12.06.1985
Efri deild: 96. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6347 í B-deild Alþingistíðinda. (5757)

5. mál, útvarpslög

Frsm. 4. minni hl. (Eiður Guðnason) (frh.):

Herra forseti. Mér hefði ekki þótt verra ef hæstv. menntmrh. hefði séð sér fært að vera viðstödd hér í Ed. (Forseti: Það er verið að gera henni viðvart.) þegar þessi umr. fer fram.

Ég var þar kominn í máli mínu í gær, herra forseti, að ég var að gera grein fyrir þeim brtt. sem ég hef, ásamt hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni flutt við frv. til útvarpslaga og ég hafði aðeins gert grein .fyrir einni till., þeirri fyrstu á þskj. 1208. Hún er við 3. br., 7. tölulið, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Óheimilt er að aðrir aðilar en sá, sem leyfi hefur til útvarpsrekstrar, kosti almenna dagskrárgerð þótt ekki gildi það um einstaka dagskrárliði.“

Nú er það svo að þessi setning er algerlega merkingarlaus eins og hún stendur hér í frv. og verður ekki skilin. Hún er merkingarlaus og.hún er óskiljanleg. Hvað eru lög? Lög eru samskiptareglur. Lög eru reglur um samskipti þegnanna í þjóðfélaginu. Þess vegna verða lög að vera þannig orðuð, skýrt og skilmerkilega, að það þurfi enginn að velkjast í vafa um hvað þau þýða.

Nú skora ég á hæstv. menntmrh., ég geri ráð fyrir að hún kveðji sér hljóðs við þessa umr., að skýra nákvæmlega hvað í þessari grein felst, 7. tölul., sem hljóðar svo:

„Óheimilt er að aðrir aðilar en sá, sem leyfi hefur til útvarpsrekstrar, kosti almenna dagskrárgerð þótt ekki gildi það um einstaka dagskrárliði.“

Hver er munurinn á almennri dagskrárgerð og gerð einstakra dagskrárliða? Hvað er þetta? Til þess að gera þetta skýrara og freista þess að fá einhverja merkingu í þetta er sú brtt., sem við höfum flutt, á þessa leið:

„Óheimilt er að aðrir aðilar en sá, sem leyfi hefur til útvarpsrekstrar, kosti almenna dagskrárgerð eða einstaka dagskrárliði. Þetta gildir þó ekki um áður framleitt myndefni, svo sem kvikmyndir, eða fræðslu- og skemmtiefni af myndböndum.“

Það er ekkert víst að einhugur sé um efnisatriði þessarar breytingar, en með þessum hætti verður lagagreinin þó a. m. k. skiljanleg og sett er undir það að sjónvarpsstöðvar geti sýnt einstaka dagskrárliði, eins og kvikmyndir eða fræðsluþætti, sem hafa verið kostaðir af öðrum. Við getum tekið t. d. dæmi um fræðsluþátt sem Rauði krossinn lætur gera og kostar. Samkv. þessari brtt. okkar er fullkomlega heimilt og eðlilegt að sýna hann, en eins og greinin er orðuð í frv. er alls ekki ljóst hver er munurinn á almennri dagskrárgerð og einstökum dagskrárliðum. Einn svona þáttur er auðvitað almenn dagskrárgerð. Það fer eftir orðanna hljóðan og liggur í hlutarins eðli.

Þá er hér næst, svo ég haldi áfram að gera grein fyrir brtt. á þskj. 1208, liður b. — Ég hef raunar, herra forseti, kosið að draga þann lið til baka — sem hljóðar svo:

„Að því er varðar dagskrárefni á erlendum tungum skulu útvarpsstöðvar fylgja sömu starfsreglum varðandi þýðingar og textun og fylgt er hjá Ríkisútvarpinu.“

Flm. hafa dregið þessa till. til baka og flutt nýja brtt. Það var m. a. vegna þess að í Morgunblaðinu í gær, málgagni menntmrh., segir, með leyfi forseta:

„Íslenskur texti eða tal fylgi erlendu efni. Menntmrh. hefur fallist á að setja í reglugerð um starfsemi sjónvarpsstöðva“ — Ég vek athygli á því að það er þegar byrjað að semja reglugerðir samkv. lögum sem enn hafa ekki verið samþykkt á Alþingi. — „ákvæði um íslenskt tal eða að neðanmálstexti skuli fylgja erlendu sjónvarpsefni.

Ákvæðið hljóðar svo:

„Erlendu sjónvarpsefni, sem sýnt er í íslenskum sjónvarpsstöðvum, skal jafnan fylgja íslenskt tal eða neðanmálstexti eftir því sem við á hverju sinni.

