12.06.1985
Efri deild: 96. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6358 í B-deild Alþingistíðinda. (5760)

5. mál, útvarpslög

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Á þskj. 1224 hef ég ásamt meðþm. mínum 8. landsk. þm. Kolbrúnu Jónsdóttur flutt brtt. við þetta frv. til útvarpslaga sem eru að mestu leyti þær sömu og fluttar voru við frv. í Nd. með þeim undantekningum að tekið hefur verið tillit til þeirra breytinga sem á frv. urðu í meðferð þeirrar deildar.

Ég tek undir það með hv. 1. þm. Reykv. að þetta frv. losar sannarlega um fornaldarlegt fyrirkomulag fjölmiðlunar hér á landi. Aftur á móti hef ég það að þessu frumvarpi að finna nú sem endranær að það losar um þetta fyrirkomulag innan ramma fornaldarlegs fyrirkomulags pólitískrar forsjár. Það er það sem ég hef einna helst að frv. að finna. Þess vegna höfum við gert þá brtt. við 2. málsgr. frv. að leyfi til útvarpsrekstrar sé nánast óskilyrtur réttur hvers og eins, að menntmrh. veiti slík leyfi einfaldlega samkv. 3.–6. gr. laganna og að það sé menntmrh. að fylgjast með að þeim ákvæðum sé fylgt, leyfið skuli vera tímabundið til þriggja ára hverju sinni og að farið sé með það með svipuðum hætti og gert er um mörg önnur opinber málefni, að umsókn viðkomandi aðila sé auglýst opinberlega og leitað eftir athugasemdum og þær skoðaðar og teknar til greina ef menn telja það eðlilegt, en að öðru leyti séu menn ekki háðir leyfum og samþykki pólitískra aðila.

Í þessari deild sitja æðimargir fulltrúar Sjálfstfl. og ég verð að viðurkenna að mér er ekki að öllu leyti ljóst hvernig þessi fulltrúar Sjálfstfl. geta þjónað tveim herrum með þeim hætti sem ég hef grun um að þeir ætli sér að gera. Ég hafði ekki lagt mig eftir því að kynna mér landsfundarsamþykkt Sjálfstfl., áleit hana ekki það áhugavert plagg, því að reynslunni samkvæmt veit maður að það vill oft verða að þar er sagt eitt þó að gert sé annað. En ég get ekki betur séð en að í 9. gr. þessarar samþykktar, sem vitnað var til áðan, sé með afgerandi hætti tekið undir þau sjónarmið sem ég er hér að túlka í sambandi við skilyrðingu útvarpsréttar. Þar er sagt: „Áhersla verði lögð á frelsi til útvarpsrekstrar án íhlutunarréttar hins opinbera um dagskrárgerð eða fjárhagsmálefni.“

Þess vegna get ég ekki skilið, og ég býst við að það eigi margir aðrir líka erfitt með að skilja það, hvernig þm. Sjálfstfl. geta rétt hér upp hönd og samþykkt hverja greinina á fætur annarri í þessu frv. þar sem útvarpsréttarnefnd, pólitískum forsjáraðila, er falið það skömmtunarvald sem þau ákvæði þessara laga sem að því lúta veita þessari útvarpsréttarnefnd.

Við leggjum til að ábyrgðin á framkvæmd þessara laga sé í höndum menntmrh. og að menntmrh. sé þar með sem framkvæmdavaldshafi ábyrgur gagnvart löggjafanum sem fylgist með því að lögunum sé framfylgt og rétti einstaklinga og félaga sé borgið, en ekki að ábyrgðinni sé — hvað eigum við að segja — dreift með þeim loðna hætti sem gerist með tilkomu nefndar eins og úfvarpsréttarnefndarinnar þannig að aldrei er hægt að draga nokkurn einn aðila til ábyrgðar fyrir það sem þar gerist af því þar gilda lögmál samtryggingarinnar þar sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka — að vísu ekki BJ — sitja í þeirri nefnd. Þess vegna leggjum við til í c-lið 1. brtt. að hvarvetna þar sem stendur „útvarpsréttarnefnd“ í frv. komi: menntmrh.

Í 2. brtt. er aðaláhersla okkar á seinustu setningunni, þ. e. að settar séu reglur um jafnan tíma er gilda skuli við stjórnmálaumræður, almennt í útvarpi og sjónvarpi. Þetta er gífurlega mikilvægt atriði og þetta er ákvæði sem er að finna í löggjöf eða reglugerðum flestallra landa sem annars búa við mjög mikið frelsi í útvarpsmálum, eins og t. d. Bandaríkjamenn.

