu Alþfl. eins og hún er nú og mun eflast á næstu vikum og mánuðum. Þar er það afl sem mun skila sér til þess að breyta íslensku stjórnmálalífi og stjórnmálastarfi.

Herra forseti. Hverjir eiga Ísland? Undir þessari yfirskrift hefur Alþfl. og formaður hans fundað með þúsundum Íslendinga undanfarna mánuði víðs vegar um landið. Og þó spurningin virðist við fyrstu sýn sakleysisleg verður hún æ ágengari eftir því sem málið er betur skoðað. Og hver er ástæðan? Jú, hún er sú að búið er að veðsetja erlendum lánardrottnum 64% af árlegri þjóðarframleiðslu Íslendinga. Og enn heldur ríkisstj. áfram á þessari braut. Í ár á að bæta við erlendum lántökum upp á 10 milljarða kr. Þessi stefna ríkisstj. varðandi erlendar lántökur er svo alvarlegur leikur að fjöreggi og sjálfstæði þjóðarinnar að með ólíkindum er að menn sem teljast eiga með fullu viti skuli leyfa sér slíkt. Eða haldið þið, góðir hlustendur, að heimilisfaðir sem búinn væri að festa 60–70% af mánaðartekjum heimilisins vegna skulda héldi áfram að taka lán og veðsetja? Auðvitað ekki. Gerði einhver slíkt væri hann talinn meira en lítið klikkaður á því sviði. Og auðvitað á hið sama við um ríkisstj. og stuðningslið hennar að því er þetta varðar.

Um þessar mundir eiga ráðherrarnir tíu tveggja ára afmæli. Og þó að það séu út af fyrir sig engin sérstök tímamót skulum við skoða ferilinn hjá þeim tímenningum. Milli stjórnarflokkanna og innan hvors þeirra um sig er hver höndin upp á móti annarri og enginn veit hvað ofan á verður á degi hverjum. Þetta sést best á því að stjfrv., sem búið er að ræða svo mánuðum skiptir innan stjórnarflokkanna, verða rifrildismál milli þeirra þegar þau eru komin hér inn í þingið og ásakanir og brigsl ganga á víxl. Ástandið hér í þingsölum undanfarnar vikur ber þessu glöggt vitni. Frá því um miðjan apríl munu hafa verið lögð fram hér á Alþingi um 30 stjfrv. Sum þeirra er stjórnarflokkarnir búnir að ræða í allan vetur. Við skulum taka dæmi. Landbrh. Framsfl. hefur lagt fram stjfrv. um landbúnaðarmál. Þingflokkur Sjálfstfl. krefst þess að það verði samþykkt. Flokksbræður landbrh. hóta að stöðva málið og núna á þessari stundu er þingflokkur Framsfl. einmitt að fjalla um þetta mikilvæga mál.

Svona mætti fleiri dæmi nefna um ástandið á stjórnarheimilinu. Er nema von að almenningi í landinu blöskri það háttalag sem ríkisstj. og hennar lið hér á Alþingi hefur uppi varðandi málatilbúnað?

En vilt þú ekki, hlustandi góður, skyggnast með mér í nokkur atriði af afrekaskrá þessara tveggja ára gömlu ráðherra? Á þessum tveimur árum er búið að taka úr launaumslögum hins vinnandi manns 8–9 milljarða kr. Hundruð láglaunaheimila í landinu búa nú við örvinglan og eygja ekki von út úr þeim ógöngum og vanda sem stjórnarstefnan hefur leitt yfir þau. 20 þúsund nauðungaruppboð á íbúðum á s. l. ári á sama tíma og Stigahlíðarauðurinn vex. Búið er að koma sjávarútvegi og fiskvinnslu, þessari undirstöðuatvinnugrein landsmanna á vonarvöl. 1500 manns vantar nú til að frystihúsin séu eðlilega mönnuð. Þetta kostar a. m. k. einn milljarð kr. í verðmætatapi á ári. 30% færri vinna nú við fiskvinnslu en áður var. Á sama tíma blómstrar hér á Reykjavíkursvæðinu bankastarfsemi, verslunarstarfsemi, byggingarstarfsemi og nánast öll starfsemi sem flokkast undir þjónustu.

Bestu sjómennirnir yfirgefa flotann. Besta fiskvinnslufólkið gengur út úr frystihúsunum vegna lélegra kjara og öryggisleysis í atvinnu. Upp hefur verið tekið nú í tvö ár rússneskt alræðisvald í stjórnun fiskveiða. Sjálfstfl., flokkur einkaframtaks og einstaklingsfrelsis, hefur veitt einum framsóknarráðherra alræðisvald yfir stjórnun fiskveiða og fiskvinnslu. Var það þetta sem frambjóðendur Sjálfstfl. lofuðu fyrir kosningar? Og nú spyr ég ykkur, vestfirskir trillubátasjómenn, þegar framsóknarráðherrann meinar ykkur að draga fisk úr sjó yfir hábjargræðistímann og beitir ykkur óréttlæti: Var það þetta sem þeir Steingrímur og Matthías lofuðu ykkur fyrir kosningar?