Sé um að ræða beina útsendingu á erlendri tungu skal það vera meginregla að þulur kynni eða endursegi það sem um er fjallað nema bein ástæða sé til annars.“

Ég hef kosið að flytja brtt. við frv. þannig að þessi texti, sem mér finnst afar skynsamlega saminn, komi inn í þetta lagafrv. eins og hann er birtur í Morgunblaðinu. Ég held að þetta sé í rauninni betra en sú till. sem ég hafði látið prenta á þskj. 1208, án þess að ég hafi um það fleiri orð. Brtt. er raunar óþarfi að lesa upp. Hún er eins og fram kom í fréttaklausu Morgunblaðsins. Og ég ítreka að þetta er betra en sú till. sem er í brtt. á þskj. 1208. Þess vegna hef ég ákveðið að flytja þetta sem sérstaka brtt. og hlýtur hún að eiga stuðning hjá hæstv. menntmrh. Þá kem ég að 2. lið sem varðar menningarsjóð útvarpsstöðva. Ég held raunar að það sé enginn ágreiningur um að efla eigi innlenda dagskrárgerð og styðja við bakið á henni í hvívetna og veita auknu fjármagni til innlendrar kvikmyndagerðar og innlendrar dagskrárgerðar í sjónvarpi og útvarpi. En ég er ekkert viss um að þessi leið sé sú besta. Ég held að það komi margt annað til greina þar og ég held að ákvæðið um menningarsjóð útvarpsstöðva, II. kafli í frv., hafi verið sett inn til einhvers konar málamiðlunar og málamiðlunar sem menn séu samt hreint ekkert sáttir við. Og nú skal ég segja hv. þm. hvernig það kæmi út ef ákvæðið um menningarsjóð væri í gildi á þessu ári. Það er að vísu óþekkt stærð í því hvað hinar frjálsu útvarpsstöðvar mundu greiða.

Tekjur Ríkisútvarpsins, hljóðvarps og sjónvarps, af auglýsingum eru um 250 millj. kr. eða verða það að öllum líkindum á þessu ári. Það þýðir, ef þessi lög væru í gildi, að Ríkisútvarpið mundi greiða 25 millj. kr. samkv. orðanna hljóðan hér. 10%, 25 millj., væru tekin frá Ríkisútvarpinu. Að vísu á samkv. 11. gr. líka að greiða hlut Ríkisútvarpsins af rekstrarkostnaði Sinfóníuhljómsveitarinnar af þessum 25 millj. Það er áætlað samkv. yfirlýsingum fjármálastjóra Ríkisútvarpsins. að þessi upphæð verði í kringum 8 millj. kr. á yfirstandandi ári. M. ö. o.: Ríkisútvarpið mundi á þessu ári samkv. þessum ákvæðum, sem ég veit að er mikil andstaða gegn innan Sjálfstfl., greiða 17 millj. kr. í menningarsjóð útvarpsstöðva. Enginn veit hvað hinar nýju útvarpsstöðvar mundu greiða til hans, það er óþekkt stærð, en Ríkisúfvarpið mundi láta af hendi rakna 17 millj. (Menntmrh.: Ætli það fengi ekki eitthvað af því til baka?) Jú, hárrétt, hæstv. menntmrh. Að líkindum fengi Ríkisútvarpið eitthvað af þessu til baka, en það er engin trygging fyrir því að það fengi það allt til baka. Ég er ekki að segja að Ríkisútvarpið yrði notað til að standa undir innlendri dagskrárgerð útvarpsstöðva í eigu annarra. Það er þó ekkert í frv. sem kemur í veg fyrir það. Auðvitað er hugsanlegt að setja í reglugerð ákvæði um að Ríkisútvarpið skuti aldrei fá minna til baka úr þessum sjóði en það borgar í hann. Um það hefur þó aldrei verið rætt, á það hefur aldrei verið minnst og um það vita menn ekki nokkurn skapaðan hlut.

Þess vegna leggjum við til í brtt. okkar að þessi prósenta verði lækkuð niður í 4% . Þá mun Ríkisútvarpið greiða í þennan sjóð upphæð sem er töluvert meiri en rekstrarkostnaðurinn af Sinfóníunni, en upphæðin sem kemur þá frá útvarpinu í sjóðinn verður langtum lægri. Ég er ekkert að segja að þessi prósentutala, 4%, sé sú eina rétta, það getur verið álitamál, en hún er sett fram til að ákveða einhverjar tölur.

Þá höfum við og flutt brtt. við 4. gr. sem er á sérstöku þskj., 1226. Hún varðar auglýsingamálið. Þar er komið inn á það að þeim sjónvarpsstöðvum sem senda efni um boðveitur í eigu sveitarfé.laga sé heimilt að afla sér tekna með auglýsingum. Tilgangurinn með því að setja þessa till. fram með þeim hætti sem þarna er gert er fyrst og fremst að fá alveg skýra afstöðu stjórnarliðsins til boðveitnanna með því að greiða atkv. um brtt. okkar sem mér sýnist ganga lengra en önnur till. sem hér er. Það kemur þá í ljós við þá atkvgr. hver afstaðan er til þessa máls. Við höfum einnig lýst því yfir, Alþfl.-menn, að að þeim ákvæðum föllnum er afstaða okkar til auglýsingamálsins ekki sú sama og áður var. Við áskiljum okkur rétt til að greiða atkv. gegn auglýsingafrelsinu ef ákvæðin um boðveitukerfin verða felld.