Við höfum haft, að því er virðist, nokkra sérstöðu í auglýsingamálum útvarpsstöðva að því leyti að við höfum nánast verið eini aðilinn sem bent hefur á þá mjög svo augljósu staðreynd að vegna fæðar Íslendinga er í raun og veru óhugsandi að menn geti rekið útvarpsstöð hér á áskrifendagrundvelli. Reynsla Norðmanna segir okkur það. Þeir hafa átt þar í mjög miklum erfiðleikum með slíkt og eru þó nokkru stærri þjóð en Íslendingar. Þess vegna teljum við eðlilegt að mönnum sé heimilt að afla sér tekna með auglýsingum til þess að auðvelda þeim aðilum sem annars ættu í mjög miklum erfiðleikum með það að halda úti rekstri sem þessum. Við erum á móti því að útvarpsréttarnefnd hafi nokkuð með það að gera hvert verðlag er á þessum auglýsingum því þar með erum við komin með pólitíska stýringu á þeim þætti og íhlutun ríkisvaldsins getur þannig mjög auðveldlega breytt og lagað samkeppnisaðstöðu aðila í hendi sér að sínum vilja.

Í 4. brtt. eru brtt. við 5. gr. laganna um að sveitarstjórnir hafi einkarétt á uppsetningu kapalkerfa, en heimilt skal sveitarstjórn að framselja þennan rétt til einstaklinga eða félaga með samningum. Hv. 5. landsk. þm. hefur bent mér á að kapalkerfi hljóta að koma í kjölfar þess að við öðlumst möguleika á því að nota sjónvarpsefni frá öðrum löndum og að nauðsynlegt er að strax frá upphafi sé haldið nokkuð skipulega á þessum málum með svipuðum hætti og veitukerfi sveitarfélaga eru skipulögð og yfirleitt á hendi og í eigu sveitarfélaganna sjálfra. Ég tel eðlilegt að eins sé með það veitukerfi sem hér um ræðir. Aftur á móti tryggi önnur ákvæði þessara laga að aðilar eigi aðgang að þessum kapalkerfum samkv. þeim rétti sem þeim er gefinn í öðrum greinum laganna.

Ég legg mjög mikla áherslu á seinni setninguna í brtt. sem er um að á eftir 7. gr. komi ný grein, sem verði 8. gr., um eignarhald á útvarpsstöðum. Það er um það að ræða að setja þau ákvæði inn í þessi lög sem útiloka hringamyndun í þessum rekstri, hringamyndun sem við upplifum í öðrum rekstrargreinum hér á landi, mjög sterklega, og mikil hætta er á að vaxi beint inn í þessa nýju rekstrargrein. Þar er um það að ræða að einstaklingum, sem eigi hlut í fyrirtæki í öðrum greinum fjölmiðlunar, svo sem dagblöðum, sé óheimilt að eiga hlutdeild að útvarpsrekstri og að þetta ákvæði eigi einnig við um fyrirtæki. Þá stendur hér — á það legg ég mikla áherslu — að sami aðill megi ekki reka fleiri en tvær stöðvar.

Hv. 5. landsk. þm. minntist áðan á SÍS. Hann gat um frétt í DV, sem ég veit ekki hversu mikill fótur er fyrir, um að SÍS sé að draga sig út úr því fyrirtæki sem það stofnaði með fleiri aðilum hér á s. l. ári, og ætli sér sjálft að fara út í útvarpsrekstur um landið vítt og breitt þar sem SÍS mun þá reka stöðvarnar þar sem þær verða settar upp. Þarna erum við komnir með mjög hreint og skýrt dæmi hringamyndunar í þessari rekstrargrein. Ég tel að hvaða hug svo sem menn bera til samvinnuhugsjónar megi ekki rugla samvinnuhugsjóninni svo saman við aðra hluti að maður telji það eðlilegt að auðhringur eins og SÍS standi að útvarpsrekstri með þeim hætti sem gefið er í skyn að væntanlegt sé.

Einnig leggjum við til nýja grein, sem verði 9. gr., um nefnd sem kosin verði til að fylgjast með framkvæmd þessara laga og þróun fjölmiðlunar og lagasetningar, bæði hér og annars staðar, og að sú nefnd skili Alþingi skýrslu árlega þar til endurskoðun laganna er lokið. Það er mjög nauðsynlegt að fylgjast náið með þeirri þróun sem verður, bæði hér og annars staðar, á næstu árum í þessum málum og þess vegna er þessi tillaga fram komin. Það er sorglegt að menn skuli ekki hafa áhuga á að fylgjast með þessum málum með þessum hætti sem hér er lagt til því að þegar gildistíma þessara laga er lokið þurfum við að taka á ný afstöðu til þeirra og þá er nauðsynlegt að það sé gert á grundvelli bestu gagna sem hægt er að afla sér. Þess vegna er lagt til að hér starfi stöðugt í þrjú ár nefnd sem vinni slíkt.