Landið er að sporðreisast. Fólksflóttinn frá landsbyggðinni og úr framleiðslugreinunum á Reykjavíkursvæðið í þjónustugreinarnar er brostinn á. Á það horfa ráðherrarnir tveggja ára ráðalausir, hreyfa ekki hönd né fót til varnar. Var ykkur ekki lofað þessu, góðir tilheyrendur?

Spillingin eykst og óréttlætið hefur vaxið. Má minna á bílapeninga bankastjóra, eða nefndi einhver nefndarþóknun álkarlanna? Er það ekki sambærilegt við það sem Sóknarkonan með 14 þús. kr. mánaðarkaupið fær? Og hefur ekki eitthvað svipað verið rétt að ykkur sem í fiskinum vinnið eða að ykkur, sjómenn? Munið þið, góðir tilheyrendur, eftir fréttunum í Nútímanum, blaðinu hans Steingríms Hermannssonar, í nóvember s. l. þar sem spurt var: Hver er huldumaðurinn? Hann er tekjulaus en á eignir upp á 35 millj. kr. Ein hjón eiga í sameiningu skuldlausar eignir fyrir 65 millj. kr.

Þetta er afrekaskrá ríkisstj. Var einhver að tala um óréttlæti í þessu þjóðfélagi? Hvað finnst ykkur, góðir launþegar?

Finnst þér, hlustandi góður, í ljósi þess sem við höfum nú skoðað sameiginlega að ráðherrarnir tveggja ára hafi stjórnað réttlátlega, staðið við kosningaloforðin og séu áfram á vetur setjandi sem ráðherrar? Ég á von á því að þitt svar sé svipað og mitt, að sukkið og óréttlætið hafi vaxið. Í þessu landi búa nú tvær þjóðir. Önnur er Stigahlíðarþjóðin og hennar líkar sem sagt hafa sig úr lögum við fjöldann og búa við sín eigin lög. Hin þjóðin eru Sóknarkonur, fiskvinnslufólkið, sjómennirnir og aðrir launþegar sem skapa þjóðarauðinn, þann auð sem hinir lifa á, borgar skattana sem þeir eiga að borga, og hefur borgað fyrir þá eignirnar sem þeir hafa undir höndum. Og svo mætti áfram telja.

Spurningin er: Hvenær er mælirinn fullur? Hvenær lýstur þessum andstæðu fylkingum saman? Hvenær segir hinn kúgaði: Hingað og ekki lengra. Þessari spurningu ættu ráðherrarnir og þeirra lið að veita athygli og velta fyrir sér.

Alþfl. hefur harðlega gagnrýnt þessa stefnu og varað við henni og bent á aðrar og farsælli leiðir og flutt um það ítarleg frv. hér á Alþingi. En þó ríkisstj. skelli skollaeyrum við aðvörunum og málflutningi Alþfl., þá er fólkið í landinu farið að fylkja sér um stefnu og sjónarmið Alþfl. Það sýna skoðanakannanir undanfarið.

Núverandi stjórnarstefna og hið siðspillta spilavíti sem efnahagsstefnan hefur framkallað, þar sem óréttlætið og spillingin hrópar úr hverju horni, þjappar æ fleirum saman um þá róttæku umbóta- og hreinsunarstefnu sem Alþfl. boðar, enda ljóst að það er eina leiðin, eina stefnan sem getur leitt þjóðina úf úr þeim ógöngum sem ríkisstjórnir undangenginna ára hafa yfir hana leitt.

Herra forseti. Launa- og kjaramál eru í brennidepli. Manst þú, launþegi góður, að á s. l. hausti var kaupið þitt hækkað með kjarasamningum um 24%? Er þér ljóst að nú er ekkert eftir af þeirri kauphækkun vegna stefnu ríkisstj.? Allar verðhækkanir sumarsins þýða að óbreyttu beina kaupmáttarskerðingu. Spurningin til þín er þessi: Viltu fara eins að nú í samningsgerð, sem þýðir enginn raunhæfur árangur? Viltu bíða og halda að þér höndum til hausts og horfa á kaupmáttinn hrapa enn frekar vegna stjórnarstefnunnar eða viltu hefjast handa strax og ná raunhæfum kjarabótum án kollsteypu?

Mitt svar er í fyrsta lagi: Það má einskis láta ófreistað til að ná samningum strax og koma þannig í veg fyrir frekara kaupmáttarhrap.

Í öðru lagi þarf að tryggja fiskvinnslufólki og þeim sem vinna að sjávarútvegi hærri laun og láglaunafólki frekari uppbætur og tryggja stöðu þeirra atvinnulega séð.

Í þriðja lagi, náist ekki samningar við atvinnurekendur um tryggingu kaupmáttar verður að krefjast þess af ríkisstj. að hún tryggi þann kaupmátt sem um semst. Þetta verður að ske og það sem allra fyrst.

Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða nótt.