Þá er ég kominn að 3. liðnum á þskj. 1208 sem er brtt. við 34. gr. frv. Ég held að till. þeirra sem að meiri hl. stóðu í Nd. sé byggð á einhverjum misskilningi vegna þess að þetta ákvæði er meira og minna út í hött eins og það er í frv. núna og illskiljanlegt. Ákvæðið hljóðar svo:

„Hver sá, sem heimild hefur til rekstrar útvarps samkv. lögum þessum, skal varðveita í a. m. k. 18 mánuði hljóðupptöku af öllu frumsömdu, útsendu efni. Þó er heimilt að varðveita fréttir í handriti. Skylt er að láta þeim, sem telur misgert við sig í útsendingu, í té afrit af hljóðupptöku þeirrar útsendingar.“

Nú leitaði ég skýringa á þessu ákvæði í nál. meiri hl. í Nd. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Talið er eðlilegt að hæfileg skylda sé lögð á'útvarpsstöðvar til varðveislu á frumfluttu efni til að þeir sem telja misgert við sig í útsendingu eigi þess kost að fá afrit af hljóðupptöku.“

Eins og þetta er orðað í frv. eins og það liggur nú fyrir er talað um að geyma í 18 mánuði hljóðupptökur af öllu frumsömdu útsendu efni. Hvað er frumsamið efni og hvað er ekki frumsamið efni. Nú er það svo í útvarpi, og það þekkja þeir sem starfa að útvarpi og sjónvarpi, að ekki er alltaf talað eftir handriti og þegar talað er um frumsamið efni er venjulega átt við einhvers konar dagskrárefni. Ég geri ekki ráð fyrir að það sé almennur málskilningur að undir frumsamið efni flokkist t. d. kynningar þó að þær séu með vissum hætti frumsamið efni. En þetta ákvæði er alveg skelfilega klúðurslegt. Það sem átt er við er auðvitað að það á að skylda þessar stöðvar til að gera eins og Ríkisútvarpið gerir nú, þ. e. að taka upp alla útsendinguna frá morgni til miðnættis eða frá upphafi til enda. Þá er þetta tekið upp á afar hæggeng segulbandstæki sem snúast löturhægt allan daginn og taka upp hvert einasta orð sem sagt er í útvarpinu. Þetta er gert í öllum útvarpsstöðvum um víða veröld, eftir því sem ég best veit. Það eru ákvæði um þetta í útvarpslögum á öllum Norðurlöndunum og auðvitað miklu víðar. En að geyma þetta í 18 mánuði er eins og hver önnur vitleysa. Ef einhver telur misgert við sig í útsendingu kemur það venjulega upp næsta fljótt. Alls staðar þar sem ég þekki til eru geymsluákvæði í 3–4 mánuði látin duga. Það er auðvitað hinn eðlilegi tími. Ef engin eftirmál vakna á þeim tíma vakna þau yfirleitt ekki. A. m. k. á Norðurlöndunum eru 3–4 mánuðir látnir duga og hvergi þar sem ég þekki er slíkt geymt lengur en sex mánuði. Þó kann að vera að það sé til. En eins og þessi grein er núna tekur hún ekki af tvímæli um að það eigi að taka upp alla dagskrána frá upphafi til enda, eins og útvarpið gerir og eins og sjónvarpið gerir. Það er geymt, að ég hygg, í þrjá mánuði. Það er tóm vitleysa að vera að skikka þessar stöðvar til að geyma þetta í 11/2 ár. Af hverju þá ekki tíu ár? Af hverju er þá ekki farið eftir fyrningarfresti um málshöfðun vegna ærumeiðinga? Þetta ákvæði verður að laga.

Þá kem ég að ákvæðum til bráðabirgða. Þar er þau ákvæði að finna sem brýnast er að laga vegna þess — og nú er hæstv. menntmrh. lögfræðingur — að þar eru ákvæði sem fá ekki staðist. Það verða alltaf slys við lagasmíðina öðru hvoru. Síðasta slysið er að í hv. Nd. er samþykkt breyting á lögum sem gengur þvert á stjórnarskrá og er stjórnarskrárbrot, eins og hæstv. forsrh. vakti athygli á þegar hann mælti hér fyrir frv. um ríkisendurskoðun. Í frv. um ríkisendurskoðun, eins og það er eftir 2. umr. í Nd., segir með leyfi forseta:

„2. gr. Forstöðumaður stofnunarinnar, sem nefnist ríkisendurskoðandi, er skipaður af forseta Íslands eftir tilnefningu forseta Alþingis til sex ára í senn.“

Þetta samrýmist ekki stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Forseti Íslands getur ekki gert ráðstafanir af þessu tagi nema til komi atbeini ráðh. Forsetar Alþingis og forseti Íslands hafa skv. stjórnarskrá ekki vald til þess að gera það sem Nd. hefur kveðið á um í lögum og þess vegna verður að breyta því ákvæði og frv. mun fara aftur til Nd.