Till. í tölul. 6.–11. á þskj. 1224 lúta að þeim kafla sem snertir Ríkisútvarpið og þær ganga í raun allar út á eitt og sama atriðið, þ. e. að taka útvarpsráð, hið pólitíska forsjárvald, út úr starfsemi Ríkisútvarpsins og setja í stað þess ósköp venjulega fyrirtækisstjórn sem er ábyrg gagnvart rn. og rn. síðan ábyrgt gagnvart Alþingi, þannig að völd og ábyrgð aðila í rekstri þessa fyrirtækis séu hreinni og skýrari en nú er og gagnrýni og hugsanlega hrós hvað þessu fyrirtæki viðkemur rati á réttan stað. Sefja skal í stað orðsins „útvarpsráð“ alls staðar: stjórn Ríkisútvarpsins. Forseti Íslands skipi útvarpsstjóra til fimm ára í senn og annist hann rekstur Ríkisútvarpsins o. s. frv. 19. gr. breytist þannig að stjórn Ríkisútvarpsins sé skilgreind, en hana skipi sjö menn, þ. e. útvarpsstjóri, þrír framkvæmdastjórar Ríkisútvarpsins, tveir fulltrúar rn. og einn fulltrúi starfsmanna. Menntmrh. efni til ráðstefnu árlega um málefni Ríkisútvarpsins.

Það er þannig að hjá nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum fer yfirleitt fram árlega, annaðhvort innan þings eða utan, umræða um málefni ríkisútvarpsins í viðkomandi landi. Þar er gerð allsherjar úttekt á því hvernig mönnum finnst hafa til tekist. Þetta er vissulega bæði gott aðhald að þessu fyrirtæki og þar taka menn gagnrýni þá sem fram kemur til greina að svo miklu leyti sem þeir telja hana sanngjarna og þeir geta líka staðið og varið gerðir sínar, hafa til þess vettvang utan fyrirtækisins.

11. liður þessara brtt. er að mínu mati mjög mikilvægur. Hann er mjög mikilvægur vegna þess að þegar þessi lög hafa tekið gildi, í hvaða mynd sem það verður, er Ríkisútvarpið komið í samkeppni við aðra aðila um dagskrárgerð. Ríkisútvarpið er eini aðilinn sem hefur nánast menntað og alið upp ákveðinn hóp sérhæfðra manna til þeirra starfa sem hér um ræðir og það er enginn vafi á því að það verður mjög mikil eftirspurn eftir þessum mönnum og að ný fyrirtæki munu sjálfsagt leitast við að ná starfsmönnum til sín, reyndum starfsmönnum, með tilboðum um betri laun og betri kjör. Þá stöndum við frammi fyrir því að þessir menn þiggja laun eftir launasamningum starfsmanna ríkisins og enginn hefur neitt umboð til að bæta þar um betur. Útvarpið hefur ekki tök á því að bjóða þessum mönnum eftir löglegum leiðum betri kjör ef um það er að ræða að halda í þá. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að útvarpsstjóri fái það umboð að gera beint kjarasamninga við starfsmenn Ríkisútvarpsins þannig að Ríkisútvarpið, sjónvarp eða hljóðvarp, eigi þess kost að bjóða mönnum betri kjör ef um það er að ræða að menn vilji starfa hjá útvarpinu, en geti það einfaldlega ekki vegna þess að þeim standi betri kjör til boða.

Ég veit að það er sjálfsagt mjög erfitt að sætta sig við það á síðustu dögum þinghaldsins að gerðar verði brtt. við þetta frv. sem þýði að það fari aftur til Nd. og orsaki þar svipaðan jarðskjálfta og það gerði þegar það kom þar inn í fyrstu, en ég held samt sem áður að okkur sé sómi að því að breyta frv. þannig að við getum frekar samþykkt það hvað samvisku okkar snertir, sætt okkur við það og leiðrétt líka mjög augljósa galla. Þá á ég ekki bara við tæknilega galla. Ég á við hugmyndafræðilega galla sem eru á þessu frv. og ekki er mjög auðvelt að leiðrétta eftir á þegar skapast hefur ákveðin hefð fyrir framkvæmd þessara laga. Þá er ég enn og aftur að vitna til landsfundarsamþykktar Sjálfstfl. þar sem í 9. gr. var lögð áhersla á frelsi til útvarpsrekstrar án íhlutunarréttar hins opinbera um dagskrárgerð og fjárhagsmálefni. Ég álít að 2., 3. og 4. gr. frv. sem hér liggur fyrir geti ekki á nokkurn hátt samrýmst þessari samþykkt sem ég vænti að allir þm. Sjálfstfl. sem hér sitja inni hafi samþykkt á landsfundinum.