12.06.1985
Efri deild: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6374 í B-deild Alþingistíðinda. (5778)

86. mál, áfengislög

Guðmundur H. Garðarsson:

Ég segi herra forseti. Það verður víst erfitt að nota orðið „virðulegur“ í hv. Ed. eftir þá meðferð sem frv. til l. sem Nd. var búin að samþykkja hefur fengið í hv. deild. Það vill svo einkennilega til að ég er núna varamaður fyrir hæstv. fjmrh. sem á sæti í Ed. Fyrir skömmu átti ég sæti sem varamaður í Nd. Þar var ég búinn að greiða atkv. með því að alþm. hefðu þor og kjark til að taka afstöðu til þess að setja lög um að heimila sölu á áfengu öli. Nú hefur orðið sú breyting á að hv. Ed. hefur samþykkt að þetta skuli fara fram með atkvgr. meðal allra kosningabærra manna.

Á s. l. ári tók ég þátt í umr. sem varaþm. í Nd. um þetta mál. Ég ætla ekki að endurtaka það sem ég sagði þá, enda man ég það ekki svo gjörla. Hins vegar get ég ekki tekið undir þær þakkir sem hv. þm. Björn Dagbjartsson færði deildinni eða þeim mönnum sem lögðu til að breyta þessu frv. til laga með þeim hætti sem hér var samþykkt í 2. umr. því að ég tel ekki þakkarvert að losa þingmenn við að taka ábyrgð á lögum sem hér eru samþykkt á Alþingi. Ég held að það sé fyrsta skylda alþm. að taka afstöðu til laga og þora að gera það meðan hann hefur það umboð. Þetta frv. sem hér er um að ræða og Ed. hefur samþykkt, um allsherjaratkvgr. meðal kosningabærra manna, er þess eðlis að gert er ráð fyrir því að atkvgr. skuli vera ráðgefandi. Hv. Alþingi kemst því ekki undan þeirri ábyrgð að taka fyrr eða síðar afstöðu til þessa máls.

Ég vildi láta þessa skoðun mína koma hér fram og ég vil einnig endurtaka það að mér finnst ekki þakkarvert hvernig hefur verið haldið á þessu máli hér í Ed. Ég mun greiða aíkv. gegn því sem samþykkt var hér við 2. umr.