Sams konar mistök hafa orðið í Nd. við útvarpslagafrv., þó ekki brjóti þau í bága við stjórnarskrá, og nú skal ég gera grein fyrir því. Við 39. gr. þessara laga segir: „Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1986.“ Í ákvæði til bráðabirgða segir: „Útvarpsréttarnefnd skal kjörin fyrsta sinni við gildistöku laga þessara og sitja til ársloka 1989.“ Allt gott um það. Síðan segir: „Stjórn menningarsjóðs útvarpsstöðva skal skipuð fyrsta sinni fyrir árslok 1985,“ þ. e. það á að skipa stjórn sjóðs sem stofna skal skv. lögum sem hafa ekki tekið gildi.

Ég hef borið þetta ákvæði undir þrjá lögfræðinga. Ég bar þetta undir prófessor Sigurð Líndal. Hans niðurstaða varð sú að þetta fengi ekki staðist eins og þetta er orðað. Ég hef borið þetta undir fleiri lögfræðinga, eins og ég sagði tvo aðra, og þeim ber saman um að þetta fái ekki staðist. Þetta er ekki hægt. Ráðh. fær ekki vald skv. útvarpslögum fyrr en 1. janúar 1986. Hann getur auðvitað skipað einhverja nefnd, sem ráðh. kallar stjórn menningarsjóðs útvarpsstöðva, en sú nefnd hefur ekkert vald að lögum vegna þess að lögin hafa ekki tekið gildi. (Gripið fram í.) Hæstv. ráðh. er slakari lögfræðingur en ég hélt. Ef hún skipar þessa nefnd á nýársnótt skipar hún hana ekki á árinu 1985 eins og hér stendur. Ég hef gert brtt. um að þessi nefnd skuli skipuð 1. jan. 1986. (RA: Þetta verður í áramótaskaupinu.) Það færi vel á því, hv. þm. (Menntmrh.: Það er allt í lagi að skipa stjórnina þó að hún taki ekki til starfa fyrr en 1986.) Ráðh. getur ekki skipað stjórn skv. lögum sem hafa ekki tekið gildi. Ef menn hefðu haft rænu á því að orða þetta með þeim hætti: Þrátt fyrir ákvæðið um gildistöku laganna skal skipa stjórn menningarsjóðs á árinu 1985, þá er það sjálfstætt gildistökuákvæði. Nú veit ég að hæstv. menntmrh. er það vel að sér í lögfræði og svo vel að sér að auðvitað veit hún að mismunandi gildistökuákvæði geta mætavel átt heima í lögum, þ. e. mismunandi tími. En það er svo einfalt mál að eins og þetta liggur fyrir í frv. eins og Nd. afgreiddi það frá sér getur Ed. ekki afgreitt málið með þessum hætti. Málið verður að fara aftur til Nd. til að breyta m. a. þessu atriði. Ég tek alveg undir það sem hv. þm. Páll Pétursson, þingflokksformaður Framsfl., sagði í útvarpi í gærkvöldi, þegar þeir ræddust við, hann og hv. þm. Ragnar Arnalds, að auðvitað verðum við hér á Alþingi að vanda okkar vinnubrögð. Við megum ekki láta þennan asa og þrýsting þessa síðustu daga verða til þess að við afgreiðum frá okkur lög sem eru óvönduð, sem eru rökleysa, eins og hér er að finna, eða sem standast ekki, sem stangast á við heilbrigða skynsemi. Þessi gildistökuákvæði fá ekki staðist. Það eru alveg hreinar línur. Það er mjög einfalt mál fyrir okkur hér að koma þessu í skynsamlegra horf og senda málið aftur til Nd. sem vonandi staðfestir þá breytingu. Það er algert meginatriði í þessu máli að þetta gangi upp. Við getum ekki verið þekkt fyrir það hér að láta þetta mál fara frá okkur með þessum hætti. Ég veit að hæstv. menntmrh. er mér alveg sammála um að þannig er ekki rétt að fara að.

Svo er annað í sambandi við ákvæði til bráðabirgða sem ég er ekki sammála og flyt brtt. um. Það stendur hér: „Lög þessi skal endurskoða innan þriggja ára frá setningu þeirra.“ Nú skal ég segja hv. þm. að nákvæmlega sams konar ákvæði er í lögunum um Kennaraháskóla Íslands sem Alþingi samþykkti 1971, að mig minnir. Ég er ekki með þau við hendina. Þar stendur m. a. s., hæstv. menntmrh: „Lög þessi skal endurskoða innan tveggja ára.“ Nú veit ég að hæstv. menntmrh. ber ekki ábyrgð á því sem gerst hefur í þessum málum fyrr á árum, en lögin um Kennaraháskóla Ístands hafa aldrei verið endurskoðuð eftir því sem ég best veit. Hæstv. menntmrh. leiðréttir mig þá ef það er rangt. Þetta ákvæði geta menn fundið í lagasafni, í lögum um Kennaraháskóla Íslands frá 1971: „Lög þessi skal endurskoða innan tveggja ára.“ Hér eru sams konar ákvæði. Það er alveg marklaust. Þess vegna þarf að ganga frá þessu með öðrum hætti til þess að tryggt sé að þessi lög verði endurskoðuð. Til þess er mjög einföld leið eins og farin var þegar tölvulögin, sem svo eru nefnd, voru samþykkt hér. Þá var einfaldlega sett ákvæði í þau um að lögin féllu úr gildi að ákveðnum tíma liðnum og að viðkomandi ráðh. skyldi leggja fyrir þingið nýtt frv. til tölvulaga ári áður en lögin ættu að falla úr gildi. Þetta var gert hér varðandi tölvulögin. Við erum nýbúin að samþykkja þau endurnýjuð með sams konar ákvæði um að þau falli úr gildi og verði endurnýjuð eftir ákveðinn tíma. Það gildir alveg það sama um þessi útvarpslög. Þetta eru hvort tveggja málasvið þar sem mjög örar tæknibreytingar eiga sér stað. Þess vegna er hæfilegt að setja löggjöf til þriggja ára og setja jafnframt mjög skýr ákvæði um að lögin skuli endurskoðuð þannig að tryggt sé að það verði gert. Þess vegna hljóðar brtt. okkar þannig:

„Lög þessi falla úr gildi 31. des. 1988.“

Þau gilda þá nákvæmlega í þrjú ár. Og því næst segir: „Menntmrh. skal leggja fyrir Alþingi nýtt frv. til útvarpslaga á árinu 1988.“

Og síðan kemur 2. mgr. sem er nýmæli: „Menntmrh. skal árlega flytja Alþingi skýrslu um málefni Ríkisútvarpsins og framkvæmd útvarpslaga.“

Ég held, hæstv. menntmrh., ef hún má vera að því að ljá máli mínu eyra um stund, að það sé athyglisvert nýmæli að beinlínis sé kveðið á um það í lögum að árlega sé flutt hér á Alþingi skýrsla um málefni Ríkisútvarpsins og um framkvæmd útvarpslaga. Ég held að þetta sé nýmæli sem er mjög af hinu góða.

Ég var búinn að gera grein fyrir síðari hluta brtt. okkar Karls Steinar Guðnasonar um boðveitukerfi, en eins og ég sagði í ræðu minni í gær eru þau alger forsenda þess að unnt sé að horfa hér á og nota kosti hinnar nýju tækni. Menn horfa ekki á sjónvarp hér frá gervihnöttum nema í mjög takmörkuðum mæli og utan þess tíma sem dagskrá íslenska sjónvarpsins er í gangi öðruvísi en að hér verði komið upp boðveitukerfi. Það er forsenda þess. Og það er hlálegt að Sjálfstfl. skuli standa gegn þessu. Það kom að vísu fram í gær að hæstv. menntmrh. sagði að þetta væri allt í góðri athugun h) á hæstv. samgrh. Ég hef ekki séð hann í þinginu í dag. Ég ætlaði að óska eftir að hann gæfi þá einhverja yfirlýsingu um málið þannig að hægt væri að meta hana og heyra hvernig hún hljóðaði. En ég hef ekki séð hann. Það má vera að hann sé hér.

Í nál. Haralds Ólafssonar, Eyjólfs Konráðs Jónssonar og Árna Johnsen segir:

„Það er álit 3. minni hl. n. að rétt sé að boðveitur, er flytji útvarpsefni, séu í eigu Pósts og síma og sveitarfélaga og hann treystir því að ákvæði þar að lútandi komi innan skamms í fjarskiptalög.“

Mikið er traust þessara ágætu manna. En ég verð að vekja athygli hv. þm. Eyjólfs Konráðs Jónssonar og Árna Johnsen á samþykkt sem landsfundur Sjálfstfl. gerði. Ég veit að þetta er misskilningur hjá þeim og þeir munu taka þau orð til baka þar sem verið er að prédika að Póstur og sími eigi að eiga alla skapaða hluti. Á landsfundi Sjálfstfl. var samþykkt ályktun þar sem fjallað er um þessi mál: „Áherslan verði lögð á frelsi til útvarpsrekstrar án íhlutunarréttar hins opinbera um dagskrárgerð eða fjárhagsmálefni. Prentfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar verði breytt þannig að það feli ótvírætt í sér frelsi til tjáningar án tillits til tjáningarforms. Einkaréttur Pósts og síma á breiðbandskerfum verði afnuminn.“

Landsfundur Sjálfstfl. vill ekkert hafa Póst og síma inni í þessu máli, en af því að við þm. Alþfl. erum að tala um að sveitarfélögin eigi slík kerfi, sem mér finnst fullkomlega eðlilegt og hið eina rétta, þá er farið að snúa sig úf úr málinu með einhverri yfirlýsingu um að hæstv. samgrh. sé að láta athuga þetta allt saman og að það sé í athugun að Póstur og sími eigi þetta. Mín skoðun er sú að Póstur og sími eigi auðvitað að samþykkja þær tæknilegu kröfur sem þarna er um að ræða, en Póstur og sími á bara ekkert að hafa með reksturinn á þessu að gera. Ég veit að við hv. þm. Eyjólfur K. Jónsson getum verið alveg sammála um það þrátt fyrir það sem stendur hérna. Ég veit við getum verið alveg sammála um það. (EKJ: No comment.) Nei, það er nefnilega það. Það segir mér allt.

Ég þykist hér hafa fært töluverð rök að því að ekki er hægt að samþykkja þetta frv. eins og það liggur fyrir og ég get talið upp ótal, ótal mörg fleiri atriði sem ég hafði ekki nennu til að vera að skrifa brtt. um. Það stendur t. d. hér:

„Ríkisútvarpið skal senda út til alls landsins og næstu miða tvær hljóðvarpsdagskrár og minnst eina sjónvarpsdagskrá árið um kring.“

Þröngt skýrt á Ríkisútvarpið að sjónvarpa alla daga. Það er ekkert undanskilið með fimmtudaga. Það segir: sjónvarpa skal árið um kring. Það væri ástæða til að þetta yrði ljósara.

Það segir hérna líka: „Ríkisútvarpið skal starfrækja fræðsluútvarp“ — Gott og vel. Ekki hef ég á móti því. — „í samvinnu við fræðsluyfirvöld og skal veita til þess fé á fjárlögum.“ Þetta er heldur óvenjulegt orðalag í lögum. Það segir nú oftar a. m. k.: þegar fé er veitt til þess á fjárlögum. Og vera má að það sé þó algengt eða þess sjái víðar dæmi að svo sé tekið til orða. En ég vil benda á að algerlega er óskilgreint í lögunum hvernig þetta fræðsluútvarp á að vera. Það er ekkert um það, ekki eitt einasta orð. Þetta er góðra gjalda vert. Það er ýmislegt að gerast í þessum efnum sem við verðum að bera okkur eftir að fylgjast með og sjálfsagt er að gera og ég er ekki að hafa á móti þessu ákvæði. Ég bara bendi á að þarna þarf ítarlegri umfjöllun.

Það er ýmislegt fleira sem hér mætti til taka. T. d. þetta með breiðbandskerfin sem eru sama og kapalkerfi, aðeins fullkomnasta útgáfa af þeim. Ég ítreka að það er ekki nokkur ástæða til að Póstur og sími eigi slík kerfi. Tvímælalaust eiga sveitarfélögin að eiga þau.

Ég þykist hafa leitt hér rök að því að ekki er hægt að samþykkja þetta frv. eins og það er. Ef hv. Ed. samþykkir frv. eins og það liggur fyrir væri það meiri háttar hneisa að láta slíka löggjöf frá sér fara eins og hún er orðuð. En hvaða valkostum stöndum við þá andspænis núna?

Fyrsti valkosturinn er sjálfsagt að breyta þessu frv., sníða af því verstu annmarkana, láta það annars laxera, reyna að gera það þannig úr garði að það sé okkur ekki til skammar og háðungar eins og nú er vegna þeirra annmarka sem ég hef þegar um getið. En þetta er ekki góður kostur vegna þess að þetta mál er illa unnið í alla staði og þetta frv., eins og það liggur fyrir, er óttalegt klastur, bastarður hafa sumir sagt, og það er ekki gott.

Annar kostur er sá að setja nefnd í þetta mál í sumar. Það mætti vel hugsa sér að setja níu manna nefnd í það með fulltrúum allra þingflokka þar sem stjórnarflokkarnir hefðu hreinan meiri hluta. Ég gæti vel hugsað mér að formaður slíkrar nefndar væri forseti Sþ. sem ég veit ekki í hvað mörg ár, 15–20 ár, átti sæti í útvarpsráði og gjörþekkir málefni Ríkisútvarpsins. Slík nefnd gæti starfað í sumar og hún gæti komið lagi á þetta frv. Það væri hægt að leggja það fyrir í haust og hægt væri að láta gildistímann halda sér alveg óbreyttan. Það þyrfti ekkert að breyta neinu með það. Ég er alveg sannfærður um að það væri hægt að ná samkomulagi um þetta mál í sumar. Ég held að þetta væri mjög skynsamlegur kostur.

Í þriðja lagi er sá kostur að leggja þetta vitlausa frv., eins og það nú er alveg til hliðar í bili, en bæta þess í stað bráðabirgðaákvæðum aftan við núverandi útvarpslög. Það var þessi leið sem skoðanabróðir og starfsbróðir hæstv. menntmrh., Lars Roar Langslet menntmrh. í Noregi, fór varðandi norsku útvarpslögin. Sem sagt: það voru sett bráðabirgðaákvæði sem áttu að gilda í þrjú ár eða eitthvað þar um bil hjá þeim, ég skal nú ekki alveg fullyrða um tímann, meðan menn væru að þreifa sig áfram með tilraunir á sviði nýrra útvarpsstöðva og nýrra sjónvarpsstöðva og endurskoða gildandi útvarpslög. Menn tóku sér þennan umþóttunartíma, þrjú ár. Það er mjög skynsamleg ráðstöfun. Þetta væri skynsamlegt að gera hér. Ég er með slíkar tillögur tilbúnar og gæti lagt þær hér fram og geri það kannske til að kynna þessa hugmynd. Ég hef enga von um að hún verði samþykkt. En ég held að það sé langtum skynsamlegri kostur að setja slík bráðabirgðaákvæði aftan við gildandi útvarpslög meðan við erum að ná áttum í þessu máli og í ljósi reynslunnar yrðu lögð fram ný útvarpslög. En það er enginn grundvöllur fyrir neinum skynsamlegum viðræðum við þá sjálfstæðismenn í þessu. Þeir eru búnir að rígbinda sig þannig að það má engu breyta. Þessi deild er sett í þá stöðu að hún á bara að samþykkja frv. með öllum vitleysunum eins og þær koma frá Nd. Ég segi fyrir mig: Ég læt ekki bjóða mér slík vinnubrögð.

Þessi lög eiga ekki að taka gildi fyrr en 1. jan. 1986. Hvað liggur á? Af hverju má ekki samþykkja þau í skynsamlegra formi í haust? Undir hvaða þrýstingi er fólkið? Ég verð ekki var við þennan þrýsting. Það er mjög hávær minnihlutahópur, sem hefur tök á fjölmiðlum og sem á þar greiðan aðgang, sem hefur hátt í þessu máli. En er þetta mál sem fólk úti um hinar dreifðu byggðir landsins telur skipta meginmáli vera stórmál? Ég hef efasemdir um það. Ég er fylgjandi því að réttur til að útvarpa verði rýmkaður, en það verður að gerast með skynsamlegum hætti. Það verður að gerast með löggjöf sem er þannig að við getum a. m. k. horft framan í fólk eftir að hafa samþykkt þau. Það getum við ekki eins og þetta er núna. Hvers vegna má ekki vanda þessi vinnubrögð, hæstv. menntmrh.? Ég bara spyr. Þetta er tómt flaustur og kák.

Ég lét þau orð falla í ræðu minni í gær að ég mundi ekki tala miklu lengur svo að ég skal nú fara að stytta mál mitt, forseti. Það væri vissulega freistandi að gera hér grein fyrir ýmsu sem fram kemur í skýrslu frá Evrópuráðinu frá því í september s. l. haust þar sem fjallað er um þessi mál. Það væri vissulega freistandi, en þá yrði þetta of langt mál að sinni. Ég áskil mér rétt til þess. Það er mjög ítarleg úttekt þar á því sem verið hefur að gerast í útvarps- og sjónvarpsmálum í Evrópu, þessu aukna frelsi, smástöðvunum, hinum nýju stöðvum. Það er fjallað um þetta frá ýmsum sjónarhornum varðandi tjáningarfrelsi, auglýsingar, rekstrarform og ýmislegt. Þetta er feiknafróðleg skýrsla. En hvað hefur verið gert hér af hálfu menntmrn. t. d. til að kanna þá þróun sem orðið hefur í Evrópu? Hefur eitthvað verið gefið út? Hefur eitthvað verið látið á þrykk út ganga um það hvað hefur verið að gerast? Ekki neitt. Þessum málum hefur ekkert verið sinnt þannig að gefnar hafi verið úf skýrslur eða greinargerðir eins og gert er alls staðar í löndunum í kringum okkur þar sem sérstakar nefndir fylgjast með þessu. Frá því að útvarpslaganefndin lauk störfum undir formennsku Markúsar Á. Einarssonar og þau fskj. prentuð sem eru með áliti hennar veit ég ekki til þess að frá rn. eða opinberum aðilum hafi komið einn einasti skrifaður stafur um þróun þessara mála í Evrópu. Ég spyr: Hvaða skýrslur hefur rn. samið eða gefið út og hvað hefur fólk hér fengið að vita um hvernig þessi mál hafa þróast í grannlöndum okkar? Ekki nokkurn skapaðan hlut.

Fyrir skömmu, í síðasta mánuði eða nánar tiltekið í maí 1985, var haldin í Árósum í Danmörku ráðstefna sem hét „Nær-radio í Norden“. Þessa ráðstefnu sóttu tveir fulltrúar Ríkisútvarpsins. Ég hef lesið skýrslu sem annar þeirra skrifaði. Ég hef ekki leyfi til að vitna í hana hér vegna þess að ég hef ekki óskað eftir leyfi hans til þess og mun ekki gera það, en það veit ég að umræðurnar á þessari ráðstefnu komu fulltrúum Ríkisútvarpsins og útvarpsráðs ákaflega mikið á óvart vegna þess að þar var verið að tala um allt aðra hluti. Þar er verið að tala um smástöðvaútvarp þar sem er tjáningarfrelsi, sem er öllum opið. Það er ekki verið að tala um það sem við sjáum í einu dagblaðanna í dag, nánar tiltekið í DV. Þar er verið að tala um að voldugasti auðhringur Íslands, Samband ísl. samvinnufélaga, hrökklist nú út úr Ísfilmfyrirtækinu, þar sem hann hefur hreiðrað um sig með Reykjavíkurborg, Morgunblaðinu og fleiri góðum fyrirtækjum, og stofni sitt eigið fjölmiðlunarfyrirtæki. Til að gera hvað? Reisa keðju útvarpsstöðva hringinn í kringum landið. Ef menn halda að slíkt sé í bígerð á Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu er það misskilningur. Ég sé að ég hef ekki tekið þessa úrklippu með mér, en þetta er allt saman á baksíðu DV í dag og er slegið upp þar rækilega. Sjálfsagt óttast þeir DV-menn að þeir séu að fá þar keppinaut. Ég veit ekki hvort það er þetta sem menn telja að tryggi aukið tjáningarfrelsi hér á landi. Ég er ekkert viss um að tjáningarfrelsi almennings á Íslandi mundi aukast þó að Samband ísl. samvinnufélaga reisti eins og 100 útvarpsstöðvar á Íslandi. Hvað halda þm. um það? Hvað heldur hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sem er mikill áhugamaður um útvarpsmál og árum saman flutti hér frv. um þau? Heldur hann að það sé mikil bót fyrir tjáningarfrelsi hins almenna borgara á Íslandi ef SÍS reisir eins og 100 útvarpsstöðvar eða ef Verslunarráðið reisti kannske aðrar 100? Ég er ekki viss um að almenningur á Íslandi ætti greiðan aðgang að þessum stöðvum. (Gripið fram í: Þær yrðu svo leiðinlegar að það mundi enginn hlusta á þær.) Já, það gæti farið svo. En hins vegar hafa þessir aðilar fullt af peningum og þeir gætu vel keypt til sín fólk með því að borga fjórum sinnum hærra kaup en Ríkisútvarpið greiðir nú og kannske gert nokkuð skemmtilega dagskrá. Það er aldrei að vita.

Ég skal fara að stytta mál mitt, herra forseti. Ég er í grundvallaratriðum þeirrar skoðunar að búið sé að gera þetta mál mjög slæmt. Útvarpslagafrv. var ekki gott þegar það kom frá nefnd á sínum tíma, en það er langtum verra núna. Ég veit að hæstv. menntmrh. er réttsýn kona og henni hljóta að vera mætavel ljósir þeir annmarkar sem ég hef bent á. Ég ætla ekki að fara að nafngreina menn eða vitna í einkasamtöl en mér er alveg ljóst að mjög margir viðurkenna að þau sjónarmið sem ég hef hér talað fyrir og ábendingar sem ég hef flutt séu rétt. Ég hef fengið þann hljómgrunn. Hins vegar fæ ég jafnan þau svör, að hér sé allt geirneglt og niðurnjörvað og það sé engu hægt að breyta.

Ég neita, herra forseti, að lúta þeim vinnubrögðum og lögmálum hér að Ed. beri að samþykkja þær vitleysur sem menn slysast til að samþykkja í Nd. Ég neita að fallast á það. Ég minni aftur á þá breytingu sem menn slysuðust til að samþykkja í Nd. og stangast á við stjórnarskrá landsins. Auðvitað verður að leiðrétta hana. (Menntmrh.: Ekki í þessu máli.) Nei, það er í öðru máli. Ég tók það skýrt fram áðan, hæstv. ráðh. Það er í málinu sem varðar ríkisendurskoðun. En í þessu máli hefur Nd. samþykkt ákvæði til bráðabirgða sem fá ekki staðist. Mér þætti ákaflega gaman ef hæstv. menntmrh. gæti leitt fram eitthvert lögbært vitni sem tæki undir það að þessi ákvæði stæðust. Það er ekki hægt að fela ráðh. vald skv. lögum sem ekki hafa tekið gildi. Þá fyrst öðlast ráðh. vald skv. lögum þegar þau hafa tekið gildi og skv. þessu frv. er það 1. jan. 1986. Fyrr getur ráðh. ekkert gert skv. lögunum. Hann getur auðvitað skipað allar þær nefndir sem honum dettur í hug, en þær eru bara marklausar, hafa engin völd skv. þessum lögum fyrr en þau taka gildi. Ef menn hefðu haft ráð og rænu á því að orða þetta með þeim hætti að þrátt fyrir ákvæði um gildistöku laganna skyldi á árinu 1985 skipa stjórn menningarsjóðs útvarpsstöðva, þá væri komið sjálfstætt gildistökuákvæði og fullkomlega í lagi. Þetta gerðu menn ekki og þess vegna verður annaðhvort að samþykkja að þessi nefnd skuli ekki skipuð fyrr en sama dag og lögin taka gildi eða að setja sérstakt gildistökuákvæði um skipun þessarar nefndar. Það er óhjákvæmilegt. Eins og orðanna hljóðan er í frv. getur hæstv. menntmrh. skipað þessa nefnd daginn eftir að lögin eru samþykkt. Og ótrúlegt er það að í Nd. komu þær skýringar fram að það mætti skipa nefndina eina mínútu fyrir miðnætti 1985. Hvort klukkuna vantar eina mínútu í miðnætti 1985 eða hvort það er 1. júní eða janúar 1985 má einu gilda. Það er samt árið 1985 þegar klukkuna vantar eina mínútu í tólf á gamlárskvöld eins og alla aðra tíma ársins. Það er árið 1985 og því verður ekkert breytt. Þess vegna er það aldeilis með ólíkindum að menn skuli hafa haft uppi þau rök að hægt væri að skipa nefndina á miðnætti.

Ég ætla ekki að sinni, herra forseti, að hafa þessi orð fleiri, en það er langt frá því að ég sé búinn að segja hug minn allan í þessu máli. Ég á margt ósagt enn, en læt þó máli mínu lokið að sinni.